„Það þarf alltaf eitthvert þeirra á mér að halda“

Kim Kardashian ásamt börnum sínum.
Kim Kardashian ásamt börnum sínum. Skjáskot/Instagram

Það verður seint sagt að raunveruleikastjarnan, Kim Kardashian, hafi aldrei neitt að gera. Dagskrá hennar er oftar en ekki þéttskipuð en það fylgir því að vera eftirsóknarverð og áhrifamikil að þurfa helst að geta verið á mörgum stöðum samtímis. Kardashian er líka móðir fjögurra barna sem þarfnast hennar oft og iðulega, eðli málsins samkvæmt.  

Kardashian hefur reynt að gera sitt besta í móðurhlutverkinu, samhliða öllu hinu sem til fellur í lífi hennar. Viðurkenndi hún í samtali við fréttamiðillinn People fyrr í vikunni að hún fengi sjaldan sem aldrei tíma til að vera ein með sjálfri sér. Í þau örfáu skipti sem hún fær fáeinar mínútur í einrúmi, sagðist hún nýta þær vel.

Alltaf á „mömmuvakt“

„Ég skutla öllum börnunum í skólann og í bílnum á leiðinni heim hlusta ég á tónlist sem mig langar til að hlusta á. Það er gott fyrir andlegu heilsuna,“ sagði Kardashian sem er móðir barnanna fjögurra; North, 9 ára, Saint, 6 ára, Chicago, 4 ára og Psalm, 3 ára.

„Það er mjög sjaldgæft að ég geti farið ein inn í herbergið mitt, læst hurðinni og sagt: Ég þarf 20 mínútur í friði. Það þarf alltaf eitthvert þeirra á mér að halda,“ útskýrði Kardashian og sagðist ekki einu sinni geta verið ein í nuddi hjá einkanuddaranum sínum.

„Ef ég er að fara í nudd, þá liggja þau með mér í rúminu mínu. Ég get aldrei átt friðsælt nudd,“ sagði hún en benti á að hún myndi aldrei vilja skipta börnunum sínum út fyrir neitt annað. 

„Það er eitthvað fallegt við þessa ringulreið,“ bætti hún við og sagðist kunna betur að meta þessar örfáu stundir sem hún fær í ró og næði, ein með sjálfri sér. Þær stundir er mikilvægt að nýta vel og þakka fyrir litlu hlutina í lífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert