Vill fremur deyja en að eignast ekki börn

Billie EIlish vill endilega eignast börn í framtíðinni.
Billie EIlish vill endilega eignast börn í framtíðinni. AFP

Hin tvítuga söngkona Billie Eilish segist fremur vilja deyja en að eignast aldrei börn. Hún hafi alltaf viljað verða móðir. Þetta kemur fram í viðtali við Eilish í The Sunday Times.

„Ég þarf að eignast börn,“ segir Eilish en tekur þó fram að það sé margt sem hún óttast við barneignir. „Því eldri sem ég verð og því meiri reynslu sem ég öðlast þá hugsa ég alltaf hvað ef börnin mín halda að eitthvað sé rétt að gera og ég segi þeim að svo sé ekki. Og þau neita að hlusta á mig!,“ segir hún og bendir á hversu ógnvekjandi það sé að vera barn á þessum tímum sérstaklega í ljósi skotárásarinnar í Texas þar sem 19 börn misstu lífið.

„Af hverju er það eðlilegt að vera hræddur að fara í skólann?“

Eilish segist hafa verið kvíðið barn og svaf upp í hjá foreldrum sínum til ellefu ára aldurs. 

„Ég þjáðist af miklum aðskilnaðarkvíða og gat aldrei verið fjarri foreldrum mínum. Ég var stöðugt hrædd um að eitthvað myndi koma fyrir þau, ég var hrædd um hvað yrði um mig og að ég myndi gleymast. Ég gat aldrei sofið ein. Ef ég vaknaði og foreldrar mínir voru ekki hjá mér þá öskraði ég þar til þau komu.“

Eilish á enn í dag erfitt með svefn og lýsir hún svefni sem ákveðinni tegund pyndingar en hún fær miklar martraðir og upplifir lömun í svefni.

mbl.is