Þurfti að fullorðnast þegar hún varð ólétt

Aníra Arndal á dæturnar Eyju Dís og Þóru Dís með …
Aníra Arndal á dæturnar Eyju Dís og Þóru Dís með unnusta sínum, Unnari Heimi Skúlasyni. Ljósmynd/Aðsend

Aníta Arndal var að verða 19 ára þegar hún eignaðist frumburðinn Eyju Dís með unnusta sínum Unnari Heimi Skúlasyni. Tveimur árum seinna kom yngri dóttirin Þóra Dís í heiminn. Aníta segir að hún hafi þurft að fullorðnast þegar hún varð móðir. 

„Ég myndi segja að ég væri mjög sanngjörn og góð mamma. Ég reyni mitt allra besta í að ala upp góða einstaklinga sem virða náungan,“ segir Aníta þegar hún er spurð hvernig móðir hún er. 

Aníta segir að það hafi alltaf verið draumur að verða móðir en draumurinn varð að veruleika fyrr en hún ætlaði. „Það var alls ekki planið að verða svona ung móðir þó það hafi allt bjargast og orðið yndislegt,“ segir Aníta. Þó barnið hafi komið á óvart var það akkúrat sem Aníta þurfti á að halda. 

Þurfti að bera ábyrgð

„Ég var að ströggla mikið í lífinu rétt áður en ég varð ófrísk af eldri stelpunni minni. Ég var ekki á góðum stað í lífinu og var alls ekki að leita mér að kærasta en hitti Unnar og við smullum saman. Ég hitti hann í lok september árið 2013 og við fórum að deita. Strax í nóvember komst ég að því að það var lítil baun í bumbunni.

Þetta var að sjálfsögðu mikið sjokk enda líka bara búin að þekkja kauða í nokkrar vikur. En þetta hafðist allt og gekk ótrúlega vel. En þarna vissi ég að ég þyrfti að breytast, ég þyrfti að þroskast. Ég þyrfti núna að fara haga mér eins og fullorðin manneskja, bera ábyrgð á litlu bauninni. Nú þyrftum við að passa upp á peningana okkar, vera skynsöm og hugsa hvernig foreldrar við ætluðum að vera. Í dag er ég svo hamingjusöm að þetta hafi farið svona og komið okkur unga nýja parinu á óvart. Við erum búin að þroskast mikið á stuttum tíma og erum alltaf að dafna saman sem fjölskylda,“ segir Aníta. 

Börnin voru það besta sem kom fyrir Unnar og Anítu.
Börnin voru það besta sem kom fyrir Unnar og Anítu. Ljósmynd/Aðsend

Hefur eitthvað verið meira krefjandi en annað?

„Það hefur verið mjög krefjandi að eiga börn með svona stuttu millibili. Það hefur tekið rosalega mikið á en á sama tíma verður það bara auðveldara sem á líður. Mér finnst í raun allt við móðurhlutverkið krefjandi að einhverju leyti en á sama tíma mjög gefandi og einnig finnst mér það í raun gera mig að betri manneskju á hverjum einasta degi.“

Tók tíma að tengjast yngri dótturinni

Hvernig gengu meðgöngurnar og fæðingarnar? 

„Þegar ég var ófrísk af Eyju, eldri stelpunni okkar, gekk meðgangan frekar vel. Reyndar var ég með frekar mikla ógleði á báðum meðgöngunum. Mér fannst í rauninni ekki mikill munur á meðgöngunum og fæðingunum en það sem var erfiðast voru fyrstu vikurnar þegar Þóra Dís fæddist. Mér fannst svo ótrúlega erfitt að tengjast henni fyrstu tvær vikurnar. En svo kom það og við höfum verið alveg óaðskiljanlegar síðan.“

Hefur eitthvað komið á óvart við móðurhlutverkið?

„Það hefur margt komið mér á óvart og margt sem er ekki talað um. Brjóstagjöfin til dæmis, mér fannst svo ótrúlega vont og mikil kvöð að gefa brjóst en hélt að mér ætti að líða svoleiðis vegna þess að ég hafði aldrei heyrt neinn tala um að það ætti ekki að vera þannig. En Google var minn besti vinur á þessum tíma svo ég náði að googla allt á milli himins og jarðar. Þar fann ég til dæmis að mexíkanahattar væru eitthvað til þess að prufa og brjóstagjöfin var yndisleg eftir að ég byrjaði að nota þá.

Mér fannst líka mjög skítið að eignast tvö börn sem vöru algjörlega svart og hvítt – dökkhærð með frekar dökka húð og svo ljóshærða með ljósahúð. Hvernig gat sama fólkið eignast svona ólík börn? Svo finnst mér líka ekki talað nóg um erfiðu hliðina á móðurhlutverkinu – það er drulluerfitt að vera mamma en auðvitað á sama tíma mjög gefandi og besta hlutverk í heimi.“

Systurnar saman.
Systurnar saman. Ljósmynd/Aðsend

Þetta reddast allt

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Ég legg áherslu á að börnunum mínum líður vel og geta treyst okkur foreldrunum. Mér finnst mikilvægt að þær viti að þær geta alltaf leitað til okkar sama hvað. Svo er líka mikilvægt að vera með góða rútínu því börn elska hana, læra fyrst, leika svo. Svo auðvitað að vera maður sjálfur og koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.“

Besta ráð sem þú átta handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Njóta, njóta og njóta. Mér finnst við ekki njóta nóg bæði á meðgöngunni og með nýfædda krílinu. Njóttu þess að vera ófrísk og geislandi, njóttu þess að vera með lítið ungbarn og leyfðu þér að njóta. Ekki vera að stressa þig of mikið – þetta reddast allt,“ segir Aníta að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert