„Átti erfitt með að sætta mig við hvernig fæðingin fór“

Pablo, Leon og Arna.
Pablo, Leon og Arna. Ljósmynd/Aðsend

Viðskiptafræðingurinn Arna María Ólafsdóttir kynntist kærasta sínum, Pablo Garcia fyrir rúmlega níu árum í framhaldsskóla í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Kynni þeirra minna helst á atriði úr rómantískri bíómynd, en þau hafa verið óaðskiljanleg síðan og eiga í dag eins árs gamlan son, Leon Óliver Pabloson Garcia. 

„Við kynntumst í byrjun skólaárs 2013 í ensku tíma og erum því svokölluð „high school sweethearts.“ Samband okkar byrjaði í raun þannig að við vorum sett saman í hóp til þess að vinna verkefni. Eftir að verkefnið var klárað sátum við alltaf hlið við hlið í tímum en kennarinn þurfti á endanum að splitta okkur upp í tíma því við hlógum og töluðum svo mikið. Svo einn daginn var sá kennari veikur og kom þá forfallakennari í staðinn. Hann hafði ekki hugmynd af sætaskipaninni og settumst við því við hliðina á hvort öðru og enduðum á að skiptast á símanúmerum,“ segir Arna.

Parið hefur búið saman síðan 2015, en þá bjuggu þau í Kaliforníu hjá fjölskyldu Örnu. Leiðin lá síðan heim til Íslands árið 2017 þegar þau ákváðu að skrá sig í nám, hún við Háskólann í Reykjavík og hann við Hárakademíuna. Árið 2020 var svo mikið uppskeruár hjá parinu, en þá útskrifaðist Arna með BS gráðu í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein, og Pablo sem hársnyrtisveinn. 

Ólétt í meistaranámi

„Við ákváðum svo bæði að fara í meistaranám. Pablo fór í Tækniskólann og ég ákvað að skella mér í meistaranám við University of Amstredam og ætluðum við okkur að flytja til Hollands árið 2020. Svo skall kórónuveirufaraldurinn á og námið mitt breyttist í fjarnám, sem varð svo bara svolítið heppilegt þar sem ég komst að því að ég væri ólétt tveimur vikum eftir að námið byrjaði.“

Ljósmynd/Aðsend

Á meðgöngunni var Arna því á fullu í meistaranáminu. „Mér var óglatt fram að fimmtándu viku og var það í raun og veru eini tíminn á meðgöngunni sem mér leið illa, en ég lá eiginlega bara upp í rúmi á þessum tíma og lærði.“ Þegar Arna var komin átta vikur á leið hringdi æskuvinkona hennar í hana og tilkynnti að hún væri ólétt. „Við vorum því samferða og gengum í gegnum þetta saman sem var yndislegt, og erum núna að ala upp börnin okkar saman.“

Arna ásamt æskuvinkonu sinni, Þórhildi Braga Þórðardóttur.
Arna ásamt æskuvinkonu sinni, Þórhildi Braga Þórðardóttur. Ljósmynd/Aðsend

Læknanemi í yfirliði í mænudeyfingunni

„Fæðingin var hins vegar mjög erfið. Ég missti vatnið seint um kvöldið 17. júní. Það var greinilega mjög mikið að gera upp á fæðingardeild á þessum tíma af því ég ligg í móttökuherberginu í þrjá klukkutíma. Ég var svo verkjuð að þau vildu hafa mig upp á fæðingardeild.“

Að sögn Örnu gekk útvíkkunin mjög hægt, og bað hún í kjölfarið um mænudeyfingu sem hún á miður góðar minningar af. „Ég leyfði nema að vera inni hjá mér við mænudeyfinguna, sem ég sé mjög mikið eftir í dag. Þegar það var verið að setja í mig deyfinguna leið yfir nemann á meðan að nálinni var komið fyrir. Öllum í herberginu var brugðið þar sem það kom frekar hár hvellur þegar neminn datt. Ég sat því verkjuð á rúmstokknum, haldandi í höndina á Pablo á meðan læknirinn og ljósmóðirin athuguðu á nemanum. Þarna leið mér mjög óöruggri.“

Fannst líkaminn hafa brugðist sér

„Svo líða nokkrir klukkutímar og ég er næstum komin í fulla útvíkkun þegar ég fæ hita og Leon mælist yfir einhverjum ákveðnum streitumörkum. Þá segir fæðingarlæknirinn okkur að hann þurfi að koma út á næsta hálftímanum og ég enda á því að vera svæfð og Leon tekinn með keisara.“

Arna með nýfæddan son sinn.
Arna með nýfæddan son sinn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég átti mjög erfitt með að sætta mig við hvernig fæðingin fór vegna þess að ég var búin að ímynda mér allt aðra upplifun. Mér leið smá eins og líkaminn minn hafi brugðist mér. Allar konur tala um hvað líkaminn er magnaður að geta fætt barn  og hvað tilfinningin er mögnuð. Þarna þurfti ég bara að læra að mín fæðing var líka jafn mögnuð og að líkaminn minn er líka magnaður. Það sem hjálpaði mér í gegnum þetta tímabil var að heyra frá öðrum mömmum með svipaðar upplifanir af því ég upplifði mig frekar eina.“

Ljósmynd/Aðsend

„Ég vil þó taka það fram að aðeins 7% af fæðingum á Landsspítalanum eru keisarafæðingar sem er mjög lágt hlutfall, svo mín saga er ekki til að hræða verðandi mæður heldur frekar til að hjálpa og tengja við mæðrum sem hafa svipaða upplifun.“

Hafa mikið dálæti á ferðalögum

Eftir að Leon fæddist hefur fjölskyldan ferðast mikið. „Við fórum í fyrstu utanlandsferðina hans þegar hann var tæplega fjögurra mánaða gamall, en þá fórum við til Hollands og keyrðum svo yfir til Belgíu og Þýskalands.“

Feðgarnir í Amstredam, Hollandi.
Feðgarnir í Amstredam, Hollandi. Ljósmynd/Aðsend

„Síðan þegar hann var tæplega átta mánaða fórum við til Kaliforníu að hitta fjölskyldu Pablo. Ferðin tók um það bil fimmtán klukkustundir hvora leið.“

Mæðginin Arna og Leon.
Mæðginin Arna og Leon. Ljósmynd/Aðsend

„Svo fórum við til Tenerife á Spáni þegar Leon var rúmlega níu mánaða.“ 

Fjölskyldan á Tenerife, Spáni.
Fjölskyldan á Tenerife, Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Auðveldara að ferðast með yngri börn

Aðspurð segist Arna hafa miklað það mikið fyrir sér að ferðast með lítið barn. „Það var í raun auðveldara að ferðast með Leon þegar hann var yngri heldur en núna. Þegar hann var yngri þá sat hann bara kyrr og fylgdist með öllu í kringum sig, en eftir að hann byrjaði að skríða og labba varð þetta aðeins meiri áskorun. Ferðalögin hafa samt gengið mjög vel hingað til og hann er mjög duglegur. Mikilvægast finnst mér að honum líði vel.“

Ljósmynd/Aðsend

Arna lumar á nokkrum góðum ferðaráðum fyrir foreldra. „Við höfum í raun prufað okkur áfram hvað virkar fyrir okkur og hvað ekki. Magapokinn okkar hefur komið að góðum notum í ferðalögum þar sem við höfum innritað kerruna um leið og við innritum okkur í flugið. Þá er mög mikilvægt að vera með kerruna í kerrutösku til þess að hún sé tryggð. Þegar við flugum til Bandaríkjanna rifnaði rennilásinn á kerrutöskunni og nokkrir hlutir duttu úr henni, en þar sem kerran var í tösku fengum við inneign til þess að kaupa nýja hluti.“

„Svo höfum við líka passað að taka alltaf nóg af mat fyrir hann með okkur hvert sem við förum. Þegar hann drakk enn bara pela þá vorum við með heitt vatn í hitabrúsa og þurrmjólk, en svo þegar hann varð eldri og byrjaði að borða mat höfum við tekið nóg af skvísum og „puffs“ með okkur í ferðalögin.“

Fjölskyldan við Seljalandsfoss.
Fjölskyldan við Seljalandsfoss. Ljósmynd/Aðsend

„Við reynum svo að halda í hans rútínu eins og við getum en pössum okkur að vera sveigjanleg til þess að skapa ekkert stress. Eitt sem við höfum líka alltaf gert er að bóka gluggasætið og gangsætið í flugvélinni til þess að auka líkurnar að miðjusætið verið laust og hefur það yfirleitt virkað fyrir okkur.“

Vilja halda í hefðir úr mismunandi menningum

Pablo er fæddur og uppalinn í Kaliforníu en foreldrar hans eru frá Mexíkó og hafa búið í Kaliforníu í yfir 40 ár. Arna leggur mikla áherslu á að Leon viti hvaðan hann er og að hann læri öll tungumálin sem eru í hans menningu. 

Leon í klippingu hjá pabba sínum.
Leon í klippingu hjá pabba sínum. Ljósmynd/Aðsend

„Pablo talar eingöngu spænsku við Leon og ég íslensku, en svo tölum við Pablo saman á ensku. Mér fannst líka mikilvægt að halda í eftirnafnahefðir úr báðum ættum, Pabloson úr íslenskri menningu og Garcia úr amerískri og mexíkóskri menningu.“

Leon sáttur við hrekkjavökubúninginn sinn.
Leon sáttur við hrekkjavökubúninginn sinn. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum líka verið að halda upp á amerískar hátíðir eins og hrekkjavöku og þakkargjörðarhátíð. Ég hef líka mjög gaman af þessum amerísku hefðum og héldum við upp á frekar ameríska veislu fyrir Leon þegar hann varð eins árs.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is