Sendi nektarmyndir og lífið fór á hliðina

Netið getur verið besti og versti vinur barnanna.
Netið getur verið besti og versti vinur barnanna. Unsplash.com

Roxy Longworth var þrettán ára þegar strákur í skólanum bað hana um að senda sér myndir af henni í nærfötum. Hún lét til leiðast en fljótlega ágerðist þetta og hann bað um sífellt fleiri og djarfari myndir. Hann hótaði að segja öllum að hún væri köld og leiðinleg ef hún gerði þetta ekki. Myndirnar fóru í dreifingu um skólann og strákar fóru að hóta henni til að fá fleiri myndir. Skömmin varð gríðarleg og henni fannst allar leiðir lokaðar og íhugaði sjálfsvíg.

„Ég vildi að einhver hefði sagt mér að um leið og einhver hefur svona mynd af þér þá á hann þig. Í mínu tilfelli snerist þetta um félagslegan þrýsting og þvinganir en í upphafi var þetta spennandi og ég var upp með mér. Mér fannst þetta ákveðin valdefling og það er hættan fyrir ungar stúlkur,“ segir Longworth um reynslu sína í viðtali við The Times.

Longworth átti erfitt með að leita til foreldra sinna um aðstoð og reyndi að nálgast móður sína þegar hún var 14 ára.

„Ég sagðist hafa hugmynd að bók...um stúlku sem hafði sett nektarmyndir af sér á netið og séð eftir því. Mamma mín sagði bara að þetta væri heimskulegt að gera og að fólk vildi ekki lesa um heimskt fólk. Þetta yrði léleg bók!“.

Þarna hafði móðirin misst af þeim skilaboðum sem dóttir hennar var að reyna að koma til skila og hafði það slæmar afleiðingar fyrir geðheilsu dótturinnar og samband þeirra hrakaði ört.

Þær mæðgur hafa nú skrifað bók um lífsreynsluna (When You Loose It: Two Voices. One True Story.) og segist móðirin sjá mjög eftir því hvernig hún tók á málunum. „Ég bara skammaði hana. Ég hefði átt að reyna að skilja þetta betur. Hvernig það er að vera ung stelpa í dag og reyna að vera bæði fullorðin, kynnast strákum og vera vinsæl á sama tíma. Ég hafði bara engan skilning á þessu lífi,“ segir Gay Longworth móðir Roxy. „Þegar ég komst að því hversu slæmt ástandið var í raun og veru þá var það um seinan. Hún vildi ekki lengur tala við mig. Ég hafði brugðist henni algerlega.“

„Ég vil að aðrir foreldrar læri af minni reynslu. Ég hata hvernig ég brást við og skildi ekki allt það sem hún hafði gengið í gegnum. Mér fannst ég vera ein í heiminum og vildi að ég gæti farið aftur í tímann og breytt öllu. Ég brást sem móðir.“

Nú eru sex ár liðin og hefur Roxy Longworth lagt mikla vinnu í að efla sig eftir hremmingarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert