Líkir syninum við ketilbjöllu

Leikkonan Olivia Munn.
Leikkonan Olivia Munn. AFP

Leikkonan Olivia Munn hefur verið dugleg við að deila myndum úr fjölskyldulífinu á samfélagsmiðlum eftir að hún varð móðir. Hún og kærasti hennar, grínistinn John Mulaney, eignuðust soninn, Malcom Hiệp, fyrir fimm mánuðum. 

Þriggja manna fjölskyldan skellti sér á hafnaboltaleik í Tampa í Flórída á dögunum þar sem hún fylgdist með New York Yankees etja kappi við Baltimore Orioles. Munn myndaði fjölskyldustundina í bak og fyrir og deildi í sögu á Instagram.

Af myndefninu að dæma hefur Malcom litli braggast vel á síðustu mánuðum og er aðeins farinn að síga í. 

Malcom litli er að stækka.
Malcom litli er að stækka. Skjáskot/Instagram

„Mennsk ketilbjalla,“ skrifaði Munn við mynd af syni sínum sem var í fanginu á góðvini fjölskyldunnar, hafnaboltamanninum Nick Swisher. 

Ekki er ýkja langt síðan parið fór að stinga saman nefjum en það var sakað um að hafa átt í framhjáhaldi þegar samband þeirra var gert opinbert. Ekki leið á löngu þar til parið deildi gleðifréttum þess eðlis að það ætti von á sínu fyrsta barni.

Í febrúar á síðasta ári skildi Mulaney við fyrrverandi eiginkonu sína til sjö ára, Önnu Marie Tendler.

mbl.is