Er með börnin viku og viku og skipuleggur tímann út frá því

Hannes ásamt börnum sínum. Þau heita Sara Nadía 16 ára, …
Hannes ásamt börnum sínum. Þau heita Sara Nadía 16 ára, Steindór Örn 14 ára og yngst er Eva Nadía sjö ára. Ljósmynd/Aðsend

Hannes Steindórsson fasteignasali og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er þriggja barna faðir. Honum þykir mikilvægt að kenna börnum sínum að vera heiðarleg og kurteis.  

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú varðst pabbi?

„Úff erfið spurning, sennilega hvað lífið og lífsviðhorfið breyttist mikið. Það er magnað að fara tvö saman niður á spítala og koma þrjú heim."

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera með börnunum þínum?

„Það er svo margt, samveran er skemmtilegust, sú minnsta elskar að spila, hjóla og mála, og með eldri börnunum út að borða, horfa saman á góða mynd með popp og nammi.“

Ertu strangur pabbi?

„Ég myndi segja að ég sé sanngjarn, það eru reglur og börnin fara nánast alltaf eftir. Þau eiga geggjaðar mömmur sem halda vel í taumana og ég fylgi þeim bara.“

Hvað er það mikilvægasta sem börnin þín hafa kennt þér?

„Einlægni og samkennd.“

Hannes og Eva Nadía.
Hannes og Eva Nadía. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða gildi finnst þér mikilvægast að kenna börnunum þínum?

„Auðmýkt, heiðarleika, kurteisi, koma vel fram við alla sem á vegi þeirra verða og dugnaður.“

Hvernig nærðu að halda jafnvægi á milli fjölskyldulífs og vinnu?

„Ég er ennþá að vinna í því, tekst ágætlega en ekki alltaf. Ég er með börnin aðra hverja viku, þá viku vinn ég minna og fæ meiri tíma með þeim, barnlausu vikuna vinn ég meira og bæti þannig upp.“

Er erfitt að finna hluti til að gera saman með öllum börnunum, vegna aldursbils þeirra?

„Það getur stundum verið snúið eins og foreldrar þekkja. Eva Nadía sjö ára fær mestu athyglina. Sara og Steindór eru orðin það stór að þau hjálpa meira til heima við en ekki. Til dæmis ef það á að fara að gera eitthvað þá langar einum að fara að hjóla, einu að fara í bíó og því þriðja niður á tjörn að gefa öndunum brauð. En oftast nást samningar um eitthvað eitt hverju sinni.“

Ertu með ráð fyrir nýbakaða feður?

„Gefðu þér tíma, börnin stækka hratt. Í raun eru nýbakaðir feður með eitt alvöru verkefni og það er að koma börnum sínum til manna. Allt annað eru minni verkefni.“

mbl.is