„Móðurhlutverkið hefur gert mig að betri lækni“

Mæðginin Auður og Kolbeinn.
Mæðginin Auður og Kolbeinn. Ljósmynd/Aðsend

Læknirinn Auður Þórunn Gunnarsdóttir segir móðurhlutverkið hafa haft mikil áhrif á sig sem lækni og sér sjálf betur mikilvægi þess að reyna að koma til móts við ráðþrota foreldra. Auður leyfði okkur að skyggnast inn í líf fjölskyldu hennar og ræddi meðal annars um móðurhlutverkið, hreyfingu eftir meðgöngu og vinnuna. 

Auður kláraði læknisfræði út í Slóvakíu árið 2019 og er um þessar mundir að hefja sérnám við Landspítalann í svæfinga- og gjörgæslulækningum. Auður er búsett á Akranesi ásamt kærasta sínum, Sævari Berg, syni þeirra, Kolbeini Gunnari og hundinum Míu. Það er nóg um að vera hjá parinu, en Sævar kennir rafvirkjun hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands og starfar þess á milli sem slökkviliðsmaður og Crossfit þjálfari. 

Sævar Berg og Auður Þórunn ásamt syni þeirra, Kolbeini Gunnari …
Sævar Berg og Auður Þórunn ásamt syni þeirra, Kolbeini Gunnari og hundinum Míu. Ljósmynd/Aðsend

Auður og Sævar eiga saman 14 mánaða son sem hún lýsir sem miklum fjörkálfi, „hann heldur öllum í kringum sig bæði brosandi og á tánum.“ Aðspurð segir Auður meðgönguna heilt yfir hafa gengið vel. „Ef ég hugsa til baka þá var ég reyndar ansi stressuð fyrir því að eitthvað myndi koma fyrir. Við höfðum lent í því að missa fóstur fyrr um árið 2020, en það var okkar fyrsta reynsla af jákvæðu óléttuprófi sem litaði svolítið næstu upplifun.“ Auður segist því hafa verið mjög upptekin af öllum einkennum óléttunnar fyrst um sinn en hafi með tímanum náð að njóta sín.

„Líkamlega var ég vel stödd, engir verkir eða óþægindi sem ég get talað um og er mjög heppin með það. Það sem kom mér mest á óvart við meðgönguna var líklega hvað þetta tímabil tekur yfir mann, meðgangan, tilvonandi fæðing og allt sem tengist því að vera að fara eignast barn. Það opnast nýr heimur sem ég hafði lítið pælt í fyrir meðgönguna,“ segir hún. „Það er ótrúlega dýrmætt að hafa fengið að upplifa þessa hluti tengda meðgöngu og þær breytingar sem verða.“

Sævar, Kolbeinn og Auður.
Sævar, Kolbeinn og Auður. Ljósmynd/Aðsend

Auður segir fæðinguna hafa gengið vel. „Ég var gengin sex daga fram yfir og orðin ansi óþolinmóð þegar ég fann fyrstu verkina yfir kvöldmatnum. Kolbeinn var svo fæddur klukkan hálf fimm næst dag.“ Auður var lögð inn á fæðingardeildina á Akranesi morguninn eftir fyrstu verkina. Um það leyti segir ljósmóðirin við Auði að fæðingar hjá frumbyrjum tækju yfirleitt aðeins lengri tíma og að hún gæti búist við syninum um miðnætti. „Ég hugsaði bara „guð minn góður“.“

„Ég man svo bara eftir mér standandi, haldandi utan um axlirnar á Sævari og stappandi niður fótunum í hverri hríð því ég gat alls ekki legið.“ Auður prófaði svo bæði glaðloft og bað. „Ég var ekki aðdáandi af baðinu og á eina minningu af mér þar ofan í grátandi eftir slæma hríð og upplifði mikið vonleysi yfir því að það væru kannski meira en tíu klukkustundir eftir,“ segir hún. 

Stuttu síðar mætti ljósmóðirin sem tók á móti Kolbeini á vakt sem Auður lýsir sem „engli í mannsmynd“, en þá var Auður með sjö í útvíkkun og mikið að ske. „Hún sprengdi belginn og þá loksins fór vatnið. Eftir það fékk ég mikla rembingstilfinningu sem ég gat lítið spornað við og var fæðingin sjálf því mjög hröð, en allt gekk vel fyrir sig.“

Auður man vel eftir augnablikinu þegar hún leit fyrst augum á drenginn sinn. „Ég hugsaði „já auðvitað, þetta ert þú og ég á þig“. Ástin var strax mikil, en sjokkið var eiginlega meira fyrstu mínúturnar þar sem ég var engan vegin að átta mig á því að hann væri fæddur og að þetta væri búið.“

Auður komin með son sinn í fangið.
Auður komin með son sinn í fangið. Ljósmynd/Aðsend

Eftir fæðinguna fór Auður með hraði í aðgerð þar sem fylgjan sat föst og í kjölfarið missti hún því um líter af blóði. „Ég hitti Kolbein því ekki aftur fyrr en um hálf níu leytið, sem voru eiginlega okkar fyrstu almennilegu kynni. Upplifunin í heildina var mjög góð og það var yndislegt að vera á Akranesi þar sem við vorum í tvær nætur inni á deild. Þessar fyrstu minningar af okkur þremur saman að kynnast í rólegheitum eru í algjöru uppáhaldi og ótrúlega dýrmætar.“

Verandi læknir segir Auður að menntun hennar hafi vissulega undirbúið hana faglega séð undir hvers mætti vænta, en það að upplifa ferlið sjálf af eigin hendi trompi alla menntun. „Ég átta mig líklega ekki á því hvernig þessi upplifun væri án minnar menntunar, en á meðgöngu sagði ljósmóðirin mín í mæðravernd strax í upphafi að hún myndi tala við mig sem tilvonandi móður fyrst og fremst, sem mér fannst mjög gott. Það er mikilvægt að fá að spyrja „vitlausra“ spurninga og ekki vera að hugsa „jæja þú átt nú samt að vita betur“.“

Fjölskyldan fagnaði eins árs afmæli Kolbeins í apríl.
Fjölskyldan fagnaði eins árs afmæli Kolbeins í apríl. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð segist Auður á tímum hafa upplifað fæðinguna sem heilbrigðisstarfsmaður þar sem hún þekkti vel inn á vaktaskipti og starfsemi spítalans. „En aftur á móti var ég að leggjast inn á spítala í fyrsta sinn svo þetta var mjög mikil reynsla fyrir mig.“

Auður segir fyrstu vikurnar hafa verið strembnar. „Brjóstagjöfin gekk ekki vel frá fyrstu stundu. Hann fékk ábót þegar ég var í aðgerðinni og aftur í legunni á spítalanum, en hann var með mikið tunguhaft sem var klippt á við fæðingu. Eftir fimm vikur skiptum við alveg yfir á pela, en það bjargaði mér líka og gæðastundunum fór fjölgandi.“

Hún segir pelann og þurrmjólkina hafa virkað mjög vel fyrir þau. „Þetta urðu bestu stundirnar og pabbinn fékk að njóta mikið líka. Sævar er fæddur í þetta hlutverk, allt er ekkert mál og hefur hann verið mín fyrirmynd oft á tíðum.“

Feðgarnir Sævar og Kolbeinn.
Feðgarnir Sævar og Kolbeinn. Ljósmynd/Aðsend

Eftir fæðingu upplifði Auður sig fremur verkjaða og hæga í snúningum, en hún hlaut annars stigs rifu í fæðingunni sem var saumuð í aðgerðinni. „Það var erfitt að ganga stuttar vegalengdir og bara það að setjast niður á gólf og gera teygjur var ákveðið verkefni. Það tók nokkra mánuði að hætta finna fyrir þreytuverkjum í mjaðmagrindinni sjálfri.“ Hún segir það hafa tekið á andlega fyrst um sinn enda mikil breyting frá því að geta allt og æfa nánast daglega.

Auður byrjaði að hreyfa sig tæpum átta vikum eftir fæðingu. „Ég byrjaði fyrst sjálf í ræktinni, en ég hafði verið í Crossfit áður. Mér fannst það mjög gott því ég þurfti bara þann tíma til að læra að þekkja inn á mig og fara á eigin hraða, prófa allskonar æfingar og sjá hvað ég gat.“

Stuttu síðar byrjaði Auður í næringarþjálfun hjá Sigrúnu Örnu, sem hún hafði verið hjá áður og hélt mikið upp á. „Orkan sem það gaf mér var svo mikil að stuttu síðar var ég farin að treysta mér í Crossfit aftur.“ Auður sá fljótt að hún væri í algjörum byrjunarfasa og ákvað að taka það í sátt. „Leiðin var bara upp á við. Það góða við að byrja á núlli er að árangurinn er svo fljótur að koma.“

Auður og Kolbeinn á Crossfit æfingu.
Auður og Kolbeinn á Crossfit æfingu. Ljósmynd/Aðsend

Í dag er Auður verkjalaus, hún reynir að passa áfram að gera grindarbotns- og magaæfingar sem henni finnst að allar konur ættu að huga að, burtséð frá barnseignum, og stundar Crossfit að fullum krafti. Hún segir félagsskapinn hafa hvatt sig áfram. „Á Akranesi er ég umkringd ofurmömmum sem æfa alla daga. Ef það er eitthvað vesen þá er barnið bara tekið með á æfingu.“ Hún segist ekki geta hugsað sér að hreyfa sig ekki. „Að hreyfa mig er það besta sem ég geri fyrir mig sem manneskju og sem móður. Ég kem alltaf glaðari heim.“

Auður segir móðurhlutverkið hafa gert sig að betri lækni. „Að vinna óreglulegar vaktir með lítið barn sem hefur ekki enn sofið í gegnum nóttina er krefjandi, en að eiga Kolbein hefur klárlega gert mig að betri lækni. Ég tengi allt öðruvísi við börn og mæður í dag en ég gerði áður. Ég hef klárlega meiri skilning á því hversu mikilvægt það er að koma til móts við ráðþrota foreldra.“

„Ég hef fengið að heyra það sjálf án þess að búið sé að skoða barnið, að það sem ég haldi að sé að sé það einfaldlega ekki. Það breytist hins vegar þegar ég segi að ég sé læknir, sem mér finnst sorglegt að hugsa til.“

Auður segir besta ráðið fyrir verðandi mæður vera að hafa engar væntingar né kröfur. „Þetta er svolítið „learn by doing“. Allt í allt er þetta best í öllum heimi og ég held það leyni sér ekki hjá mér.“

Kolbeinn kátur á fyrsta afmælinu sínu.
Kolbeinn kátur á fyrsta afmælinu sínu. Ljósmynd/Aðsend

Að lokum er Auður með heilræði varðandi heimsóknir, brjóstagjöf og nýjar mömmur. „Mér finnst þurfa að sýna nærgætni fyrst og fremst. Það þarf ekki alltaf að spyrja okkur út í hvernig brjóstagjöfin gengur, en það á sérstaklega við ef barnið er að drekka pela, eða já hvort ég mjólki ekki nóg. Þetta er næringin sem barnið fær og fleira þarf ekki að koma fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert