„Erum alltaf með fullar hendur“

Eydís Ýr og Hreinsi ásamt börnum sínum Óskari, Erni og …
Eydís Ýr og Hreinsi ásamt börnum sínum Óskari, Erni og Heru. Ljósmynd/Aðsend.

Lögfræðingurinn Eydís Ýr Jónsdóttir og eiginmaður hennar Hreinn Rúnarsson, oftast kallaður Hreinsi, kynntust snemma árs 2014 á stefnumótaforritinu Tinder. Átta árum síðar eru þau gift og eiga saman dótturina Heru, tvíburana Óskar og Erni og hundinn Pixie. Það er því nóg um að vera á heimili hjónanna sem eru um þessar munir að læra inn á lífið með þrjú lítil börn. 

Hera ásamt bræðrum sínum, Óskari og Erni.
Hera ásamt bræðrum sínum, Óskari og Erni. Ljósmynd/Aðsend.

Eydís og Hreinsi giftu sig í ágúst 2018 og ári síðar bættist hundurinn Pixie í fjölskylduna. Í desember sama ár tóku þau á móti sínu fyrsta barni, Heru. Eftir rúmt ár í fæðingarorlofi snéri Eydís aftur til vinnu, en hún starfar sem fulltrúi á LEX lögmannastofu og hefur gert síðan 2017. Þremur mánuðum síðar komust þau hjónin að því að þau ættu von á tvíburum. 

Hafði alltaf langað í tvíbura

„Mig hafði alltaf langað í tvíbura en aldrei datt mér í hug að við yrðum svo lánsöm. Það eru engir tvíburar í okkar nánustu fjölskyldu og því kom þetta okkur vægast sagt á óvart. Tengdamóðir mín hefur frá því að við Hreinsi kynntumst alltaf talað um að við myndum eignast tvíbura,“ segir Eydís. „Þegar við komumst síðan að því í maí 2021 að ég væri ólétt fékk ég það á tilfinninguna að ég gengi með tvíbura. Ég sagði það við Hreinsa sem bað mig vinsamlegast að grínast ekki með þetta.“

Mæðgurnar Hera og Eydís.
Mæðgurnar Hera og Eydís. Ljósmynd/Aðsend.

„Við fórum svo í snemmsónar og á leiðinni segi ég í gríni „ekki láta þér bregða ef þetta eru tvíburar“. Nokkrum mínútum síðar tilkynnti ljósmóðirin okkur að þetta væru fjölburar,“ segir Eydís sem gat ekki annað en hlegið þegar Hreinsi fölnaði í framan og sat stjarfur við fregnirnar. „Við munum mjög lítið eftir þessari ómskoðun og ég veit ekki hvað við spurðum greyið ljósmóðurina oft, hvort hún væri alveg viss.“

Báðar meðgöngur dásamlegar á sinn hátt

„Við komumst að því snemma árs 2019 að við ættum von á okkar fyrsta barni. Ég held að fyrsta meðgangan sé alltaf svolítið sérstök, maður er að upplifa allt í fyrsta skipti og allt er mjög spennandi,“ segir Eydís. Hún segir meðgöngurnar hafa verið gjörólíkar, „meðgangan með Heru gekk afskaplega vel, mér leið vel allan tímann og naut mín alveg í botn með kúluna.“ Eydís gekk fulla meðgöngu með Heru og átti á settum degi. 

„Fæðing Heru gekk vel þó hún hafi verið tiltölulega löng. Ég fór af stað seint um kvöldið eftir óreglulega verki um daginn,“ segir Eydís. Hún fór upp á fæðingardeild um nóttina, og seinnipartinn næsta dag var daman mætt. „Við fórum heim um morguninn og við tóku dásamlegir tímar hjá litlu fjölskyldunni.“

Hreinsi, Hera og Eydís.
Hreinsi, Hera og Eydís. Samsett mynd.

„Meðgangan með Óskar og Erni gekk einnig mjög vel en var eftir sem áður allt öðruvísi,“ segir Eydís. Henni var stöðugt flökurt og upplifði mikla þreytu, sama hve mikið hún hvíldi sig. „Ég hef auðvitað engan samanburð annan en mína eigin meðgöngu með Heru, en meðgangan með Óskar og Erni var miklu erfiðari, bæði líkamlega og andlega.“ Hún segir kúluna hafa stækkað hraðar og að allar athafnir hafi verið orðnar ansi erfiðar í lokin.

Eydís með fallegu tvíburakúluna sína.
Eydís með fallegu tvíburakúluna sína. Ljósmynd/Aðsend.

Fjölburameðgöngur flokkast sem áhættumeðgöngur og eru almennt styttri. Móðirin er undir meira eftirliti, hittir ljósmóður oftar og fer oftar í ómskoðun en í einburameðgöngu. Eydís segir þau hjónin hafa búið sig undir að drengirnir kæmu eitthvað fyrir tímann og bjuggust aldrei við því að hún myndi ganga jafn lengi með þá og hún gerði. 

Hera alsæl með bræður sína, Óskar og Erni.
Hera alsæl með bræður sína, Óskar og Erni. Ljósmynd/Aðsend.

Þegar Eydís var gengin tæpa 31 viku fékk hún svæsna ælupest og var flutt með hraði upp á fæðingardeild. „Ég var byrjuð að fá óreglulega samdrætti vegna vökvaskorts, en þeir duttu fljótt niður þegar ég fékk næringu í æð. Eftir sem áður var ákveðið að gefa mér sterasprautur til að flýta fyrir lungnaþroska strákanna ef ske kynni að ég færi af stað.“

Eydís lá inni í þrjá sólarhringa en fékk að lokum að fara heim. Næstu daga var hún úrvinda en ekkert bólaði á drengjunum. „Ég var löngu hætt að sofa meira en einn og hálfan tíma í senn á næturnar og meira en tilbúin að fara að ljúka þessari meðgöngu þó maður hafi á sama tíma viljað að þeir bakist sem lengst.“

Þurftu að einangra sig algjörlega vegna kórónuveirufaraldursins

Um miðjan desember ákváðu Eydís og Hreinsi að taka dóttur þeirra af leikskólanum til að minnka líkur á smiti. Í byrjun janúar þurftu þau svo að einangra sig alveg, en á þeim tíma voru reglur á fæðingardeildinni mjög strangar vegna faraldursins. „Við þurfum hvað mest á aðstoð að halda þarna, bæði með Heru og Pixie, en við hugsuðum með okkur að það gæti nú ekki verið langt eftir af meðgöngunni,“ segir hún. 

Ljósmynd/Aðsend.

Þegar Eydís var gengin rúmlega 36 vikur hafði ljósmóðir hennar samband við fæðingarlækni og óskaði eftir gangsetningu. Vegna álags á fæðingardeildinni fékk hún þó ekki tíma í gangsetningu fyrr en rúmri viku seinna. 

11 manns á fæðingarstofunni

Eydís mætti upp á fæðingardeild 27. janúar síðastliðinn, þá komin með fjóra í útvíkkun. „Í hádeginu var belgurinn hjá Óskari, tvíbura A, sprengdur og þá fór allt af stað. Fæðing Óskars gekk afskaplega vel og hann kom stuttu eftir að útvíkkun kláraðist.“ Eydís segir marga vera viðstadda í fjölburafæðingum. Hún taldi 11 manns á fæðingarstofunni og segir alla hafa haft mismunandi hlutverk. 

„Ég viðurkenni að ég átti ekki mikið af orku eftir þegar ég var búin að fæða Óskar, en maðurinn minn stappaði í mig stálinu,“ segir Eydís. Ernir, tvíburi B, var ofarlega í leginu en sem betur fer í höfuðstöðu. „Ég missti 1.200-1.400 millílítra af blóði, en samspil þessara þátta varð til þess að fæðingarlæknirinn ákveður að grípa sogklukku og draga Erni niður í grindina.“ Stuttu síðar fæddist Ernir án frekara inngrips. 

Eydís á fæðingadeildinni með drengina sína, Óskar og Erni.
Eydís á fæðingadeildinni með drengina sína, Óskar og Erni. Ljósmynd/Aðsend.

Alltaf með fangið fullt og undirmönnuð

Vinkona Eydísar á tvíbura og hafði eftir bestu getu útskýrt fyrir henni hvernig það væri. „Hún sagði alltaf að þetta væri ekki bara tvöföld vinna heldur meira en það,“ segir Eydís. „Ég hélt því að ég vissi svona nokkurn veginn hvað við værum að fara út í og þá sérstaklega þar sem við eigum barn fyrir, en þetta er margfalt erfiðara en þegar við vorum með Heru. Þá var annað okkar alltaf með lausar hendur, en núna erum við alltaf með fangið fullt og undirmönnuð,“ segir Eydís, en þau hjónin sitja sárasjaldan aðgerðalaus. 

Falleg fjölskylda á leið í göngu.
Falleg fjölskylda á leið í göngu. Ljósmynd/Aðsend.

„Við höfum minni tíma með hverju barni og getum ekki knúsast jafn mikið í strákunum og við gerðum með Heru. Ég er með nagandi samviskubit yfir því nánast daglega að geta ekki gefið þeim öllum 100% athygli, og að Óskar og Ernir fái ekki sömu athygli og Hera fékk á þessum aldri. Á sama tíma reyni ég þó að hugsa hvað þau eru heppin að eiga hvert annað og við Hreinsi erum að reyna okkar allra besta.“

Tveggja tíma brjóstagjafir á klukkutíma fresti

Vinkona Eydísar hafði sagt henni að brjóstagjöfin tæki langan tíma fyrstu vikurnar. „Ég viðurkenni að ég hélt hún væri að ýkja en svo var ekki. Gjafirnar tóku einn og hálfan til tvo tíma og við fengum eina klukkustund í hlé á milli áður en komið var að því að gefa þeim aftur og skipta um bleiur.“

Eydís með fullar hendur við brjóstagjöf.
Eydís með fullar hendur við brjóstagjöf. Ljósmynd/Aðsend.

„Hreinsi vaknaði alltaf með mér allar nætur. Það hentaði okkur best þar sem ég gaf þeim og síðan tók Hreinsi annan þeirra til að ropa og við skiptum síðan um bleiur ef þess þurfti,“ segir Eydís. Hún segir fyrstu vikurnar hafa verið afskaplega krefjandi og þau hjónin ansi vansvefta. 

„Í dag eru þeir fjögurra mánaða gamlir og vakna ekki alltaf á sama tíma á næturnar, en ég gef þeim þá hvorum í sínu lagi þar sem annar þeirra sefur almennt lengur.“ Eydís segir góða samvinnu og skipulag vera lykilatriði. „Þrátt fyrir að vera gífurlega krefjandi, þá myndum við ekki vilja hafa þetta öðruvísi.“

Eðlilegt að þurfa og þiggja aðstoð

„Foreldrahlutverkið er krefjandi og það er eðlilegt að líða ekki alltaf vel, að þurfa aðstoð og að þiggja aðstoð. Þá er einnig mikilvægt að gleyma ekki sjálfum sér og sambandinu við makann í öllu amstrinu. Maður setur ósjálfrátt sjálfan sig í síðasta sæti þegar maður ætti í raun einmitt að tryggja eigin vellíðan svo maður geti verið besta útgáfan að sjálfum sér fyrir börnin og makann.“

Hundurinn Pixie passar vel upp á tvíburana.
Hundurinn Pixie passar vel upp á tvíburana. Ljósmynd/Aðsend.
mbl.is