Á að senda hana í eftirlit á Landsspítala?

Ljósmynd/Colourbox

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Hér svarar hún spurningu um legbotnsmælingu:

Hversu nákvæmar eru legbotnsmælingar? Eru þær ekki ein leið til að fylgjast með stærð fóstursins og bregðast við ef barnið er ekki að stækka eðlilega? Einnig ef ljósmóðir er óviss með hæð legbotns ætti hún þá ekki að senda móður í eftirlit á Landsspítala?

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Mæling á legbotni er aðferð sem ljósmæður í mæðravernd nota til að meta vöxt fósturs. Stuðst hefur verið við staðlað legvaxtarrit hjá íslenskum konum frá árinu 1988. Markmiðið er að fylgjast með vexti fóstursins og þannig greina þau fóstur sem ekki vaxa eðlilega. Mæling á legbotni er framkvæmd í mæðravernd af ljósmóður frá viku 25. Mælt er með málbandi frá efri brún lífbeins að þreifanlegum legbotni. Þegar líður á meðgönguna stækkar legið og þar með hækkar legbotninn í takt við meðgöngulengdina. Þannig ætti legbotn við 30 vikur að vera 30 sentímetrar en þó eru eðlileg frávik tveir sentímetrar til og frá.

Ýmsir þættir geta haft áhrif á mælinguna eins og fjöldi fyrri þungana, full þvagblaða, fjöldi fóstra og lega barnsins. Einnig getur það haft áhrif ef ekki sama ljósmóðir mælir legbotninn því að mismunandi handbragð getur haft áhrif. Ein stök mæling segir þannig ekki til um vöxt heldur hvernig staðan er á þeim tímapunkti. Því er mikilvægt að safna mælingum til að meta hvort vöxtur fóstursins samsvari sér á milli vikna og haldi sömu línu. Ef línan beygir út af kúrfunni, þ.e. ef grunur vaknar um vaxtarseinkun þá er mælt með sónarskoðun á fósturgreiningardeild Landspítalans. Vona að þetta svari þinni fyrirspurn.

Þú get­ur sent ljós­mæðrun­um spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert