Verkfræðingurinn Íris Dögg Kristmundsdóttir á tvo unglinga með eiginmanni sínum, Björgvini A. Guðbjartssyni. Fjölskyldan flutti til Danmerkur þegar börnin voru ung og þar fann Íris að úrval barnaleikfanga var töluvert meira en hér heima. Hún lét nýlega gamlan draum rætast og stofnaði netverslunina Leiksjoppuna með vinkonu sinni, Margréti Eddu Ragnarsdóttur, sem einnig mikil áhugakona um barnaleikföng.
Íris segir að það hafi verið ólýsanleg tilfinning að verða móðir fyrir 18 árum. „Ég trúði ekki að það væri hægt að elska svona mikið, tilfinning sem ég fann fyrst þegar ég hélt á frumburðinum, dóttur minni, í fanginu í fyrsta skipti. Innan við tveimur árum síðar voru þau orðin tvö og magnað að upplifa svona mikla ást í annað sinn. En svona að öðru leyti þá breyttist lífið auðvitað á þann veg að allt í einu var maður komin með einstaklinga sem treystu 100% á að maður væri alltaf til staðar. Í mínu tilviki var það ekki erfitt – held ég hafi verið fædd til þess að sjá um aðra,“ segir Íris.
Íris var komin með tvö börn aðeins 25 ára en segist ekki hafa upplifað sig sem unga móður eða ofurkonu.
„Ég upplifði mig aldrei sem unga móður á þeim tíma. Mér fannst ég svo sannarlega tilbúin í þetta hlutverk og fannst þetta í raun bara vera rökrétt ákvörðun að byrja að stofna fjölskyldu eftir BS nám í verkfræði. Ég hafði einhvern veginn alltaf séð fyrir mér að eiga börnin mín frekar snemma á lífsleiðinni – fá tækifæri til þess, ef guð lofar, að fylgja þeim lengi, lengi í gegnum lífið. Ég á sjálf mjög unga foreldra en þau voru 17 og 19 ára þegar þau áttu mig.“
„Ég upplifi aldrei eins og ég hafi verið eitthvað sérstaklega dugleg þegar ég hugsa til baka. Þetta var vissulega krefjandi verkefni en ég var svo sannarlega ekki ein. Maðurinn minn stóð mjög þétt við bakið á mér þegar ég var í námi. Við höfum alltaf unnið vel saman, skiptum með okkur verkum og tekið á okkur meiri ábyrgð og verkefni ef mikið var í gangi hjá hinum aðilanum. Þannig að nei, að hafa farið þessa leið – ég hafði alltaf einsett mér að mennta mig vel til þess að búa börnunum mínum gott heimili og þetta voru bara verkefni sem þurfti að sinna,“ segir Íris.
„En ég upplifði hins vegar að þegar ég fór út í mastersnámið mitt í verkfræði í Danmörku þá 26 ára með tvö lítil börn að þá fannst samnemendum mínum ég vera einhver ofurkona. Danir voru töluvert seinni að eiga börn en við Íslendingar á þessum tíma og var ég því eini nemandinn á minni braut sem átti börn. Þeim fannst ég því hálf óraunveruleg, að vera gift, í fullu námi og með tvö lítil börn. Enda vildi engin vera með mér í verkefnahóp þegar ég byrjaði í náminu þar sem þau héldu öll að ég myndi ekki geta lagt neitt til vegna mikilla anna heima fyrir. Ég var ekki lengi að sýna þeim að svo væri ekki,“ segir Íris og hlær.
Nú eru börn Írisar orðin 18 og 16 ára og þarfir þeirra breyst töluvert. Að sama skapi breytist hlutverk foreldranna og segir Íris að hún hafði öðlast ákveðið frelsi. Íris tók til dæmis upp á því að bæta við sig vinnu og stofnaði vefverslunina Leiksjoppuna með Margréti.
„Ég er reyndar svo svakalega lánsöm að við fjölskyldan erum mjög náin og þrátt fyrir að börnin séu komin á þennan aldur þá eyðum við mjög miklum tíma saman. En vissulega eiga þau sitt líf líka, eru í skóla, vinnu og þess háttar þannig að þá skapast rými í eitthvað annað. Við vinkonurnar og eigendur Leiksjoppunnar erum báðar með hálf uppkomin börn og njótum þess því að brasa eitthvað svona saman í okkar frítíma. En vissulega hættir maður ekkert að vera móðir og það getur líka verið krefjandi að vera unglingamóðir. Koma bara upp öðruvísi mál sem maður þarf sinna.“
Hvernig breytast fjölskydustundirnar þegar börnin verða eldri?
„Eins og í okkar tilviki þá verða börnin meiri þátttakendur í daglegu lífi. Eins og áður segir erum við mjög samrýnd og við reynum að eiga mjög uppbyggileg og hreinskiptin samskipti við okkar börn. Við tökum ákvarðanir sem fjölskylda og viljum að þau séu meðvituð um það sem er í gangi hverju sinni. Við eyðum miklum tíma saman, ferðumst, spilum, horfum á skemmtilega þætti og leikum okkur líka, förum í lazertag, rennum okkur á sleða og svo framvegis. Það er svo mikilvægt að gleyma ekki leiknum í amstri dagsins, það er nauðsynlegt að hlæja og hafa gaman - rækta barnið í sér.“
Hvað finnst þér mikilvægt að kenna unglingunum þínum?
„Þú uppskerð eins og þú sáir. Fyrst og fremst að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Vera góð og heiðarleg manneskja. Að vera metnaðarfullur og sinna námi og sjálfum sér vel, tómstundum, íþróttum og svo framvegis. Að hafa trú á sjálfum sér og að engir draumar séu of stórir. Það er í lagi að mistakast, þú lærir ekki öðruvísi.
Ég hef reynt að vera fyrirmynd fyrir mín börn. Að vera dugleg og að skapa mína eigin vegferð – það gerir það enginn fyrir mann. Og ef þig langar eitthvað – stefndu að því, láttu á það reyna.“
Er flókið að vera unglingur í dag?
„Ég held að það sé mjög flókið og í raun miklu flóknara en þegar ég var unglingur. Börn eru svo vel upplýst í dag en því miður ekki alltaf rétt upplýst. Það er hægt að leyta sér alls kyns upplýsinga á netinu og því miður hafa þau ekki alltaf þroskann í að sigta út hvað er rétt og hvað er rangt. Samfélagsmiðlar eru varasamir en ég vil alls ekki segja að það sé allt slæmt við þessa þróun.
Mér finnst margir foreldrar því miður vera alltof linir þegar kemur að símanotkun barna sinna. Hleypa þeim alltof snemma á samfélagsmiðla og svo er eftirfylgnin kannski lítil. Þau þurfa að hafa þroska og skilning og eins þarf að kenna þeim að umgangast þetta.“
Írisi og vinkona hennar voru búnar að ræða það lengi að fara í innflutning saman. „Okkur fannst vera gat í markaði þegar kemur að leikföngum fyrir börn og unglinga og fórum á stúfana. Í raun má segja að börnin okkar hafi líka hnippt í okkur og byrjað að tala um ýmisleg leikföng sem ekki fást hér heima en eru til erlendis. Við duttum svo niður á frábær þroskaleikföng frá bandaríska leikfangaframleiðandanum Fat Brain Toys og heilluðumst af þeim. Við byrjuðum að flytja þau inn og fljótlega bættust við batterís drifin baðleikföng frá leikfangaframleiðandanum Yookidoo.“
Þegar þær voru með ung börn fundu þær fyrir að það vantaði fjölbreyttara úrval af bæði vönduðum þroskaleikföngum og skemmtilegum baðleikföngum hér heima. „Við bjuggum báðar erlendis á tímabili þegar börnin okkar voru ung, önnur í Danmörku og hin í Bandaríkjunum, þar sem úrvalið var töluvert betra þannig að við fundum fljótt þegar heim var komið að það var ýmislegt sem vantaði,“ segir Íris.
Vinkonurnar Íris og Margrét leggja áherslu á vönduð leikföng í Leiksjoppunni. „Við viljum fyrst og fremst að þetta séu vönduð leikföng sem geta gengið á milli kynslóða. Að leikföngin styðji við þroska barna, séu viðurkennd og hafi jafnvel hlotið verðlaun eða viðurkenningu á sínum markaði. Að börn vilji leika við þau. Litrík og falleg leikföng. Eitt af því sem vakti sérstaklega áhuga okkar hjá Fat Brain Toys er að þeir eru með sérstakan flokk leikfanga sem hefur reynst foreldrum og ummönnunaraðilum barna með einhverfu og ADHD mjög vel. Hugsjón okkur er líka að hvetja börn meira í leik nú þegar skjánotkun ungra barna fer vaxandi,“ segir Íris.