Strauk af meðferðarheimili til að sinna syni sínum

Bam Margera og Nikki Boyd.
Bam Margera og Nikki Boyd. Skjáskot/Instagram

Jackass-stjarnan og tónlistarmaðurinn Bam Margera strauk af meðferðarheimili í annað sinn á dögunum til að freista þess að sinna syni sínum betur. Margera var nýlega fyrirskipað af yfirvöldum í Flórída-ríki í Bandaríkjunum að klára vímuefnameðferð vegna fjölda smá brota sem hann hefur gerst sekur um undir áhrifum.  

Nikki Boyd, eiginkona Margera, sagði í samtali við fréttaveituna TMZ að ástæðan fyrir því að hann hafi hlaupið á brott úr meðferðinni sé sú að hann langaði til að gerast betri faðir. Hann hafi ekki séð það fyrir sér að geta sannað sig í föðurhlutverkinu fastur inni á meðferðarstofnun. 

Fyrr í vikunni fannst Margera á hóteli við Deerfield ströndina eftir að hafa yfirgefið meðferðarheimilið í annað sinn á skömmum tíma. Fékk hann ósk sína uppfyllta um að skrá sig í meðferð á annarri meðferðarstofnum sem hann hyggst nú klára til að koma sér og lífi sínu á beina braut.

Bam Margera og Nikki Boyd eru sannkallaðir íslandsvinir en þau giftu sig í Reykjavík árið 2013. Síðar eignuðust þau einkaprins sinn, Phoenix Wolf, árið 2017 og er hann því aðeins fimm ára gamall. 

mbl.is