„Aldrei fundið sársauka eins og ég fann þetta kvöld“

Kristín Skagfjörð eignaðist soninn Róbert Nóa í fyrra.
Kristín Skagfjörð eignaðist soninn Róbert Nóa í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Þöll Skagfjörð eignaðist frumburðinn Róbert Nóa í fyrra með kærasta sínum, Guðjóni Kristjánssyni. Meðgangan reyndi virkilega á en fæðingin gekk hins vegar eins og í sögu. Í dag snýst lífið í kringum litla kútinn og hefur Kristín svo mikinn áhuga á öllu sem viðkemur börnum að hún og vinkona hennar eru að byrja að flytja inn barnavörur sem synir þeirra elska. 

Fyrir nokkrum árum ætlaði Kristín ekki að eignast barn fyrr en hún kláraði háskólanám og væri komin í draumavinnuna. Svo tók lífið við og þegar Kristín var búin með grunnnám stóð hún á tímamótum. Hún var ekki viss hvað hún vildi gera næst og tók því ákvörðun með manni sínum að reyna að eignast barn. 

„Ég var ekki alveg að finna mig í vinnunni minni en á sama tíma ekki alveg tilbúin að fara aftur í nám strax. Þá ræddum við kærastinn minn snemma um haustið hvort barneignir væru eitthvað sem við værum tilbúin í, en ég vissi svo sem alveg að það væri eitthvað sem hann langaði mjög mikið. Á sama tíma þá var það alltaf planið að fara erlendis í mastersnám. Ég sótti því einnig um mastersnám erlendis og hugsaði að ef við yrðum svo heppin að verða ólétt vandræðalaust þá væri ekki of svekkjandi ef umsóknin myndi ekki ganga eftir. Svo stóðum við í flutningum um svipað leyti einnig, mér leið svo vel í nýju íbúðinni okkar að það var alltaf einhver togstreita í mér að ég væri kannski ekki alveg tilbúin að flytja þaðan og fara erlendis strax. Við verðum loksins ólétt í byrjun mars 2021 og þá var löngunin byrjuð að stigmagnast mjög. Stuttu seinna komst ég að því að ég væri komin inn í mastersnámið sem ég sótti um í Árósum í Danmörku,“ segir Kristín sem gat sem fengið að fresta náminu vegna barneignaleyfis. 

Eftir grunnnám í háskóla stóð Kristín á tímamótum og ákvað …
Eftir grunnnám í háskóla stóð Kristín á tímamótum og ákvað að eignast barn með kærastanum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Heppin að vera í reglulegu eftirliti

Meðgangan var krefjandi frá upphafi. 

„Fyrst þegar ég fattaði að ég væri ólétt af Róberti Nóa varð ég mjög kvíðin í bland við spennutilfinninguna. En ég held að það sé frekar algengt fyrsta þriðjunginn. Ég ældi nánast daglega fyrstu 16 vikurnar, mér fannst það örugglega vera hvað mest krefjandi þarna í byrjun, sérstaklega þegar maður var ekki búinn að tilkynna. Ég man samt hvað mér fannst ég vera illa svikin um 12. viku þegar ég var ennþá ælandi en flestir sögðu að uppköstin myndu hætta í kringum það leyti,“ segir Kristín. Þrátt fyrir óþægindin fannst henni eitthvað róandi að finna fyrir miklum einkennum og fann fyrir öryggistilfinningu. 

Þegar Kristín hætti loks að æla leið henni betur. Hún naut þess í botn að vera ólétt og fylgjast með kúlunni stækka. Það var svo í kringum 26. viku sem hún byrjaði að finna fyrir verkjum í grindinni. 

„Þeir voru ekkert skerandi en ég var í frekar líkamlegri vinnu og ég fann því oft mikla líkamlega þreytu, sérstaklega á grindarsvæðinu. Svo var það þegar ég var komin 31 viku sem eitthvað gaf sig. Í matarboði um kvöldið fann ég að ég missti nánast alla hreyfigetu fyrir neðan mitti. Ég hef í raun aldrei fundið sársauka eins og ég fann þetta kvöld. Ég gat ekki staðið, setið né legið. Þetta voru svo brjálaðir verkir. Á endanum var ég lögð inn í verkjastillandi meðferð á meðgöngu- og sængurlegudeild. Þar var ég rúmliggjandi í þrjá daga og þurfti hjálp við alla hreyfingu, þarna voru bara litlir sigrar hvern dag eins og til dæmis að geta gengið með göngugrind og að komast á klósettið sjálf.

Sem betur fer stóð litli stubburinn minn sig eins og hetja í bumbunni og lét þetta ekki á sig fá, en þetta var samt svo erfitt andlega líka því ég var alltaf svo hrædd um að þetta myndi hafa einhver áhrif á hann. Eftir þetta fóru næstu vikur í mikla endurhæfingu til að koma mér aftur í sem best líkamlegt stand fyrir fæðinguna. Mér fannst verst að geta ekki sofið á hliðunum en ég var of verkjuð til þess. Óléttar konur mega nefnilega helst ekki sofa á bakinu, og ekki gat ég sofið á maganum. Því var lausnin sú að ég þurfti að sofa í hálf sitjandi stöðu með fjóra til sex púða undir bakinu restina af meðgöngunni.

Það var aldrei fundið almennilega út úr því hvað kom fyrir en það er talið að þetta hafi líklega verið mjög slæm tognun í lífbeini ofan í mikla grindargliðnun. Ég reyndi þó að njóta eitthvað síðustu viknanna og var mikið að stússast í hreiðurgerð og að klára hitt og þetta fyrir komu barnsins. Ég hélt að þetta gæti nú ekki orðið mikið verra úr þessu, en þá fór ég að þróa með mér meðgönguháþrýsting í kringum 35. viku. Ég var þó heppin með það að ég var á þessum tímapunkti í mjög reglulegu eftirliti sem jókst við þetta, enda komin í flokk áhættumeðgöngu. Því var ég mjög þakklát öllu því yndislega starfsfólki sem hugsaði svo vel um okkur á 22b.“

Kristín hefur áhuga á öllu sem tengist börnum og barnavörum.
Kristín hefur áhuga á öllu sem tengist börnum og barnavörum. Ljósmynd/Aðsend

Hlakkar til að fæða barn aftur

Eftir erfiða meðgöngu segir Kristín að fæðingin hafi gengið vel. Það var ákveðið að setja hana af stað á 38. viku vegna megðönguháþrýstingsins en lyfin sem hún tók fóru illa í hana. Hún var fegin að meðgöngunni var að ljúka. 

„Ég gleymi ekki hvað það var mikill léttir að fá þessar fréttir, ég var svo tilbúin að fá litla molann minn í hendurnar og passa hann þar. Þarna var ég líka orðin mjög buguð og grindarverkirnir voru orðnir vægast sagt þreytandi. Ég man að ég átti tíma í gangsetningu klukkan átta á laugardagsmorgni þann 6. nóvember. Ég fékk svo sms snemma um morguninn að það ætti að fresta gangsetningunni minni því það var allt fullt á fæðingardeildinni. Ég var mjög svekkt og hringdi niður eftir og þær vildu allavega fá mig í skoðun. Þegar ég fór í svokallaða „innri skoðun“ kom svo í ljós að ég væri komin með næstum fullstyttan legháls og tvo í útvíkkun. Ég man að ljósmóðirin spurði mig hvort ég væri ekki búin að vera með einhverja samdrætti, en ég var greinilega búin að rugla þeim við grindarverkina. Þá var ákveðið að setja allt af stað og ég fór heim með gangsetningarpillur.

Morguninn eftir fer ég upp á deild í skoðun, ég var mjög slök yfir þessu öllu og mér leið eins og ekkert væri að gerast. Ég tók ekki einu sinni með mér bílstólinn eða spítalatöskuna upp á spítala, sem er mjög ólíkt mér. Ég fann bara einhvern slaka þarna þegar ég vissi að ég væri alveg að fara að fá hann í heiminn. Hins vegar þá var tekin sú ákvörðun um morguninn að sprengja skildi belginn hjá mér. Kærastinn minn var því sendur heim að sækja allt dótið sem við skildum eftir. Frá því að belgurinn er sprengdur, líða um sjö klukkustundir þangað til að ég fékk Róbert Nóa í fangið.“

Meðgangnan reyndi á.
Meðgangnan reyndi á. Ljósmynd/Aðsend

„Að fæða barn er í hreinskilni eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert, glaðloftið virkaði mjög vel fyrir mig svo það gæti hafa spilað smá inn í. Svo var ótrúlegt að eftir allt það maus sem ég gekk í gegnum líkamlega þarna undir lokin þá fann ég mjög lítið fyrir því í fæðingunni. Ég var staðin upp innan við klukkutíma eftir að hafa fengið hann í fangið og grindarverkirnir hurfu nánast á einni nóttu. Ég man að ljósmóðirin mín sagði mér að konur heyri oft slæmu fæðingarsögurnar og of sjaldan þær góðu. Ég get allavega sagt það að ég hlakka mjög til þess að fæða barn aftur. Mín upplifun er sú að fæðingarferlið er svo magnað og það er engu líkt að fá barnið sitt í hendurnar í fyrsta skipti.“

Hefur áhuga á öllu sem viðkemur börnum

„Það eru ótrúleg viðbrigði að eignast barn. Mér fannst ég geta undirbúið mig upp að vissu marki en þetta var alveg smá sjokk hvað allt breytist. Aldrei hefði mig grunað hvað hormónastarfssemin í líkamanum er mikil eftir barnsburð sem að varð til þess að ég fór upp úr þurru að gráta við að fara út með ruslið nokkrum eftir fæðingu. Blessunarlega var það stutt tímabil af móðurhlutverkinu hingað til. Þetta hlutverk er yndislegt og ég finn algjöra skilyrðislaus ást. Maður er að læra eitthvað nýtt á nánast hverjum degi og alltaf að takast á við einhver ný verkefni sem eru bæði krefjandi og skemmtileg.“

Breytist áhuginn mikið þegar maður verður móðir? 

„Já, áhuginn á barnavörum hefur vægast sagt breyst mikið eftir að ég varð móðir. Ég vissi ekki að ég gæti fengið svona mikinn áhuga á barnafötum og þroskaleikföngum, en hér erum við. Ég fann einnig fyrir því að almennur áhugi á börnum yfir höfuð jókst mjög. Ég sýndi börnum almennt ekki mikinn áhuga áður en ég varð ólétt. Núna vill maður heyra allt sem viðkemur barnauppeldi, hvernig svefninn gengur, hvort barnið sé að taka tennur, hvaða fæðu barnið borðar og svo framvegis. Þetta hljómar líklega voða óspennandi fyrir marga. Ég hef mjög mikinn áhuga á nytsamlegum vörum sem auðvelda foreldrum lífið. Við kærastinn minn höfum oft grínast með að það sé hægt að selja þreyttum foreldrum allt. Það eru vissulega nokkrir hlutir sem okkur þykir ómissandi.“

Snerti varla annað en apann 

„Það er vissulega mikil blessun að vera í orlofi með vinkonum sínum en skipst er á ráðum, spjallað saman klukkan sex um morguninn þegar flestir aðrir eru enn sofandi og viðrað sig með vagnana. Ég hef örugglega eytt mestum tíma í orlofinu með Thelmu Lind Jóhannsdóttur, einni af mínum nánustu vinkonum. Hún á níu mánaða strák, Einar Kára, sem er fæddur í júlí 2021. Það mætti segja að við Thelma höfum verið nokkuð samferða í lífinu, við gengum saman í grunnskóla, gagnfræðiskóla, mennta- og háskóla saman. Einnig erum í við þremur sameiginlegum vinahópum sem er mjög hentugt fyrir mig því Thelma er alltaf með alla hittinga á hreinu ólíkt mér. Einnig áttum við okkar fyrsta barn á sama ári og búum í rúmlega kílómetra fjarlægð frá hvor annarri hér vestur í bæ. Við virðumst þó ekki fá nóg af hvor annarri því við erum nýlega búnar að stofna fyrirtæki saman.“

Thelma Lind Jóhannsdóttir og Kristín Skagfjörð eru samrýndar.
Thelma Lind Jóhannsdóttir og Kristín Skagfjörð eru samrýndar. Ljósmynd/Aðsend

Kristín segir að allt hafi gerst mjög hratt í fyrirtækinu þeirra þó svo að sagan eigi lengri aðdraganda. 

„Róbert Nói fékk nagapa frá breska vörumerkinu Matchstick Monkey í gjöf frá ömmu sinni þegar hún kom heim frá Búdapest. Þá var hann einungis tveggja mánaða og ég var ekki búin að pæla í því hvort hann vantaði sérstaklega eitthvað nagdót. Mér fannst nagapinn þó mjög sætt leikfang sem sat fallega í hillunni hans. Ekki leið á löngu þar til hann var farinn að verða pirraður í gómnum og nagaði höndina sína stanslaust ásamt öllu öðru sem í vegi hans varð. Þá prófaði ég að rétta honum apann og það var ekki aftur snúið, hann fór beint upp í munn og gat hann nagað hann stundunum saman.

Hann snerti varla önnur leikföng en hann hefur varla tekið snuð og kom apinn þá einnig að góðum notum í stað snuðsins. Þó hann væri ekki orðinn þriggja mánaða var ótrúlegt að sjá hvað hann réði vel við Matchstick Monkey. Ég sá einnig hvað hreyfifærnin hans jókst mikið við það að leika með apann. Þarna hugsaði ég með mér að ég yrði að eiga annan til skiptanna því Róbert Nói var bókstaflega alltaf með apann sinn og ég vissi ekki hvað ég ætti að gera ef hann myndi týnast. Svo koma þeir í svo mörgum öðrum fallegum litum og gerðum svo það er auðvitað líka gaman að geta valið á milli.“

Róbert Nói tók ástfóstri við nagleikfang sem hann fékk frá …
Róbert Nói tók ástfóstri við nagleikfang sem hann fékk frá ömmu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Ákváðu að stökkva á tækifærið

„Þegar ég fer að skoða vörurnar betur, sé ég að þetta er margverðlaunað vörumerki sem fæst í yfir 50 löndum og er best selda tanntökuvaran í Bretlandi. Það kom mér ekkert á óvart miðað við hversu vel það virkaði fyrir okkur. Ég hugsaði þarna með mér að þetta vörumerki ætti svo sannarlega heima hér á landi. Nokkrum dögum síðar ákvað ég svo að heyra í Thelmu, en við höfðum ófáum sinnum rætt hvað við elskuðum nytsamleg og falleg leikföng fyrir strákana okkar. Við vorum einnig saman í viðskiptafræði í háskólanum og vorum báðar mjög spenntar fyrir því að prófa að vera í eigin rekstri. Til að gera langa sögu stutta, þá heillast Thelma einnig mjög af þessu merki.

Hún átti bókaða ferð til Madríd og fjárfesti í apa þar til þess að prófa hjá syni hennar Einari Kára sem á þessum tíma var sjö mánaða. Það var sömu sögu að segja af honum og Róberti Nóa, hann vildi ekki sleppa taki af apanum, og fannst henni leikfangið nánast vera ómissandi í ferðalaginu, þá sérstaklega í fluginu. Líklega tengja margir foreldrar við að það geti stundum verið erfitt að hafa ofan af fyrir þessum litlu krílum eftir því sem þau eldast og að þau staldra stutt við hvert leikfang en í þessu tilfelli var það sannarlega ekki raunin. Við tókum stökkið og ákváðum að hafa samband við fyrirtækið. Einhvern veginn small þetta ótrúlega vel saman og við fengum einkaleyfi sem dreifingaraðilar vörumerkisins á Íslandi,“ segir Kristín og segir að Matchstick Monkey-vörurnar munu fást í mörgum af þeirra uppáhaldsverslunum á Íslandi. 

Sonur Thelmu elskar líka að nagleikföngin sín.
Sonur Thelmu elskar líka að nagleikföngin sín. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju nagleikföng? 

„Allir foreldrar þekkja vel hið langa tímabil þar sem börn stinga nánast hverju sem er upp í munn. Góð nagleikföng eru því mjög nytsamleg en þau gegna mikilvægu hlutverki til að minnka óþægindi í tanntökuferlinu og sem leikföng þegar börn kanna heiminn með munninum. Það sem við teljum að geri vörurnar frá Matchstick Monkey leiðandi á sviði nagleikfanga er hversu léttar og meðfærilegar vörurnar eru. Það er líka algjör snilld hvað þær eru fljótar að kólna í frysti og hvað það er þægilegt að að þrífa þær. Börn ráða strax vel við vöruna að okkar reynslu við tveggja mánaða aldur sem er oft mikil þörf á fyrir börn sem finna snemma fyrir óþægindum í gómnum. Ekki skemmir fyrir hvað fólk hefur mikið val þegar kemur að gerðum og litum hjá Machstick Monkey.“




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert