Brotnaði niður eftir fósturmissi

Jessie J er enn að vinna úr sorginni sem fylgdi …
Jessie J er enn að vinna úr sorginni sem fylgdi fósturmissinum. AFP

Söngkonan Jessie J segist hafa verið mjög einmana eftir fósturmissi. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum The Diary of a CEO. Söngkonan sem er 34 ára lýsti fósturmissinum og áhrifum þess á hana en þessi erfiða lífsreynsla kenndi henni mikið um að elska sjálfa sig.

„Ég vaknaði einn daginn og vissi að eitthvað var ekki í lagi. Mér var mjög óglatt en hafði einhverja skrítna tilfinningu. Ég fór tvisvar í sónar sama dag, í fyrri sónarnum kom löng þögn og læknirinn sagði að barnið hefði veikan hjartslátt og því fylgdi suð sem merkti oftast að það myndi fæðast mjög fatlað eða vanskapað. Ég ákvað að fara til annars læknis til þess að vera viss og í seinni sónarnum var fóstrið látið,“ segir Jessie J.

Jessie J brast í grát fyrir utan læknastofuna í kjölfar tíðindanna. Þá kom til hennar maður sem reyndi að hugga hana.

„Hann sagði að þetta væri að gerast því ég ætti að tala um þetta. Mér sé ætlað að hjálpa öðru fólki.“

Daginn eftir átti Jessie J að stíga á svið. Hún hugleiddi að hætta við en ákvað að láta slag standa. Á meðan á sýningunni stóð birti hún færslu á Instagram þar sem hún tilkynnti um missinn. Síðan eyddi hún færslunni. 

„Ég man að ég fór heim og var ekki að takast á við áfallið. Daginn eftir var ég komin á svið. Það erfiðasta var ekki að halda tónleikana heldur það sem kom í kjölfarið. Ég var ein. Ég hef aldrei upplifað mig eins einmana og þarna. Ég bara lá þarna og hugsaði um að það væri enn þarna en samt ekki. Sú tilfinning varði í viku. Þá hafði ég hafði engan til þess að brotna niður með en það var eitthvað sem ég hefði þurft.“

„Ég hef alltaf verið mjög barnelsk. Það að verða móðir og eignast barn var eitt það mest spennandi sem ég hef upplifað. Þetta var tekið frá mér. Það er það versta við þetta allt saman.“

Jesse J trúir því að henni var ekki ætlað að eignast barn einsömul. „Ég á að finna einhvern sem þráir þetta jafnheitt og ég. Ég er þakklát fyrir að hafa upplifað það að vera ólétt. Ég lærði að elska mig betur. Ég er enn að reyna að átta mig á þessu öllu. Ég geng í gegnum mikil sorgartímabil en stundum hlakka ég til þess sem er framundan og að ég ætli ekki að vera ein í þessu næst.“

View this post on Instagram

A post shared by Jessie J (@jessiej)

mbl.is