Trump-djók fylgdi fyrstu sónarmyndinni

Hjónin hamingjusömu, Chrissy Teigen og John Legend.
Hjónin hamingjusömu, Chrissy Teigen og John Legend. AFP

Fyrirsætan Chrissy Teigen deildi fyrstu sónarmyndinni af þriðja barni sínu og eiginmanns síns, tónlistarmannsins Johns Legends, í story á Instagram. Þriðja barn hjónanna er væntanlegt í heiminn á næstu mánuðum en ekki er nákvæmlega vitað hvaða dag Teigen er sett. 

Kraftaverkabarnið sem brátt kemur í heiminn.
Kraftaverkabarnið sem brátt kemur í heiminn. Skjáskot/Instagram

Á myndinni má sjá barnið í góðu yfirlæti þar sem það heldur hægri hendi yfir brjóstkassann og virðist hafa það notalegt í móðurkviði. Teigen er dugleg að deila myndum úr hversdagslífinu og miðað við myndirnar er stanslaust stuð innan veggja heimilisins þar sem börn þeirra tvö; Luna og Miles, spila stórt hlutverk. Fréttamiðillinn Page Six greindi frá.

Sónarskoðunin hefur að öllum líkindum gengið vel fyrst Teigen ákvað að deila myndinni með aðdáendum sínum. Erfiðlega hefur gengið fyrir hjónin að eignast fleiri börn og hefur Teigen talað opinskátt um fósturmissi sem þau urðu fyrir árið 2020. Hjónin gengust undir glasafrjóvgun sem loks skilaði árangri líkt og sjá má á sónarmyndinni.

Það má með sanni segja að Teigen sé ekki húmorslaus en við sónarmyndina skrifaði hún: „Ég heyrði að FBI hefði gert aðför að Mar a Lago,“ og vísaði þar til húsleitar alríkislögreglunnar á heimili Trump-hjónanna á setri þeirra í Flórída. Teigen er ekki mikill aðdáandi hjónanna en Teigen og Trump hafa í gegnum tíðina verið að munnhöggvast á samfélagsmiðlum. Hefur hún haft sérstaklega gaman af því að djöflast í fyrrverandi forseta Bandaríkjanna fullum fetum.

mbl.is