Sagði nafn bróður síns í fyrsta sinn tveggja ára gamall

Frú Hinch með syni sína tvo í fanginu. Ronnie er …
Frú Hinch með syni sína tvo í fanginu. Ronnie er hægra megin við hana og Lennie til vinstri. Skjáskot/Instagram

Breski áhrifavaldurinn Sophie Hinchliffe varð djúpt snortin á dögunum þegar eldri sonur hennar, Ronnie, sem er tveggja ára sagði nafn litla bróður síns, Lennie, í fyrsta sinn. 

Sophie Hinchliffe, sem best þekkist sem frú Hinch á samfélagsmiðlum, er eins konar Sólrún Diego Bretlands, þar sem þær eiga það sameiginlegt að deila hagnýtum og gagnlegum heimilisráðum með aðdáendum sínum. Þrifadrottningin frú Hinch deildi mærðarlegri myndafærslu á Instagram fyrr í vikunni og lýsti yfir dirfsku sonar síns. Fréttamiðillinn Ok Magazine greindi frá.

„Í dag var sérstakur dagur fyrir okkur vegna þess að í fyrsta skipti sagði Ronnie nafnið hans Lennie. Ég hef aldrei fundið fyrir annarri eins tilfinningu,“ sagði frú Hinch en Ronnie litli hefur verið að glíma við seinan málþroska og jafnvel talgalla sem Hinch hefur talað opinskátt um.

Frú Hinch hefur sagt frá því opinberlega að Ronnie litli hafi verið hjá talþjálfa vikulega um nokkurt skeið og ekki ósennilegt að sú aðstoð sé að skila sér. Um tveggja ára aldur, sem er sá aldur sem Ronnie litli tilheyrir, eiga börn að kunna að segja um það bil 200 orð. Talmein Ronnies og seinn málþroski hans hefur hamlað honum verulega en talmeinasérfræðingar hafa komið fjölskyldunnar til hjálpar með vandann.

„Það er í góðu lagi að börn vaxi og þroskist á sínum forsendum og geri hlutina á sínum hraða með sínum einstaka hætti. Lífið er ferð, ekki kapphlaup,“ sagði frú Hinch og var að vonum stolt af syni sínum. 

Frú Hinch og eiginmaður hennar, Jamie Hanchliffe eignuðust synina tvo með stuttu millibili. Ronnie kom í heiminn árið 2019 en Lennie tæplega tveimur árum síðar, 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert