Hefur ekki þolinmæði í að þjálfa dóttur sína

Serena Williams.
Serena Williams. AFP

Tennisstjarnan Serena Williams skráði fjögurra ára dóttur sína, Alexis Olympiu Ohanian, á tennisæfingar á dögunum. Williams var nýlega gestur í spjallþættinum hjá Elleni DeGeneres þar sem hún viðurkenndi að hafa leitað til einkatennisþjálfara fyrir dóttur sína í stað þess að þjálfa hana sjálf.

„Þetta er skemmtileg saga vegna þess að ég hef ekki þolinmæði til að kenna neinum tennis,“ sagði Williams. „Mér leiðist það að spila tennis með fólki sem kann það ekki. Það getur gert mig alveg geðveika. Ég bara get það ekki, hef enga þolinmæði í það,“ útskýrði hún og ákvað því frekar að leita til einkaþjálfara til að leiðbeina dótturinni í íþróttinni. 

Samkvæmt fréttamiðlinum Daily Mail gaf Williams það ekki upp í skráningarferlinu að hún, farsælasta tenniskona fyrr og síðar, væri móðir Alexis Olympiu. Vildi hún koma í veg fyrir að þær upplýsingar gætu haft áhrif á tennisþjálfunina. 

Williams uppljóstraði því svo síðar á Instagram-reikningi sínum að hún hefði skráð dóttur sína í tennistíma og að þjálfarinn væri einn af fylgjendum hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert