Glöð með sig í gjafahaldaranum

Ashley Graham og tvíburadrengirnir.
Ashley Graham og tvíburadrengirnir. Skjáskot/Instagram

Fyrirsætan Ashley Graham var með sjálfsöryggið uppmálað á dögunum þegar hún deildi myndum af sér pósa í brjóstagjafahaldara.

Graham, sem er þriggja barna móðir, er enn með tvíburana sem komu í heiminn fyrir fjórum mánuðum, á brjósti, og gengur hún því í gjafahöldurum til að einfalda sér brjóstagjöfina. Birti hún myndir af sér á Instagram fyrr í vikunni og sýndi að brjóstagjafahaldarar þurfa ekki að líta illa út. 

„Gjafahaldarar hafa aldrei litið jafn vel út,“ skrifaði Graham við myndafærsluna og virtist líða vel með sig klædd einum slíkum og öllu viðbúin. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.

Graham stillti sér upp við hvítan vegg og klæddist gjafahaldaranum við þunnan, gegnsæjan bol og uppháar buxur. Meðgöngu- og brjóstagjafafatnaður er mörgum nýbökuðum mæðrum ómissandi enda eru þægindin höfð í fyrirrúmi þegar slíkur fatnaður er annars vegar. Graham hefur talað opinskátt um allt sem tilheyrir brjóstagjöf og meðgöngu upp á síðkastið og hefur hún mælt með að nýbakaðar mæður klæðist fatnaði sem veitir góðan stuðning.

Hún sagði brjóstagjöfin hafa tekið sinn toll og að hún hafi eytt löngum tíma í að gera hana að notalegri stund bæði fyrir sig og tvíburana.

„Það hefur tekið margar vikur og fullt af tárum til að fullkomna matartímann þeirra,“ viðurkenndi Graham sem deilir tvíburunum, Malachi og Roman með eiginmanni sínum Justin Ervin. Fyrir áttu hjónin soninn Isaac sem kom í heiminn árið 2020.        

mbl.is