Youtube-stjarna eignaðist stúlku

Desi Perkins eignaðist dóttur hinn 15. ágúst síðastliðinn.
Desi Perkins eignaðist dóttur hinn 15. ágúst síðastliðinn. Skjáskot/Instagram

Youtube-stjarnan Desi Perkins og eiginmaður hennar, Steven, tóku á móti sínu öðru barni hinn 15. ágúst síðastliðinn. Fyrir eiga þau soninn Ocean sem verður 2 ára í október. Dóttir þeirra, sem hefur þegar fengið nafnið Harley Reign, var nákvæmlega jafn þung og löng og stóri bróðir.

Perkins hefur deilt myndum frá fæðingunni á Instagram reikningi sínum. Hún lýsir fæðingunni sem „upplifun utan líkamans“ og segir mikilvægt að horfa til baka á þessa fallegu stund. 

„Tilfinningarnar sem ég upplifi þegar ég horfi á þessar myndir, það er eins og ég sé að upplifa þær í fyrsta skipti því á meðan ég var í fæðingunni sá ég ekki þessar yndislegu stundir. Ég var örmagna og vonaði bara að næsti rembingur væri sá síðasti og ég fengi loksins að hitta barnið mitt,“ skrifaði Perkins við myndaröðina. 

Perkins hefur notið mikilla vinsælda á Youtube þar sem hún deilir snyrtivöru- og förðunarmyndböndum, en hún er með tæplega 3,3 milljónir fylgjenda þar. Vinsældir hennar á Instagram eru einnig miklar, en þar er hún með 4,4 milljónir fylgjenda. 

mbl.is