Draumurinn að rætast

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir og Helga Reynisdóttir voru að stofna nýja …
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir og Helga Reynisdóttir voru að stofna nýja Ljósmæðraþjónustu. mbl.is/Hákon Pálsson

Ljósmæðurnar Helga Reynisdóttir og Hildur Sólveig Ragnarsdóttir hafa unnið lengi við að taka á móti börnum en nú er nýr kafli að hefjast í þeirra lífi. Helga og Hildur Sólveig stofnuðu nýverið Ljósmæðraþjónustuna.  

„Við höfum fundið fyrir því í gegnum okkar starf að það er mikil þörf fyrir fræðslu á þessum tímamótum í lífi fólks. Við sjáum það að verðandi foreldrum, sem sækja sér þekkingu á þessum tímapunkti, vegnar betur. Eftirspurnin er mikil og frábært að geta veitt verðandi foreldrum fjölbreytt val. Okkar sérstaða er kannski sú að við höfum báðar unnið lengi í fæðingum og erum duglegar að sækja okkur nýja þekkingu á því sviði. Þannig sjáum við fyrir okkur að við getum nýtt okkar þekkingu og reynslu í þágu foreldra. Og já, það er komið nafn á drauminn okkar, það er Ljósmæðraþjónustan. Við verðum til húsa í Lífsgæðasetrinu sem er gamli St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði. Það er nýbúið að endurnýja hann, allt er splunkunýtt og alveg sjúklega flott,“ segja þær. 

„Á stofunni hjá okkur stendur foreldrum til boða að koma í kynjasónar við 16-17 vikur og í þrívíddarsónar með splunkunýju sónartæki sem er með því besta sem til er á markaðnum í dag. Í tækinu er svokölluð Smartface tækni sem gerir myndina af barninu kristaltæra og tekur allt óþarfa úr umhverfinu. Fólk fær svo myndirnar og myndbönd beint í símann. Við munum líka bjóða upp á persónuleg og notaleg fæðingarfræðslunámskeið fyrir foreldra í fallega salnum okkar. Þegar fram líða stundir munum við einnig bjóða upp á brjóstagjafanámskeið. Konur munu geta komið til okkar í nálastungur en þær gagnast gjarnan konum vel við algengum meðgöngukvillum eins og ógleði og grindarverkjum. Þá mun Hildur einnig geta aðstoðað konur með því að setja undirbúningsnálar fyrir fæðinguna en rannsóknir benda til þess að þær geti stytt fyrsta stig fæðingarinnar.

Mikilvægt að vera líka á gólfinu

„Við höfum á milli okkar áratugareynslu af fæðingum og langar okkur að bjóða konum á að koma í viðtal til okkur til að vinna úr fyrri fæðingareynslu. Það getur verið íþyngjandi fyrir konur að burðast með reynsluna sína einar og það getur valdeflt konuna og aðstoðað hana að komast á þann stað að verða sátt við sína fyrri reynslu til að geta haldið áfram að fá hlustun fagfólks. Einnig sjáum við fyrir okkur að veita konum sem ekki hafa fætt áður og kvíða fæðingunni mikið að koma til okkar í fæðingarspjall. Svo ætlum við að halda mömmu- og pabba morgna í formi Pálínuboðs þar sem við verðum með létta fræðslu, hristum hópinn saman og erum til taks að svara spurningum. Það er svo mikilvægt fyrir foreldra að njóta félagsskaps fólk sem er á svipuðum stað í lífinu.“

Vinkonurnar hafa starfað sem ljósmæður í mörg ár.
Vinkonurnar hafa starfað sem ljósmæður í mörg ár. mbl.is/Hákon Pálsson

Þrátt fyrir nýja verkefnið halda Helga og Hildur Sólveig áfram að starfa á fæðingarvakt Landspítalans. Þær segja að þátttaka í fæðingum á fæðingarvaktinni styðji enn frekar við starfið hjá Ljósmæðraþjónustunni. 

„Við höfum báðar brennandi áhuga á fæðingunum og viljum vera „á gólfinu“ í góðri snertingu við klíníska hlutann og bæta við okkur þekkingu á því sviði sem og öðrum. Fæðingin er svo mögnuð og okkur finnst það mikil forréttindi að fá að vera með verðandi foreldrum á þessum tímapunkti og viljum alls ekki hætta því. Það er mjög mikilvægt að vera að sinna fólki í fæðingu ef þú ætlar að geta hjálpað því að undirbúa sig fyrir fæðinguna. Þannig hefur þú tengslin og tilfinninguna fyrir því sem er að gerast. Tölum nú ekki um að geta aðstoðað konur við að vinna úr sinni fæðingarreynslu. Við lifum og hrærumst í þessu og teljum að þannig getum við hjálpað konum.“

Helga og Hildur segja foreldra orðna betur upplýstari en áður. Á sama tíma vilja þeir geta valið hvaða þjónustu þeir þiggja þegar kemur að meðgöngu og fæðingu. 

„Við eigum svo mikið af flottum kollegum og það er dásamlegt að foreldrar hafi þetta val. Þarfir fólks eru að breytast í takt við tíðarandann, fólki þyrstir í upplýsingar þegar það hefur vegferðina inn í foreldrahlutverkið. Það er líka svo sérstaklega gott fyrir makann að vera með í þessu ferli, það er undirbúningnum. Það eru sem betur fer breyttir tímar. Áður fyrr tóku makarnir ekki þátt eins og í dag. Voru jafnvel ekki velkomnir þegar fæðingin átti sér stað. Maður man nú eftir að hafa heyrt sögur um pabbar hafi skálað og fengið sér vindil þegar barnið fæddist, fjarri góðu gamni. Þetta er allt annað í dag. Nú er makinn hluti af þessu ferli og verðandi foreldrar gera þetta saman. Þau eru jú að fara að eignast barn saman. Með þessari frábæru tækni er svo hægt að kíkja aðeins í „pakkann“ og vita kyn barnsins og sjá það með berum augum. Það hjálpar fólki að undirbúa sig og einnig að tengjast barninu og þá líka sérstaklega fyrir pabbana. Þeir eru ekki að ganga með, finna ekki fyrir barninu eða hreyfingum þess en sónarinn hjálpar þeim að tengjast.“

Helga Reynisdóttir.
Helga Reynisdóttir. mbl.is/Hákon Pálsson

Raunsæ mynd skiptir máli

Hvað finnst ykkur mikilvægt að verðandi foreldrar viti? 

„Við viljum að skjólstæðingar okkar fari inn í þetta ferli með raunsæja mynd af því sem er í vændum, séu undirbúnir fyrir öllu því óvænta sem getur komið upp á í ferlinu eins og hægt er og séu með bjargráð til að bregðast við þeim aðstæðum. Stundum enda eðlilegar fæðingar með keisara eða áhaldafæðingu og viljum við að skjólstæðingar okkar séu búnir undir allt. Að sama skapi að undirbúa foreldra undir fyrstu vikurnar með barninu, upphaf brjóstagjafar, hvað sé eðlilegt og við hverju megi búast. Okkur hefur þótt skorta fræðslu um mörg mikilvæg atriði sem foreldrar hafa ekki hugmynd um.

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Er mikil aðsókn í þrívíddarsónar? 

„Já, svo teljum við. Langflestir foreldrar fara í þrívíddarsónar. Þetta er einhvern veginn orðinn hluti af því sem fólk gerir á meðgöngunni. Það er mjög spennandi fyrir foreldra að sjá barnið sitt og svo mikilvægt, eins og fram hefur komið, fyrir pabbana og þeirra tengslamyndun. Þessi tækni er orðin svo mögnuð. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir 50 árum að það yrði hægt að sjá barnið í móðurkviði með berum augum. Það er ekki til þess að róa foreldra að sýna þeim barnið mjög snemma á meðgöngunni því að fóstrið líkist frekar geimveru og tekur ekki á sig mynd barns fyrr en líður á meðgönguna. Það er aukin þörf fyrir foreldra að vita kyn barnsins, þannig finnst fólki það hafa meiri stjórn og getur undirbúið sig betur.“

Helga og Hildur Sólveig hafa sett heimasíðuna ljosa.is í loftið en þar er að finna hafsjó af fróðleik. „Við fáum húsnæðið afhent í júní og byrjum með námskeiðin okkar strax þá og byrjum með sónarskoðanir þegar líður á sumarið,“ segir vinkonurnar, spenntar að taka á móti verðandi foreldrum á nýjum stað. 

mbl.is