Þráði að verða ein af þessum óléttu konum

Katrín Edda Þorsteinsdóttir gengur nú með sitt fyrsta barn en …
Katrín Edda Þorsteinsdóttir gengur nú með sitt fyrsta barn en segist stundum varla trúa því að hún sé loksins ólétt. mbl.is/Árni Sæberg

Verkfræðingurinn og áhrifavaldurinn Katrín Edda Þorsteinsdóttir fékk fyrst að vita það þegar hún var 25 ára gömul að hún myndi eiga erfitt með að eignast börn. Hún hugsaði lítið út í það þá, enda hafði hún um nóg annað að hugsa. Á þeim tíma var hún í vinnu, að ljúka meistaragráðu í verkfræði og að keppa í fitness. 

„Ég varð mjög leið í örlítinn tíma en leyfði mér ekkert að hugsa um það frekar. Svo seinna meir þegar ég fór að hugsa um það í alvöru voru alls konar tilfinningar sem komu upp. Tilfinningin að vera gölluð eða hafa gert eitthvað rangt var yfirleitt sterkust,“ segir Katrín í viðtali við mbl.is. 

Katrín er nú gengin um 20 vikur með sitt fyrsta barn. Katrín er búsett í Þýskalandi ásamt eiginmanni sínum Markusi, sem er þýskur, og vinnur hún sem verkfræðingur hjá Bosch.

Ekki bein leið að foreldrahlutverkinu

„Við prófuðum fyrst árið 2020 hormónalyf frá kvensjúkdómalækni á Íslandi sem örva eggbúin til þess að stækka en ég fékk aldrei egglos á þeim lyfjum svo það gekk ekki. Í byrjun 2021 byrjuðum við hjá frjósemisstöð í Þýskalandi og fórum tvisvar sinnum í gegnum tæknisæðingu sem gekk ekki og reyndum í þriðja skiptið en þá örvuðust of mörg egg og var hún því blásin af,“ segir Katrín. 

Þá var þeim ráðlagt að prófa glasafrjóvgun (IVF). Fyrstu tilraunina gerðu þau í október það ár. Þá náðust aðeins fjögur egg, en venjulega er miðað við að um 15 egg náist. Af þessum fjórum eggjum frjóvguðust tvö egg og voru þeir settir upp samdægurs. Katrín segir að vanalega séu fósturvísar settir upp eftir fimm daga, en að það sé aðeins gert þegar fleiri egg náist. 

Katrín á von á lítilli stúlku í desember.
Katrín á von á lítilli stúlku í desember. mbl.is/Árni Sæberg

Hvorugur fósturvísirinn vildi festa sig og þurftu þau þá að hefja meðferðina upp á nýtt. Þá mætti þeim nýtt vandamál. Katrín varð fyrir harkalegri oförvun, en það þýðir að of mörg egg örvast og stækka. 

„Í mínu tilfelli voru það 36 eggbú sem voru tekin í eggheimtuaðgerðinni. Oft þýðir mikill fjöldi eggja minni gæði en við vorum heppin að næsta dag höfðu 33 eggjanna frjóvgast. Ég var mjög kvalin í tæpa viku í kringum oförvunina þar sem eggjastokkarnir tveir voru hvor um sig 12 sentímetra langir í stað 3 sentímetra eins og þeir eru vanalega og þrýstu á öll líffæri og öndunarfæri. Maginn og eggjastokkarnir fylltust einnig vökva vegna hormónanna og fór ég í litla aðgerð þar sem tappað var af 600 ml vökva tveimur dögum eftir eggheimtuna,“ segir Katrín. 

Hún segir kvalirnar þó hafa borgað sig því úr urðu sex heilbrigðir fósturvísar sem fóru í frysti. 

„Einn þeirra var settur upp rúmum mánuði síðar þegar ég hafði jafnað mig af oförvuninni og sá fósturvísir er litla stelpan sem ákvað að halda sér fast í mig og situr þar enn,“ segir Katrín.

Óvissan óbærileg

Spurð hvort eitthvað hafi komið á óvart í ferlinu segir Katrín að það hafi bara allt komið á óvart og í raun geti maður ekki með nokkru móti undirbúið sig fyrir svona ferli. Hún hafi vitað að þetta yrði dýrt og erfitt, en ekki jafn erfitt fyrir andlegu hliðina og raun bar vitni.

„Aukaverkanir lyfjanna voru eitt, en endalaus neikvæð þungunarpróf og óvissan að vita ekki hvort þetta myndi nokkurn tíma ganga var óbærileg. Einnig var ótrúlega erfitt að vera jafn opin og ég er á samfélagsmiðlum en segja ekki frá þessum risastóra parti af lífinu fyrr en eftir á. Það var mikill léttir þegar ég loksins tilkynnti óléttuna og byrjaði að tala um allt,“ segir Katrín. Hún er einn vinsælasti áhrifavaldur landsins með rúmlega 27 þúsund fylgjendur áInstagram.

Katrín segir allt við tæknifrjóvgunarferlið hafi komið á óvart. Eina …
Katrín segir allt við tæknifrjóvgunarferlið hafi komið á óvart. Eina sem hún vissi var að þetta yrði dýrt og erfitt. mbl.is/Árni Sæberg

Trúir ekki enn að hún sé ólétt

Þrátt fyrir að Katrín sé hálfnuð á meðgöngunni segist hún varla enn trúa því að hún sé ólétt. Hún segir að þetta sé þó allt að verða raunverulegra með hverri vikunni sem líður en að hún hafi átt mjög erfitt með að njóta þessa ð vera ólétt. 

„Ég hef verið svo ótrúlega hrædd um að missa barnið. Þegar ég fékk jákvæða prófið varð ég svo glöð en á sama tíma svo ótrúlega hrædd og stressuð. Ég leyfði mér samt að vera glöð allan daginn og hugsa að ég væri ólétt þrátt fyrir að aftan í hausnum væri alltaf hræðslan við að þetta væri ekki raunverulegt og yrði hrifsað frá mér,“ segir Katrín. 

„Ég þráði bara þetta móment, að vera ein af þessum óléttu konum, fá bumbu, gera baby wish list á Amazon, tala um börn og fá morgunógleði og óléttueinkenni. Þegar lífið hefur snúist um að verða óléttur veit maður ekkert hvernig manni á að líða þegar maður er loksins orðinn óléttur,“ segir Katrín og bætir við að hún leggi sig nú fram við að njóta óléttunnar en að stundum líði henni hreinlega eins og hún sé að ljúga að fólki að hún sé ólétt. „Ég vona að þetta verði raunverulegra þegar ég fer að finna hreyfingar frá stelpunni.“

Gerði allt eftir „bókinni“

Spurð um ráð til þeirra sem einnig glíma við ófrjósemi segir Katrín besta ráðið vera að átta sig á að maður getur ekki stjórnað öllu. „Ég er verkfræðingur og er svolítið kassalaga að því leyti að ég er vön að horfa á vandamál, greina þau og finna lausnir til þess að leysa þau. En á ófrjóseminni er engin lausn,“ segir Katrín.

Hún brotnaði algjörlega niður þegar hún fékk neikvætt óléttupróf fjórtán dögum eftir að fyrstu fósturvísarnir voru settir upp hjá henni. Fyrir þessa fyrstu glasafrjóvgun gerði hún „allt 100% eftir bókinni“ en samt tókst það ekki. 

„Ég var með blóðsykurmæli og passaði mig að blóðsykurinn færi aldrei upp fyrir eðlileg mörk. Ég fór ekkert í crossfit, fór einungis út að ganga og í yoga eins og Google vinur minn sagði mér. Ég manifestaði, hugleiddi, fór í nálastungur, svaf fullkomlega, passaði skjátíma og og og... Þrátt fyrir að ég „gerði allt rétt“ fékk ég neikvætt þungunarpróf 14 dögum síðar og gjörsamlega brotnaði niður. Ég var á sama tíma nýbúin að missa bróður minn og átti því mjög erfiða mánuði í kjölfarið með hitt allt í ofanálag,“ segir Katrín. 

Fyrir seinni glasafrjóvgunina ákvað hún að reyna að fara með annað hugarfar inn í ferlið. Halda áfram að mæta í crossfit og ekki stressa sig á mataræðinu. Hún segir það hafa gert mjög mikið fyrir andlegu heilsuna. „Það gerði meðferðina sjálfa og biðina eftir prófinu mun bærilegri og endaði svo með jákvæðu þungunarprófi þrátt fyrir að hafa ekki verið „fullkomin“,“ segir Katrín. 

Annað ráð sem hún fékk frá vinkonu sinni, sem einnig glímir við ófrjósemi og þurfti fjóarar uppsetningar á frosnum fósturvísi til þess að eignast litlu stelpuna sína var að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hvenær

„Það hélt mér líka gangandi í gegnum þetta allt. Maður verður bara að treysta ferlinu og líkamanum og ekki missa vonina því mikið meira getur maður ekki haft áhrif á. Það er einnig mikilvægt að hlúa vel að sjálfu sér í þessum leiðangri því þessi leiðangur getur því miður tekið mikinn toll af andlegri heilsu.“

„Ég er verkfræðingur og er svolítið kassalaga að því leyti …
„Ég er verkfræðingur og er svolítið kassalaga að því leyti að ég er vön að horfa á vandamál, greina þau og finna lausnir til þess að leysa þau. En á ófrjóseminni er engin lausn,“ segir Katrín. mbl.is/Árni Sæberg

Fagnar hverju óléttueinkenni

Katrínu hefur líkamlega liðið vel á meðgöngunni en segist þó fagna hverju óléttu einkenni. „Mér var óglatt fyrstu 14 vikurnar á morgnana, hef verið með mikið kvef og sofið illa síðan ég varð ólétt en ég fagna hverju óléttueinkenni,“ segir Katrín. 

Hún segir óléttukvefið hafa komið henni mikið á óvart, enda hafi hún aldrei heyrt um það. Það er þó algengt. Hún segist líka vera hissa á því að svefninn hafi strax farið í rugl á sjöundu viku. 

„Annars kemur einhvern veginn allt mér svosem á óvart þar sem allt sem einhvern veginn við kemur óléttu er mér svo óraunverulegt. Jú! Og það að ég þarf að hafa mig alla við að pissa ekki á mig þegar ég hnerra. Ég hélt það byrjaði fyrst eftir að barnið væri komið í heiminn en það er aldeilis ekki þannig.“

Katrín keppti lengi í fitness og hefur alltaf verið dugleg að hreyfa sig. Hún hefur haldið áfram að hreyfa sig á meðgöngunni og er þakklát fyrir að geta það. 

„Ég er í crossfit og fer gjarnan út að hlaupa og kynnti mér hvaða æfingar væru ekki hentugar fyrir óléttar konur og hef lagað æfingarnar að því. Ég hleyp minna en ég var vön að gera en fer frekar út að ganga. Í crossfit tek ég ekki jafn erfiðar æfingar og fyrr og eins lyfti ég ekki eins þungu. Ég tek sippa ekki og sleppi kassahoppi vegna álagsins sem verður á grindarbotninn,“ segir Katrín. 

Hún sleppir líka æfingum eins og upphífingum, tær í slá og handstöðupressum þar sem sveigjan sem kemur á kviðinn er ekki góð fyrir kviðvöðvana og grindarbotninn. Hún segir það vera ekkert mál að finna óléttuvænar æfingar og vera með á æfingum. 

Ófrjósemi algengari en fólk heldur

Katrín talað opinskátt um ófrjósemina og allt sem henni fylgir. Hún bendir á að ófrjósemi sé svo miklu algengari en margir halda og vill opna umræðuna. „Því meira sem við tölum um hana, því venjulegri verður hún í daglegu tali og því minna þarf að pæla í því hvernig maður talar um hana,“ segir Katrín. 

Hún segir að margt í umræðunni geti verið triggerandi fyrir fólk sem glímir við ófrjósemi og segir setningar á borð við: „Ég þekki sko eina sem var búin að reyna ALLT en svo um leið og hún slakaði á, þá bara varð hún ólétt! Þú ættir að slaka á, þá kemur þetta.“ og „Ég þekki aðra sem fór aldrei á túr en um leið og hún var búin að eignast sitt fyrsta barn eftir tæknifrjóvgun þá bara fór allt í gang, hún fékk fullkominn tíðarhring og varð ólétt náttúrulega, það gerist pottþétt fyrir þig líka.“ geta verið mjög triggerandi. 

Hún segir líka að þó pör eigi eitt barn fyrir og séu í frjósemisaðgerð þurfi ekki að benda þeim á að vera þakklátt fyrir barnið sem það eigi fyrir. 

„Einnig er gott að tilkynna óléttu frekar í textaskilaboðum heldur en í persónu eða í myndsímtali. Þá hefur einstaklingurinn sem er að glíma við ófrjósemi það rými sem honum hentar að taka við fréttunum,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert