Fertug hrein mey þráir að eignast barn

Lolo Jones hefur bæði keppt í grindarhlaupi og á bobsleða …
Lolo Jones hefur bæði keppt í grindarhlaupi og á bobsleða á Ólympíuleikunum. Samsett mynd

Ólympíufarinn Lolo Jones hefur verið ófeimin við að segja frá ákvörðun sinni að stunda ekki kynlíf fyrir hjónaband. Á dögunum deildi hún tilfinningaþrungnu myndbandi með fylgjendum sínum á Instagram þar sem hún opinberaði að hún væri að hefja ferli til að frysta í sér eggin með það markmið að fara í glasafrjóvgun. Í færslunni segist Jones ekki enn hafa fundið rétta manninn, og að tíminn sé nú á þrotum. 

Jones er ein af fáum sem hefur bæði keppt á sumar- og vetrarólympíuleikum, en hún keppti í grindarhlaupi á sumarólympíuleikunum 2008 og 2012, en árið 2014 keppti hún á bobsleða á vetrarólympíuleikunum. 

„Mig langar virkilega í fjölskyldu. Ég hef beðið eftir manninum mínum í svo mörg ár,“ skrifaði Jones við myndbandið, en hún varð fertug á dögunum. Hún segir ekkert hræða sig meira en tilhugsunina um að tíminn sé á þrotum og hún muni ekki eignast fjölskyldu.

View this post on Instagram

A post shared by Lolo Jones (@lolojones)

Jones ætlaði upphaflega að frysta í sér eggin þegar hún var þrítug. „Ég hugsaði samt alltaf að ég myndi hitta manninn minn og allt mundi ganga upp. En hér er ég, næstum 10 árum síðar og það hefur ekki enn gerst. Ég kvíði því að geta mögulega ekki eignast börn, og sá kvíði eykst daglega,“ bætti hún við. 

Í samtali við People segir Jones ákvörðun sína að stunda ekki kynlíf vissulega hafa haft áhrif á ástarlíf sitt. „Já, það hefur klárlega haft slæm áhrif á ástarlíf mitt. Þetta þykir gamaldags, en þetta er eitthvað sem ég vil gera til að heiðra framtíðar maka minn,“ sagði hún. 

mbl.is