Alvarlegar ásakanir í garð skóla barnanna

Friðrik og Mary ætla að bíða og sjá með að …
Friðrik og Mary ætla að bíða og sjá með að taka börn sín úr heimavistarskólanum. AFP

Mikið fjölmiðlafár ríkir í Danmörku vegna alvarlegra ásakana í garð heimavistarskólans Herlufsholm. Börn Friðriks krónprins og Mary krónprinsessu sækja skólann og íhuga hjónin nú hvort börnin eigi að halda áfram í skólanum. Þau ætla að bíða og sjá hvað formleg rannsókn leiðir í ljós.

Sagt er að ofbeldi af ýmsu tagi hafi fengið að þrífast þar eins og til dæmis einelti og kynferðislegt ofbeldi. Þessu var ljóstrað upp í heimildaþætti um skólann sem sýndur var á dögunum. Þar var rætt við 50 fyrrum nemendur skólans sem sögðu farir sínar ekki sléttar.

Kristján prins er búinn með sitt fyrsta ár í skólanum og Ísabella stefnir á nám þar næsta haust. Í ljósi tíðindanna er óvíst hvort þau haldi áfram þar.

„Þetta hefur haft áhrif á börnin okkar og við höfum rætt þetta við þau. Syni okkar gengur vel þarna og ljóst er að margir hafa þrifist vel í skólanum og notið veru sinnar þar þó að vissulega séu til slæm tilvik,“ sagði Friðrik krónprins um málið.

„Okkur finnst mikilvægt að fá heildarmyndina sama hversu átakanlegar sögurnar eru. Það er lærdómsríkt fyrir börnin að læra að það þarf að taka ákvarðanir út frá ýmsum ólíkum hliðum lífsins. Við þurfum að varpa ljósi á málið í heild sinni og taka ákvörðun út frá því,“ sagði Mary krónprinsessa í viðtali við Billed Bladet en prinsessan hefur verið í forsvari fyrir samtökin Maryfonden sem berjast gegn einelti. Margir hefðu því kosið að sjá hana taka sterkari afstöðu til málsins.

Tvö elstu börnin eru í heimavistarskólanum Herlufsholm en sagt er …
Tvö elstu börnin eru í heimavistarskólanum Herlufsholm en sagt er að ofbeldi af ýmsu tagi hafi fengið að þrífast þar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert