Tekur börnin með í pontu

Ólafur Daði, Lilja Rannveig og Haukur Axel á skírnardegi Kristínar …
Ólafur Daði, Lilja Rannveig og Haukur Axel á skírnardegi Kristínar Svölu. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur í nógu að snúast í hlutverkum sínum sem móðir og stjórnmálakona. Lilja Rannveig á börnin tvö; Hauk Axel, fjögurra ára og Kristínu Svölu, tveggja ára, með eiginmanni sínum, Ólafi Daða Birgissyni. Fjölskyldan er búsett á sveitabænum Bakkakoti í Borgarfirði en það er æskuheimili Lilju Rannveigar. 

Segja má að líf Lilju Rannveigar hafi tekið breytingum þegar hún var kjörinn varaþingmaður árið 2017, þá 21 árs gömul. Líf hennar tók einnig stakkaskiptum þegar hún var svo kjörin inn á þing í síðustu Alþingiskosningum, sem fram fóru árið 2021, og var með þeim yngstu sem setið hafa á Alþingi Íslendinga hingað til. Lilja segir mikilvægt að eiga góðan maka þegar sinna þarf börnum og heimili samhliða margvíslegum þingstörfum.

Lilja Rannveig segir son sinn Hauk vera orðinn þaulreyndan í …
Lilja Rannveig segir son sinn Hauk vera orðinn þaulreyndan í að koma með á fundi. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir að ég komst á þing þá varð skipulag mitt þannig að fjóra daga vikunnar fer ég oft að heiman áður en krakkarnir vakna og kem heim eftir að þau sofna vegna skipulagsins á Alþingi. Ég veit oftast ekki hvernig dagurinn minn verður þar,“ segir Lilja Rannveig sem er með mörg járn í eldinum. „Hina þrjá daga vikunnar reyni ég að vera á fjarfundi eða skipulegg mig þannig að fjölskyldan geti komið með mér ef ég er ekki heima,“ segir hún jafnframt og bætir við að börnin séu orðin því alvön að vera með mömmu sinni í för á fundum.

„Haukur er orðinn góður í því að koma með mömmu sinni á fundi um helgar og er sérstaklega spenntur ef hann veit að það eru kökur í boði,“ segir hún og hlær. „Stöku sinnum hafa krakkarnir meira að segja komið með mér í pontu.“

Kristín Svala sefur værum svefni með mömmu í pontu.
Kristín Svala sefur værum svefni með mömmu í pontu. Ljósmynd/Aðsend

Betri á Alþingi en í eldhúsinu

Verkaskipting á heimili fjölskyldunnar í Bakkakoti hefur haldist nokkuð óbreytt frá því að börnin tvö komu til sögunnar og nýtt starfsumhverfi Lilju Rannveigar varð að veruleika. 

„Heimilishaldið hefur breyst lítið. Óli hefur almennt alltaf séð um þvottahúsið og eldamennskuna og ég sé um skipulag, þrif og tiltekt. Ég reyni þó af og til að elda en er því miður hamfarakokkur með nær ekkert lyktarskyn þannig að það hefur ekki alltaf skilað tilætluðum árangri,“ viðurkennir Lilja Rannveig hlæjandi og segist vera mun betri í ræðustól Alþingis en í eldhúsinu.    

„Mínir nánustu hafa margar sögur af misheppnuðum tilraunum mínum til eldamennsku og baksturs. Ég held að hæfileikum mínum sé betur varið annars staðar.“

Ólafur Birgir, eiginmaður Lilju Rannveigar, er duglegur að sinna heimilinu …
Ólafur Birgir, eiginmaður Lilju Rannveigar, er duglegur að sinna heimilinu og börnunum á meðan Lilja Rannveig sinnir mikilvægum störfum á þinginu. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir að Lilja Rannveig sé ekki með börnum sínum öllum stundum sökum starfs síns segir hún fjarveruna frá börnunum hafa kennt sér margt sem hafi jafnvel gert hana að betra foreldri fyrir vikið. 

„Það sem ég hef sérstaklega tekið eftir í mínu fari, eftir að ég settist á þing, er að þegar ég er heima með krökkunum þá nýti ég tímann með þeim mun betur. Ég hef mun meiri þolinmæði fyrir því að sitja lengi með þeim og byggja, leira, leika eða teikna. Þannig að þó að ég sé minna með þeim núna en áður, þá er tíminn betur nýttur,“ segir Lilja sem telur það afar þýðingarmikið fyrir börn að eiga traust vinasamband við foreldra sína. 

„Mér finnst mjög mikilvægt að foreldrar séu vinir barna sinna og verji með þeim tíma. Ég er viss um að krakkarnir finni vel fyrir því þegar við höfum gaman að því að vera í kringum þau. Það endurspeglast í líðan þeirra,“ segir Lilja Rannveig.

Haukur Axel og Kristín Svala kunna vel til verka í …
Haukur Axel og Kristín Svala kunna vel til verka í sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Innsæið sterkt í foreldrahlutverkinu

Hjónin Lilja Rannveig og Ólafur, eða Óli eins og hann er gjarnan kallaður, eru sögð einstaklega samrýnd og skilningsrík hvort við annað. Heimilishald og barnauppeldi eru því ekki undanskilin en Lilja og Óli hafa hingað til átt auðvelt með að stilla saman strengi og fylgjast að í einu öllu sem við kemur barnauppeldinu. 

„Við höfum spilað þetta eftir tilfinningu og þroska barna okkar hverju sinni. Við hjónin höfum verið mjög samstíga í því. Við höfum samt lesið um margar uppeldisaðferðir, sérstaklega útaf náminu hans Óla en hann stundar nám í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Þannig ef við sjáum einhverja góða punkta þá notum við þá,“ segir Lilja sem er dugleg við að hlusta á innsæið sitt þegar kemur að uppeldi barnanna. „Síðan eru börnin okkar mjög ólíkir persónuleikar þannig að ef eitthvað virkar á annað þeirra þá er frekar ólíklegt að það virki á hitt,“ segir hún kímin.

Systkinin Haukur og Kristín hafa komið inn í margar sögufrægar …
Systkinin Haukur og Kristín hafa komið inn í margar sögufrægar byggingar þrátt fyrir ungan aldur. Ljósmynd/Aðsend

Hversu mörg börn langar þig til að eignast?

„Við höfum ekki ákveðið neitt frekar með barneignir. Við Óli höfðum ákveðið að eignast tvö börn snemma og ef við myndum vilja fleiri þá myndum við ákveða það þegar sú löngun kæmi upp. Tíminn verður bara að leiða það í ljós,“ segir Lilja Rannveig og brosir.

Fimm hagnýt uppeldisráð Lilju Rannveigar:

1. Leyfa þeim að halda að þau séu að velja. Við notum mikið þá aðferð að láta börnin velja með leiðandi aðferð. Ef við þurfum að gera eitthvað þá gefum við þeim tvo valkosti þannig að þau hafi þá tilfinningu að þau hafi valið. Það er ekki allt í boði.

Til dæmis: „Núna ætlar þú að tannbursta. Viltu sitja á kollinum eða á gólfinu?” eða „Við erum að fara í leikskólann núna. Viltu fara í stígvélunum eða í strigaskónum í bílinn?”


2. Kenna þeim muninn á nóttu og degi. Við fengum þau ráð strax á vökudeildinni 2017, þar sem við dvöldum með Hauk okkar því hann kom í heiminn fyrir tímann, að kenna börnunum strax muninn á nóttu og degi. Okkur gekk ágætlega að kenna Hauki það og enn betur með Kristínu. Við höfum keypt klukku sem breytir um lit þegar það kemur nótt og aftur þegar það kemur dagur sem hefur verið mikið notuð. Við vorum í smá tíma að finna okkar rútínu fyrir svefninn en um leið og við vorum komin með fasta rútínu þá fundum við hvað háttatíminn varð einfaldari.


3. Skipuleggja langar bílferðir með tilliti til svefns. Við búum 100 km frá Reykjavík og keyrum mjög mikið á milli. Því lærðum við það snemma að það einfaldar mikið ef börnin kunna að sofa í bíl. Þannig að við skipuleggjum nær allar bílferðir þannig að börnin séu að taka hádegislúr eða að fara að sofa fyrir nóttina. Þegar þau fara að sofa fyrir nóttina þá tannburstum við þau og setjum í náttfötin áður en við förum út í bíl.


4. Veita börnum hlutverk á heimilinu. Þetta er ráð kemur úr viskubrunni þingflokks Framsóknar. Í hópnum okkar eru mömmur, pabbar, ömmur og afar sem eru alltaf til í að ráðleggja og sköpuðust fróðlegar umræður hjá nokkrum okkar varðandi þetta. En þar var rætt að það getur gefið börnunum mikið ef þau telja að þau séu að aðstoða á heimilinu. Við fáum krakkana oft til þess að hjálpa okkur með að brjóta saman þvott á sama tíma og við erum að því.


5. Það má kvarta. Stundum er mjög erfitt að vera foreldri. Stundum veit maður ekki hvað er að. Það er eðlilegt. Það gengur ekki allt upp sem maður hafði áætlað. Mér finnst mjög gott að kvarta upphátt við sjálfa mig. Stundum eiga þessar kvartanir alveg rétt á sér, stundum ekki. En það getur bara verið svo gott að segja hlutina upphátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert