Fyrstur, annar, þriðji...hvar ert þú í röðinni?

Það gengur á ýmsu hjá systkinum.
Það gengur á ýmsu hjá systkinum. Unsplash.com/Nathan Dumlao

Hvar við erum stödd  í systkinaröðinni segir aðeins lítið brot um okkar persónuleika en þó telja sérfræðingar að röðin skipti máli og hafi áhrif.

„Þetta snýst um þau hlutverk sem systkinin taka að sér og áhrifin sem þessi hlutverk hafa á persónuleikann og atferli. Þá eiga foreldrar það til að ýta undir þessa hlutverkaskiptingu, hvort sem þau átti sig á því eða ekki,“ segir Kevin Leman prófessor.

Elsta barnið:

Frumburðirnir herma alltaf eftir foreldrum sínum. Þeim finnst gott að stjórna og eru örugg með sig. Þau eiga ekki eldra systkin sem stríðir þeim og fullorðnir taka þau alvarlega sem ýtir undir sterka sjálfsmynd. Sem fyrsta barn hafa foreldrarnir hrósað þeim mikið fyrir hvern áfanga sem þau ná og það hvetur þau áfram í lífinu.

Elstu börnin eiga það til að verða fullkomnunarsinnar og vilja hafa allt akkúrat. Þau vilja ná öllu rétt í fyrstu atrennu og forðast að gera mistök. Þá gætu þau átt erfitt með að viðurkenna að þau hafi rangt fyrir sér.

Foreldrar ættu að gefa þeim ákveðin fríðindi í skiptum fyrir alla þá ábyrgð sem þau taka á sig á heimilinu t.d. að fá að vaka lengur.

Miðjubarnið: 

Miðjubörnin eru allt öðruvísi en eldri systkin. Þau eiga það til að leita að hlutverki sem er á skjön við það sem eldra barnið gerir. Það er því erfitt að negla niður hvernig miðjubarn er því hegðun þess er alltaf svörun við hegðun eldra systkinis. Ef eldra systkinið leitast alltaf við að geðjast foreldrum sínum þá reynir miðjubarnið það ekki og fer kannski í uppreisn til þess að fá athygli.

Miðjubarnið upplifir það sem svo að elsta barnið fær öll fríðindin og að yngstu börnin komast upp með allt. Miðjubörnin læra því að semja um allt sem þau langar í. Þau eru góð að semja og finna málamiðlanir til þess að fá sínu fram. Þau hafa raunhæfar væntingar, eru ólíklegust til þess að vera dekruð og eru því afar sjálfstæð. Þeim finnst þau oft verða útundan og leita því að vináttu utan heimilisins.

Foreldrar miðjubarns þurfa að huga að því að miðjubarnið fái alltaf einhvern einkatíma með foreldrum sínum. Elsta barnið fékk þau óskipt fyrstu árin og yngsta fær að hafa mestu athygli foreldra sinna þegar elstu vaxa úr grasi. Miðjubarnið þarf alltaf að deila foreldrunum sínum með öðrum.

Yngsta barnið:

Foreldrar eiga það til að leyfa yngsta barninu að komast upp með meira. Foreldrarnir eru ekki eins stressaðir og eru því slakari en þegar elsta barnið kom í heiminn. Yngstu börnin eru því frjálsari, taumlausari, tilfinninganæmari og félagslyndari og reyna að fá alla til að hlæja.

En það getur verið erfitt að vera yngsta barn. Þau horfa á stóru systkin sín aðdáunaraugum enda eru þau stærri, klárari og sneggri. Til að marka sér sérstöðu reyna þau þá að vera uppátækjasöm.

Þeim gæti liðið eins og enginn taki þau alvarlega og því ættu foreldrar að leggja sig fram um að viðurkenna mikilvægi þeirra skoðana. Þá verður að leyfa þeim að ráða stundum kvöldmatnum eða fá verkefni til að leysa.

Einkabarnið:

Einkabörnin eru mikið ein og eru því dugleg að hafa ofan af fyrir sér. Þau eiga það til að vera mjög skapandi börn. Þau eru örugg, vel að máli farin og hafa gott auga fyrir smáatriðum. Þeim gengur vel í skóla og haga sér eins og litlar fullorðnar verur.

Einkabarnið hefur aldrei þurft að keppa um athygli foreldra sinna eða deila leikföngum með öðrum þannig að þeim hættir til þess að vera sjálfselsk. Þau eru vön því að vera mikilvægust allra og eiga kannski erfitt með þegar hlutirnir falli ekki þeim í hag. Þá getur fullkomnunaráráttan plagað þau. Foreldrar einkabarna ættu að leggja mikið upp úr því að þau eigi vini og tilheyri vinahópum og þurfi ekki að leysa öll verkefni fullkomlega.

Hvað um tvíbura?

Tvíburar falla ekki í þessa tilteknu flokka enda reyna foreldrar að koma jafnt fram við bæði börnin. Hafi annar tvíburinn hins vegar glímt við lága fæðingarþyngd eða aðra erfiðleika í fæðingu þá er hætt við að hann sé meira verndaður en hinn.

Aðrir þættir sem hafa áhrif á persónuleika systkina:

Þættir á borð við kyn og aldursmunur getur haft áhrif á hegðun og persónuleika barnanna. Ef fjögur ár eða minna eru á milli systkinanna þá verða þessi systkinaeinkenni mest áberandi. Sé langt á milli barnanna þá gætu börnin líkst meira einkabörnum. Sé styttra en tvö ár þá líkjast þau meira tvíburum. 

mbl.is