Fimm hugmyndir að dægrastyttingu í sumarfríinu

Mynd úr safni af börnum að leik.
Mynd úr safni af börnum að leik. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Mikil röskun á heimilislífinu getur fylgt sumarleyfum. Börn á leik- og grunnskólaaldri eiga langt sumarfrí fyrir hendi, jafnvel lengra en foreldrar þeirra. Sumum börnum reynist sumarfríið erfitt þar sem flest þeirra þrífast best í rútínu.

Vandasamt getur verið að halda í daglega rútínu þegar reglubundnar athafnir eins og að vakna á ákveðnum tímum og halda í skólann fara í hlé. Mikilvægt er að reyna að halda í eins mikla rútínu og kostur er á og halda börnunum uppteknum með einhverjum hætti. Þá eru minni líkur á að börnin finni fyrir leiða og eigi erfitt með að njóta sumarfrísins.

Barnavefurinn hefur tekið saman lista yfir nokkra skemmtilega hluti fyrir börn til dægrastyttingar í sumarleyfinu.

1. Matarinnkaup

Fáðu barnið til að skrifa innkaupalista og skipuleggja matarinnkaupin með þér. Það getur verið mikið sport að fá hlutverk í þessu formi og þá sérstaklega þegar í matvöruverslunina er komið og leita þarf að öllum matföngunum. Þú reynir bara að halda í þolinmæðina á meðan.

2. Myndataka

Stilltu skeið- eða vekjaraklukkuna í snjallsímanum þínum á 30 mínútur. Leyfðu barninu að fá snjallsímann þinn í láni og biddu það um að fara út og taka myndir af ákveðnum hlutum. Til dæmis rauðum bíl, gulu húsi, könguló, stórum steini og svo framvegis. Myndum af öllum þessum hlutum verður barnið að ná á innan við 30 mínútna. Þessi leikur styttir barninu stundir og það fær útiveru í leiðinni. 

3. Ruslatínsla 

Sendu barnið út í leit að rusli. Gott er að hafa barnið vopnað hönskum og ruslapoka svo það sé ekki að snerta neitt með berum höndum. Ruslaleitinni getur þú svo snúið upp í keppni þar sem þú tekur tímann á því hversu langan tíma það tekur barnið að fylla pokann af ruslinu úr nærumhverfinu.

4.  Mála steina

Leyfðu barninu að fara út og leita að flottum steinum sem það sér. Þegar barnið hefur fundið nokkra slíka leyfir þú því að mála á steinana, hvort sem það eru fígúrur eða krass. Barnið yrði enn ánægðara með dagsverkið ef það fengi að lifa úti í garði, við innganginn á útidyrahurðinni eða sem skraut á svölunum.

5. Leikfangasala

Fáðu barnið með þér í allsherjar tiltekt í herberginu með það að leiðarljósi að finna gamalt dót sem ekki er lengur í notkun. Barnið safnar gamla dótinu saman og fær að halda leikfangasölu fyrir utan heimilið eða búðina í hverfinu. Það gæti verið hvati að gefa fjárhæðina sem safnast til í góðgerðarmál eða til þess að safna fyrir einhverju sem barninu langar sjálft í. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert