Brynhildur gengur með tvö börn

Brynhildur Karlsdóttir á von á barni og er að gefa …
Brynhildur Karlsdóttir á von á barni og er að gefa út plötu í maí. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Tónlistarkonan Brynhildur Karlsdóttir hefur í nógu að snúast þetta vorið og má segja að hún gangi með tvö börn. Hún og unnusti hennar eiga von á sínu fyrsta barni en í lok maí kemur út annað barn í plötuformi með hljómsveit hennar Kvikindi. Í dag, föstudag, kemur út smáskífan Enginn kann að lifa sem Brynhildur líkir við hríðir fyrir fæðingu. 

Brynhildur er bæði söngkona í Kvikindi og semur texta. Hún segir lagið fjalla um byrjun á ástarsambandi, fyrsta stefnumótið og ástarvímuna í kjölfarið. 

„Það er innsýn í hugsanir og tilfinningar sem spretta upp og fangar einnig vandræðaleikann við það að deita. Maður segir eitthvað sem maður ætlaði ekki að segja, maður snertist óvart en veit ekki hvort það þýði eitthvað og útsýnið út um bílrúðuna er grátt og ekkert rómantískt. Þó er hægt að sveipa þetta allt ljóma og vandræðalegt samtal og órómó útsýni getur verið það besta í heiminum. Smátt og smátt læðist tilfinningin að þér að þið séuð það eina sem skiptir máli, tvö á móti heiminum og að „enginn kunni að lifa nema ég og þú“,“ segir Brynhildur um lagið. 

Er ekki lengur miðdepill heimsins

Aðpurð segir Brynhildur að meðgangan hafi ekki haft áhrif á textasmíðina við Enginn kann að lifa

„Þetta lag var reyndar samið löngu áður en ég varð ólétt en ástin hefur alltaf verið mér ofarlega í huga og hugmyndir mínar um hana eru í sífelldri þróun. Meðgangan hefur sannarlega haft áhrif á þær hugmyndir mínar. Lagið Enginn kann að lifa fjallar um nýja ást, byrjun á sambandi þegar allt er spennandi og pínu hættulegt. Þessi tegund af ást er æðisleg en þó mjög ólík ástinni sem ég hef í lífi mínu í dag. Bæði er sambandið mitt og barnið í maganum á hverjum degi að kenna mér hvað alvöru skilyrðislaus ást er.“

Brynhildur og samstarfsmaður hennar Friðrik Margrétar-Guðmundsson í Kvikindi eru að …
Brynhildur og samstarfsmaður hennar Friðrik Margrétar-Guðmundsson í Kvikindi eru að gefa út Enginn kann að lifa. Björg Steinunn Gunnarsdóttir hannaði plötuumslagið fyrir smáskífuna. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Ertu að breytast sem listamaður í takt við komandi hlutverk?

„Já, ég myndi segja það. Ég er allavega bara gjörbreytt. Um leið og ég komst að því að ég væri ólétt gerðist eitthvað innra með mér. Praktískir hlutir eins og peningar og húsnæði létu auðvitað á sér kræla en einnig fann ég svo sterkt fyrir því að ég væri ekki lengur miðdepill heimsins. Ég held að það að hætta að hugsa of mikið um sjálfan sig og elska einhvern annan af öllum lífs og sálar kröftum hljóti að gera mann að betri listamanni.“

Raunveruleikinn ekki eins og fantasían

Brynhildur er gengin 33 vikur og segir hún að meðgangan hafi gengið ótrúlega vel. 

„Þetta er alveg sturlað ferli sem hefur bæði veitt mér meiri hamingju en ég hef fundið fyrir áður en einnig alveg gengið frá mér. Þetta er bara svo ólíkt því sem ég hefði getað ímyndað mér. Ég þurfti að takast á við eigin hugmyndir um meðgöngu og hvernig mér fannst hún „ætti“ að vera. Ég hafði alltaf séð mig fyrir mér valhoppandi í fallegum kjól að þefa af blómum uppfull af kvenleika og djúpri visku en það er skemmst frá því að segja að þetta hefur ekki verið þannig. Ógleði, grindarlos og brjóstsviði var ekki partur af þessari fantasíu og hafa sett sitt strik í reikninginn. Samt sem áður finnst mér þetta búið að ganga ótrúlega vel og vera stórkostlegt ferli sem ég er sjúklega glöð og þakklát fyrir.“

Ertu að undirbúa komu barnsins á fullu?

„Já, ég hugsa stanslaust um komu barnsins og er að undirbúa mig andlega þótt ég eigi eftir að kaupa flest. En svo er ég líka heltekin af plötunni okkar og að koma henni í heiminn. Ég er svo ótrúlega stolt að sjá þessa rúmlega tveggja ára vinnu líta dagsins ljós. Ferlið á bakvið þessa plötu á margt sameiginlegt með meðgöngu. Þessi langi tími og þessi mikla eftirvænting. Allavega tilfinningar, hugmyndir sem maður gengur með í maganum, hindranir, að koma hugmyndunum í form og svo loksins að koma plötunni í heiminn og sýna afraksturinn. Útgáfa á Enginn kann að lifa er þá kannski eins og fyrstu hríðarnar í lok þessarar meðgöngu.“

Brynhildur er þakklát fyrir hvernig meðgangan hefur gengið.
Brynhildur er þakklát fyrir hvernig meðgangan hefur gengið. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Er enn að kljást við hormóna

Áður en Brynhildur byrjaði í Kvikindi vakti hún athygli í pönksveitinni Hormónar. Nú er hún að upplifa miklar hormónabreytinga en segir annars konar hormónasveiflur hafa verið upppretta pönksins sem Hormónar spiluðu. 

„Í Hórmónum voru náttúrulega miklar tilfinningar á ferð enda gargandi pönk. Í Hórmónum fékk ég mikla útrás fyrir reiði og aðrar sterkar tilfinningar, einskonar gelgjuskeið, en í Kvikindi finnst mér ég vera orðin fullorðin. Ennþá miklar tilfinningar sem brjótast út en meiri yfirvegun. En í meðgöngunni er auðvitað um allt annars konar tilfinningar og hormóna að ræða. Ég upplifi alveg ótrúlega margar tilfinningar á dag. Það er styttra í þær allar. Ég verð auðveldlega leið eða vonlaus en líka mjög auðveldlega glöð og ánægð og er þá yfirleitt búin að gleyma að ég var leið og vonlaus. Í lok dags er ég sátt og glöð og man ekkert að ég fór að gráta af því ég fann ekki veskið mitt og snöggreiddist þegar konan skipti sér af mér í sundi.“

Ertu búin að velta fyrir þér hvernig mamma þú vilt verða?

„Já ég velti því mikið fyrir mér. Mig langar mest bara að vera ótrúlega elskandi og samþykkjandi móðir,“ segir Brynhildur að lokum. 

mbl.is