Lífið varð einfaldara

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Ljósmyndarinn Halldóra Kristín Bjarnadóttir er sjálfstætt starfandi ljósmyndari í Aðaldal í Þingeyjarsveit. Halldóra og Örn Björnsson, eiginmaður hennar, eiga þrjár dætur og segir Halldóra hæglætislífið í sveitinni gera þeim kleift að verja meiri tíma með börnum sínum. 

Hall­dóra er úr Aðal­dal en Örn er Vopn­f­irðing­ur. Þau kynnt­ust í Fram­halds­skól­an­um á Laug­um og tóku saman nokkrum árum eftir útskrift. Fyrst um sinn bjuggu þau á Vopnafirði en það kom fljót­lega í ljós að Hall­dóra þyrfti að vinna lang­ar vinnu­lot­ur ef hún ætlaði að starfa sem ljós­mynd­ari þar. 

„Sá lífsstíll heillaði okkur ekki hvað fjölskyldulíf varðaði og í raun gerðust hlutirnir í framhaldinu nokkuð hratt. Við leyfðum þeim bara svolítið að flæða og áður en við vissum af höfðum við keypt eina húsið sem var á þeim tíma til sölu í Aðaldal, í göngufæri við grunnskólann sem Örn núna kennir í. Á skömmum tíma vorum við komin þangað með labradorhund og barn á leiðinni. Ég get þar líklega þakkað ástinni fyrir að hafa slökkt örlítið á ofhugsaranum í mér, sem leyfði hlutunum bara að gerast,“ segir Halldóra sem ætlaði fyrst eftir framhaldsskóla í verkfræði. Lífið tók heldur betur aðra stefnu og er Halldóra ánægð með útkomuna.

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Sveitin er mín hugarró

Halldóra er dugleg að deila áhugaverðum stundum á Instagram-síðunni sinni. „Ef einhverjir geta notið með mér, þá færir það mér bara aukna hlýju. Sveitarómantík, barnauppeldi, ástríða fyrir skapandi stundum, ferðalögum, móa og hafi, endurnýtingu og nytjamörkuðum, bakstri, list, bókum og gæðastundum. Í þessu skapa ég mitt hæglæti, nýt minnar vegferðar sem ég vil stjórna sem mest sjálf,“ segir Halldóra. 

„Ég tel mig hafa dottið í lukkupottinn hvað lífsförunaut varðar en við erum afar samstíga í uppeldi dætra okkar, brennum fyrir uppeldismálum og almennri líðan barna í samfélaginu í dag. Það er afskaplega gott að geta búið að öxl til að halla sér upp að og gera upp mál dagsins. Maðurinn minn er kennari og almennur fræðigrúskari og deilum við því ástríðu fyrir uppeldi og fáum aldrei nóg af því að ræða uppeldisaðferðir og nálgun við börnin okkar,“ segir hún. 

Örn og Halldóra Kristín eiga stóra og fallega fjölskyldu.
Örn og Halldóra Kristín eiga stóra og fallega fjölskyldu. Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Halldóra segir forréttindi að búa í sveit og ekki síst eftir að þau hjónin eignuðust börnin. „Hér viljum við ala þær upp. Mér þykir svo óendanlega, hrikalega, óheyrilega vænt um þetta blessaða sveitarfélag sem ég bý í og er þar af leiðandi afskaplega þakklát fyrir að geta starfað hér við það sem ég hef ástríðu fyrir. Við getum alið dætur okkar upp dúðaðar í íslenska náttúru og menningararf. Sveitin er mín hugarró, nýslegið tún, fuglasöngur, árniður og þá ró dreymir mig um að dætur okkar taki með sér sem veganesti inn í fullorðinsárin. Í sveitinni eru árstíðirnar afar áþreifanlegar, þú upplifir hverja árstíð svo sterkt. Ég tel líka sveitina fela í sér - ólíkt því sem margir vilja meina – vissan tímasparnað. Við verjum tíma okkar mikið saman og með fólkinu í kringum okkur. Samfélagstilfinningin er sterk. Hér stoppa engin rauð ljós okkur og börnin geta hlaupið um móann, klifrað í hrauninu, gengið upp á hóla og sullað í læknum undir vökulu auga foreldra sinna,“ segir Halldóra. 

„Ég tel kostina við fjölskyldulíf út á landi vera ótal marga en hér í Þingeyjarsveit er afar vel hugsað um okkur. Börnin fá frítt fæði í leik- og grunnskólum og greiðan aðgang að til dæmis iðjuþjálfa, talmeinafræðingi, sálfræðingi og frábærum tónlistarskóla.“

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Lífið breyttist

„Vá hvað allt er eitthvað einfalt núna,“ sagði Halldóra þegar hún hélt á elstu dóttur sinni og leit á Örn, manninn sinn. Hún upplifði í raun sína sterkustu núvitundarupplifun þegar hún varð móðir.

„Allt í einu var bara eitt sem skipti raunverulega máli. Bara eitt sem ég vissi að ég ætlaði að leggja mig alla fram við, að reynast sem best og styðja við. Áður hafði höfuðið á mér verið fullt af alls kyns kröfum á sjálfa mig. Þær kröfur hurfu kannski ekki á einni stundu – en þær fóru svo sannarlega aftar á forgangslistann. Þessi tilfinning var svipuð og þegar ég sit úti í náttúrunni og finn hugann hreinsast. Finn fyrir veðrinu og anda að mér frísku lofti. Finn léttinn. Léttirinn hjá mér yfir þessu nýja hlutverki, móðurhlutverkinu, var sá sami. Skref í átt að núvitund minni.“

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Halldóra fann hvata til þess að læra að skilja huga sinn betur þegar hún varð móðir og ná stjórn á því hugsanaflæði sem hún segir gjarnan yfirtaka huga sinn. 

„Ég vildi geta orðið fær um að rétta dætrum mínum verkfærin og vera eins opin og ég gæti fyrir tilfinningum þeirra og hegðun. Ég vildi að þær lærðu að leita í róna. Vegferðin er þó búin að reynast mér jafn krefjandi og flókin eins og hún er búin að vera gefandi og dásamleg. Daglega kenna dætur mínar mér eitthvað nýtt og ég veit ekkert betra en fá að fylgjast með þeim uppgötva heiminn og njóta hans. Þær hafa hjálpað mér við að ná betri tökum á hæglæti og hæglætislífinu sem er börnum eðlislægt. Með því að fá að gægjast á heiminn í gegnum þau, staldra við og grandskoða steina, blóm eða fugla. Velta fyrir sér einfaldleikanum og gleyma sér í stundinni. Þá upplifi ég fullkomna ró, undir handleiðslu þeirra. Ég er því full þakklætis fyrir að fá að takast á við móðurhlutverkið, því ég veit að það er ekki sjálfsagt.“

Oft er besta skipulagið flæði

„Það að eiga þrjár dætur, fimm ára og yngri, er yndislegt og afar gefandi. Vissulega verður tími þinn að stærstum hluta þeirra en ég lít á það sem forréttindaverkefni. Börn þurfa tíma og eiga að fá tíma. Fyrir annars frekar skipulagða manneskju hefur það þó reynst örlítið krefjandi að átta sig á því að stundum felur besta skipulagið í sér að leyfa hlutunum bara að flæða. Ég er sjálfstætt starfandi ljósmyndari, búsett á landsbyggðinni en samstíga því að eignast þrjár dætur á síðustu árum hefur reksturinn hjá mér líka vaxið og dafnað og hefur það því reynst mér hratt þroskaferli. Ég rek mig enn á að dansa á línum minna eigin marka og er líklega minn versti yfirmaður en ég er líka gríðarlega þakklát fyrir að fá að njóta uppskerunnar og öðlast tækifæri til þess að stjórna tíma mínum sjálf,“ segir Halldóra. 

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Ég upplifði í raun ekkert gríðarlegan mun á barni tvö eða þrjú. Ekkert á við breytinguna við að verða fyrst foreldri. Að fara frá því að þurfa nánast ekki að bera ábyrgð á neinu, nema sjálfum sér, yfir í að bera ábyrgð á lífi annars einstaklings felur jú í sér talsvert stökk. Við barn tvö veistu að þú verður líklega vansvefta í einhvern tíma, getur hálfpartinn búið þig undir það. En ég veit ekki hvernig maður býr sig undir það þegar fyrsta barn er væntanlegt. Þegar þú verður foreldri færðu að stökkva út í djúpu laugina og svamla þar. Frekar magnað svaml ef þú spyrð mig. En vissulega hefurðu bara tvær hendur svo ég hef alveg fundið fyrir því með auknum barnafjölda. Það er vissulega mikið fjör á heimilinu og engir tveir dagar eins, sem hentar mér vel.“

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

„Ég haga vinnufyrirkomulaginu mínu þannig að dætur mínar byrja eldri en mörg börn á leikskóla og eru í framhaldinu stutta daga, fjórum sinnum í viku. Með þeim hætti höfum við fjölskyldan náð miklum og dýrmætum tíma saman. Tíminn er nefnilega það dýrmætasta sem okkur er gefið og eitt er víst að börnin vaxa hratt úr grasi.“

Foreldrarnir Halldóra og Örn hafa einnig áttað sig á því hversu mikilvægt það er að vera vel nærð, andlega og líkamlega. Ef þau eru það ekki, segir Halldóra að stundirnar með dætrunum vera margfalt flóknari. „Börn eru nefnilega eins og svampar og það er eiginlega ótrúlegt hvað þau skynja tilfinningar og líðan fólksins síns sterkt. Ég bý að því að hafa verið frekar næmt barn og ég reyni því að minna mig reglulega á að dætur mínar eru það líklegast líka. Til þess að þeim líði sem best er því vissulega ákjósanlegast að okkur foreldrunum líði sem best líka. Foreldrahlutverkið hefur því svo sannarlega krafið okkur um sjálfsvinnu, sjálfsást og skilning,“ segir Halldóra. 

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Húsið er úti í móa

Hvað leggið þið áherslu á í uppeldinu?

„Við leggjum mesta áherslu á að dætur okkar læri að skilja og virða tilfinningar sínar. Þær fái tækifæri til þess að átta sig á því, í öruggu umhverfi, að það sé allt í lagi að líða allskonar, þær geti alltaf gengið að hlýju faðmlagi sem vísu, ró og samræðum. Okkur er það afar hugleikið að dætur okkar búi að sterkri sjálfsmynd og við vitum að það er ekki sjálfsagt. Við hvetjum þær því mikið til þess að vera sjálfstæðar og fylgnar sér. Við leggjum mikið upp úr þakklæti, enda vinnur það gegn neikvæðni sem ég er þakklát fyrir. Við leggjum áherslu á frjálsan leik og leyfum dögunum að flæða eins og við mögulega getum. Skapandi stundir ráða ríkjum hér. Það er málað úti sem inni, föndrað, bakað og eldað, sungið, dansað og leiksýningar settar upp. Lestur er okkur afar hugleikinn en það líður ekki dagur án þess að við lesum fyrir dætur okkar enda sækja þær í slíkar stundir. Útivera og hreyfing er okkar næring og eyðum við því miklum tíma úti. Húsið okkar er bókstaflega staðsett úti í móa sem býður upp á ótal ævintýri en ekki síður fullkomna ró,“ segir Halldóra. 

„Við viljum að hreyfing og hollar matarvenjur séu stór hluti af lífi okkar og með þeim hætti gefa dætrum okkar vonandi sem heilbrigðast veganesti. Við leggjum mikla áherslu á að dætur okkar læri að meta allar árstíðir - en það er veganesti sem afi minn heitinn Guðmundur veitti mér og ég verð honum ævinlega þakklát fyrir.“

Þrjú börn ekki svo mikið

„Ég á þrjú yngri systkini og maðurinn minn er miðjubarn í hópi fimm systkina – svo í raun finnst mér þrjú börn ekki mikið. Í æsku var ég mikið með systkini mín og passaði fyrir aðra í sveitinni. Ég þekki því lítið annað en að vera mikið í kringum börn og fór að framhaldsskóla loknum til Ítalíu sem au pair og sá þar um fjögur börn. Í ómeðvituðu ofurskipulagi þess tíma hafði ég ósjálfrátt sett þá mynd í kollinn á mér að ég yrði búin að eignast öll mín börn fyrir þrítugt. Ég velti því því þó ekkert gríðarlega fyrir mér en mánuði eftir að ég varð þrjátíu ára eignuðumst við maðurinn minn okkar þriðju dóttur og gætum ekki beðið um meira. Það er okkur ómetanlegt að fá að fylgjast með dætrum okkar mynda einstakt samband sín á milli og var það hluti í þeirri ákvörðun hjá okkur að láta ekki líða langt á milli – að þær myndu allar fylgjast ágætlega að,“ segir Halldóra. 

Hún viðurkennir þó að hafa ekki dreymt um að ganga með barn sjálf. „Ég gat alveg hugsað mér að eiga barn, en hlakkaði ekkert sérstaklega til þess að ganga með barn. Get næstum viðurkennt að hafa fundist meðgöngur svolítið óhuggulegar og var því ekki viss um að ég nyti þess ferlis enda aldrei verið mikið fyrir óhuggulega hluti. Ég hélt því alltaf að mér að það væri ekki sjálfsagt að ég gæti gengið með barn. Svo það var í raun í fyrra sem ég hálfpartinn fann sjálfan mig klípa mig í handlegginn, að ég væri raunverulega að upplifa mína þriðju meðgöngu á fjórum árum. Ég var orðin nokkuð heilluð. Á þessum tíma lærði ég að bera virðingu fyrir líkama mínum, á allt annan hátt en áður. Ég komst að því að líkami minn – líkami kvenna, er magnaðri en mig hefði órað fyrir! Þetta er allt frekar klikkaður rússíbani! Í raun ótrúlegt ferli og kannski allt í lagi að þakka blessuðum kroppnum, öðru hvoru, fyrir að leggja þetta á sig og tækla verkið bara nokkuð vel.“

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Auk þess að deila hug­sjón­um sín­um á síðunni Hkbmoments á In­sta­gram held­ur Halldóra Kristín úti In­sta­gram-síðunni og Face­book-síðunni Leik­sam­fé­lagið með 11 öðrum mæðrum.

„Við eigum það allar sameiginlegt að brenna fyrir uppeldi barna og vilja miðla á jákvæðum nótum hugmyndum að örvandi og skapandi samverustundum fyrir nám og leik barna. Það hefur reynst mér afar hvetjandi að fá að vera partur af þessu gefandi samfélagi og kynnast öllum þessum sterku og ástríðufullu konum,“ segir Halldóra. 

Draumadagur í Aðaldal

Hvernig er draumasunnudagur hjá fjölskyldunni í Aðaldal?

„Draumasunnudagur hefst á góðri tónlist. Það er hefð sem ég er þakklát Erni fyrir að hafa byrjað á. Hann setur góða tónlist af stað, stelpurnar eru fyrir löngu allar skriðnar upp í til okkar, og við kúldrumst, hlæjum og spjöllum saman. Slíkir morgnar eru bestir. Síðan hellum við upp á kaffi og ég skelli í lummur, hafragraut, eitthvað hlýtt og gott, og smelli súrdeigsbrauðinu í ofninn, eða súrdeigsbeyglum – ég er reyndar líka frekar háð þeim. Stelpurnar eru óðar í spil svo líklega spilum við einn Olsen eða drekaspilið svokallaða. Allir ennþá passlega úfnir og á náttfötunum. Ef sólin skín er síðan best að fara út á tásunum og borða morgunmatinn úti, en ef úti blæs er mikilvægt að kveikja á kerti, jafnvel nokkrum.

Eftir líklega nokkur búningaskipti og samskipti við ólíklegustu kynjaverur undir stjórn eldri dætra okkar, klæðum við okkur í föt dagsins og höldum út. Sameiginleg ástríða okkar er nefnilega að fara í góðar gönguferðir eða setjast upp í bíl og keyra, helst bara eitthvert. Oft endum við þá við torfbæ þar sem heimilisfaðirinn er hugfanginn af torfi og grjóti, eða í fjöru þar sem ómögulega er hægt annað en að gleyma sér – um aldur og eilífð. Hraunið er líka allsráðandi í Aðaldal og leynast því ævintýraperlurnar víða! Það eina sem sunnudagsferðirnar eiga þó sameiginlegt er mikilvægi þess að hafa með sér gott nesti. Þar koma til dæmis súrdeigsbeyglurnar aftur sterkar inn.

Ljósmynd/Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Í forstofunni hangir hér líka alltaf grænn lítill  bakpoki en í honum geymi ég allskyns góss sem auðveldar ævintýrasköpun. Hann er því gjarnan gripinn með. Hægt er því að setjast út og mála, lesa, spila, rannsaka með stækkunargleri, taka myndir, gleyma sér með höfuðljós, elta fjársjóðskort, kíkja í gegnum kíki, blása sápukúlur eða tína efnivið til frekara föndurs - svo einhver dæmi séu nefnd. Græni pokinn heldur utan um þetta allt, hálfgerð skilaboðaskjóða endalaus. Sunnudagsbíltúrinn getur líka endað við næstu sundlaug sem er vinsæll samverustaður, enda er mögulega besta sundlaug landsins staðsett í sveitarfélaginu. Þessir blessuðu sunnudagar eru nefnilega stútfullir af möguleikum, dæmalausum, endalausum möguleikum.

Við eldum síðan saman eitthvað ljúffengt þegar heim er komið og kúrum okkur yfir lestri þangað til öll litlu augnlok heimilisins lokast. Þá spjöllum við foreldrarnir í kyrrðinni. Þögninni. Hjúfrum okkur síðan undir sæng – tilbúin að tækla mánudaginn. Hver elskar ekki mánudaga?“



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert