„Ég bjóst ekki við keisaraskurði“

Sonur Sharna Burgess var tekinn með keisaraskurði.
Sonur Sharna Burgess var tekinn með keisaraskurði. Skjáskot/Instagram

Dansarinn Sharna Burgess eignaðist sitt fyrsta barn hinn 28. júní síðastliðinn með kærasta sínum, Brian Austin Green. Hún hefur verið óhrædd við að sýna breytingar á líkama sínum eftir fæðingu á Instagram, en í gær opnaði hún sig um fæðinguna sjálfa.

Í færslunni talar Burgess hreinskilnislega um óvæntan keisaraskurð sem hún gekkst undir. Hún bætir við að hún hafi ekki endilega verið með fæðingaráætlun, heldur hafi hún reynt að fylgja flæðinu og halda ró sinni. Keisaraskurðurinn kom henni samt sem áður á óvart, en eftir að hafa verið í yfir 30 klukkustundir í fæðingu var henni ráðlagt að fara í keisara. 

„Á því augnabliki varð ég hrædd, jafnvel á borðinu var ég hrædd,“ viðurkenndi Burgess. „En drengurinn kom í heiminn heilbrigður og ánægður og það var alltaf forgangsatriðið.“

Burgess segist ekki hafa haft hugmynd um hvernig hún ætti að jafna sig eftir keisaraskurð og hafi jafnvel verið smeyk við að horfa á líkama sinn í fyrsta skipti eftir aðgerðina. Hún minnir sig þó reglulega á að hún hafi komið heilbrigðu barni í heiminn, og segir það kraftaverk gera þetta allt þess virði.

mbl.is
Loka