Hélt að E.T. væri raunverulegur

Leikkonan Drew Barrymore.
Leikkonan Drew Barrymore. AFP

Leikkonan Drew Barrymore var aðeins sjö ára gömul þegar hún fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni E.T. sem kom út árið 1982. Barrymore ræddi um kvikmyndina við leikkonuna Dee Wallace, sem lék móður hennar í myndinni, í þætti sínum The Drew Barrymore Show. 

Það voru fagnaðarfundir þegar leikkonurnar tvær hittust í þættinum og ræddu kvikmyndina, en í ár fagna þau 40 ára afmæli myndarinnar. 

Í spjalli leikkvennanna hélt Barrymore því fram að hún hafi alltaf vitað að E.T. væri ekki raunverulegur heldur vélmenni. Þá sprakk Wallace úr hlátri og sagði að svo hafi ekki verið. Hún hafi eitt sinn komið að henni reyna að spjalla við E.T. þegar enginn var að stjórna honum. 

„Drew Barrymore. Við fundum þig einn daginn, E.T. var settur út í horn þegar hann var ekki notaður. Og við fundum þig vera tala við hann og eftir það lét Steven [Spielberg, leikstjóri myndarinnar] tvo menn stjórna E.T. allan tímann svo ef þú færir að tala við hann þá gæti hann svarað þér,“ sagði Wallace og spurði hana hvort hún myndi eftir því þegar andlát E.T. var tekið upp. 

„Verandi móðirin sem ég er með öllum börnunum sem ég vinn með. [...]. Ég fór til þín og sagði þér að við værum að fara taka upp atriðið þar sem E.T. deyr, en að hann væri ekki að deyja í raun og veru, hann væri bara að leika eins og við hin,“ sagði Wallace og lýsti því hvernig Barrymore hafi horft upp á hana og sagt svo: „Já ég Dee, heldurðu að ég sé eitthvað vitlaus?“. 

Hún sagði svo frá því að Barrymore hafi strax brostið í grát þegar þau byrjuðu að taka upp atriðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert