Foreldrar sem nenna ekki að leika

Börnum finnst gaman að leika. Stundum verða foreldrar þreyttir á …
Börnum finnst gaman að leika. Stundum verða foreldrar þreyttir á að taka þátt í leik með þeim. AFP

Það getur reynt á þolinmæðina að vera foreldri. Allir sérfræðingar leggja mikið upp úr því að mikið sé leikið við börn. En hvað um þá foreldra sem geta ekki hugsað sér enn einn barnaleikinn?

Viðburðastjórar heimilisins

Á tímum samfélagsmiðlanna þar sem allt er fullkomið er hætt við því að foreldrar finnist þeir vera arfaslakir foreldrar. Stundum upplifa foreldrar þann þrýsting að þeir þurfi að vera einhvers konar skemmtistjórar og viðburðastjórar á heimilinu.

Er það í lagi að leika ekki við börnin? Hvernig tekst maður á við samviskubitið? Hvað geta foreldrar gert í staðinn ef þeir eru ekki í stuði fyrir leiki og átt samt góðar stundir með börnunum?

Leikur mikilvægur fyrir börn

Tanja Nicols er klínískur sálfræðingur við Vanderbilt háskólann. Hún segir að leikur sé afar mikilvægur fyrir börn en að það sé ákveðið svigrúm fyrir foreldra til staðar.

„Leikur er mikilvægur til þess að börn þjálfist í að læra rökhugsun og tilfinningagreind. Það þurfi að taka mið af aldri og þroska barns og gefa þeim tækifæri til þess að velja leiki. Hugsa skal um hvað það er sem barnið þarfnast og gefið þeim fyrirfram ákveðinn tíma til þess að leika og tala um það sem þau eru að gera. Með því að gefa þeim val ertu að ýta undir öryggi þess með því að leyfa þeim að taka þátt í ákvörðunartökuferlinu og stjórna eigin umhverfi.“

Nicols leggur einnig áherslu á að foreldrar hlusti á eigin þarfir og hafi raunhæfar væntingar um hvað þeir séu færir um á hverjum tíma.

„Reyndu að skapa tengsl við barnið í gegnum allar þessar venjubundnu athafnir daglegs lífs. Gerðu þitt besta.“

Gott að láta sér leiðast

Mandee McDonald er fyrrum kennari en þarf samt stöðugt að minna sig á að það að börnin leiki sjálfstætt sé mjög mikilvægur hæfileiki sem hlúa þarf að hjá börnum. Það er gott fyrir þau að láta sér leiðast og finna út úr því hvernig þau geta varið tíma sínum.

Hillary Ryan á fjögur börn og segist finna fyrir vanlíðan ef hún nennir ekki að leika við börnin. „Allt er gott í hófi. Ég elska að leira, lita og búa til sandkastala. Ég er alltaf til í þykjustuteboð en þoli ekki legó.“ Ryan segir ekki alltaf já við leikjum því hún hafi mikið að gera á heimilinu. Og það er bara allt í lagi.

Óskipulagður tími er mikilvægur

Jody LeVos er menntunarfræðingur og segir að mikið sé lagt á foreldra og það sé engin þörf á að þeir séu skemmtistjórar öllum stundum líka. Það sé í raun mikilvægt að kenna börnum að láta sér leiðast. Óskipulagður tími, þar sem foreldrar eru ekki að ákveða hvað börn taki sér fyrir hendur, er afar mikilvægur. Þannig er verið að hlúa að sköpunarkrafti og úrræðasemi.

Levos mælir með að foreldrar setji sér ákveðin mörk sem gagnist barninu einnig.

  • Nota tímastilli til þess að sýna hvenær foreldri hefur tíma til þess að leika.
  • Gefa barninu ákveðið verkefni til að leysa þar til leiktíminn hefst.
  • Gefðu barninu skjátíma með fræðsluforritum.

Ef þú getur ekki hugsað þér að leika þá skaltu sýna ást þína með öðrum hætti. Að skapa góða og uppbyggilega rútínu tryggir öryggiskennd þeirra og vellíðan.

Búðu til gott teymi

Tania Lamb er fimm barna móðir og var aldrei mamman sem renndi sér í rennibrautunum með börnunum sínum. „Ég fann ekki fyrir neinni sektarkennd því börnunum leið vel. Ég gat ekki alltaf verið að skemmta öllum og þau lærðu að leika við systkin sín eða einsömul.“

„Maðurinn minn fer þó í boltaleiki við börnin og hann hefur gaman að því, ekki ég. Við erum bara gott teymi.“ 

Foreldrar einfaldlega gera sitt besta. Það sem virkar fyrir eina fjölskyldu virkar ekki endilega fyrir aðra. Maður þarf að vera sveigjanlegur og ekki dæma sig of harkalega.

mbl.is