Vill að börnin hjálpi heimilislausum

Vilhjálmur prins vill að börnin hans vinni með heimilislausum.
Vilhjálmur prins vill að börnin hans vinni með heimilislausum. AFP

Vilhjálmur prins hefur heitið því að börn hans kynnist málefnum heimilislausra og vonar hann að þau leggi málefninu lið þegar þau hafa aldur til. Sjálfur byrjaði Vilhjálmur ungur að kynna sér málefni heimilislausa en móðir hans Díana prinsessa var ötul baráttukona fyrir bættum hag þeirra og vakti mikla athygli á vandanum á sínum tíma.

„Ég hef alltaf trúað á mátt þess að nota áhrif mín til þess að segja sögu þessa fólks og vekja athygli á vandanum og þeim sem eiga um sárt að binda. Nú þegar ég er að verða fertugur ætla ég að spýta í lófana og leggja mig enn frekar fram. 

Ég trúi því að það sé hægt að finna lausnir og ég hyggst beina ljósi að þessu málefni. Ekki bara í dag heldur um ókomna framtíð. Þá vil ég að börn mín, Georg, Karlotta og Lúðvík fái að kynnast þessum frábæru samtökum sem vinna ötult starf fyrir þá sem mest þurfa á hjálp að halda. Rétt eins og mín móðir gerði,“ segir Vilhjálmur í viðtali við Big Issue.

„Hún vissi að fyrsta skrefið væri að varpa ljósi á vandann og sýna hann réttu ljósi.“

Vilhjálmur segist neita að trúa að heimilsleysi sé óumflýjanlegur hlutur lífsins en óttast að fleiri gætu endað á götunni vegna þeirra hækkana sem framundan eru og sífellt erfiðara sé fyrir fólk að ná endum saman. 

„Sem betur fer er til góðhjartað fólk sem er reiðubúið til að leggja sig fram við að hjálpa öðrum.“

Vilhjálmur prins er duglegur móta sig í starfi sem framtíðarerfingi …
Vilhjálmur prins er duglegur móta sig í starfi sem framtíðarerfingi bresku krúnunnar. Honum er umhugað um ýmis mikilvæg málefni. AFP
Díana prinsessa vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir að …
Díana prinsessa vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir að taka börn sín með að hitta heimilislausa en þá voru prinsarnir 12 og 14 ára gamlir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert