Safnar fyrir opnun ungbarnakaffihúss

Katarzyna Deptula ásamt syni sínum, Stefan.
Katarzyna Deptula ásamt syni sínum, Stefan. Ljósmynd/Magdalena Lukasiak

Eftir að ljósmyndarinn Katarzyna Deptula eignaðist sitt fyrsta barn, Stefan, komst hún að því að mikil þörf væri á samkomustað hér á landi sem sniðinn væri að þörfum foreldra og barna. Hún tók málin í eigin hendur og stefnir á að opna ungbarnakaffihúsið Kaka og Krakkar í Reykjavík á næstu mánuðum, en þar verður boðið upp á hollar veitingar fyrir börn og fullorðna. 

Katarzyna kemur frá Masuria á Póllandi, en hún flutti til Íslands ásamt eiginmanni sínum fyrir fimm árum. „Masuria er mikil náttúruparadís og oft kölluð „land hinna þúsund vatna“ eða „lungu Póllands“,“ útskýrir Katarzyna. Hún er með BA-gráðu í ensku og bæði BA- og meistaragráðu í rússnesku og starfaði um tíma sem kennari, en í dag á kaffihúsið hug hennar allan ásamt ljósmyndun og móðurhlutverkinu. 

Meðgangan tók mikið á andlega

Katarzyna eignaðist sitt fyrsta barn, Stefan, í maí 2021. Hún segir meðgönguna hafa gengið afar vel líkamlega, en hafi reynt mikið á andlega. „Mér þykir mikilvægt að tala um andlegu hliðina þar sem margir eiga í erfiðleikum með andlegu heilsuna, þar á meðal ég. Ég þjáist af þunglyndi með einkennum hugröskunar (e. neurosis) og tók ekki lyfin mín á meðgöngunni. Ég upplifði því skin og skúri, og í lok meðgöngunnar var ég orðin ansi óþolinmóð að komast aftur í meðferð,“ segir hún. 

Aðspurð segir Katarzyna móðurhlutverkið sífellt koma sér á óvart. „Áður en Stefan fæddist voru engin börn í kringum mig svo ég vissi ekkert um þau né umönnun þeirra. Ég hafði til dæmis aldrei haldið á nýfæddu barni áður en sonur minn kom í heiminn,“ segir Katarzyna. „Það kemur mér á óvart á hverjum degi hve klár Stefan er og hversu mikið hann skilur, jafnvel þó hann geti ekki talað enn.“

Katarzyna leggur mikla áherslu á að vera til staðar í móðurhlutverkinu og eyða þau mæðginin mörgum gæðastundum saman. „Ég legg líka mikla áherslu á að við séum fjöltyngd. Heima tölum við bæði pólsku og ensku, en svo biðjum við íslenska vini okkar að tala íslensku við Stefan. Allt þetta kallast skipulögð fjöltyngd og við elskum þá hugmyndafræði,“ útskýrir Katarzyna. 

Kaffihús og matsölustaðir ekki barnvænir

Katarzyna segist fljótt hafa áttað sig á því að það væru engir staðir hér á landi þar sem hægt væri að fara með ungbörn. „Þegar ég fór að fara með Stefan út átti ég ekki í neinum vandræðum með að ganga með kerruna í rigningu og miklum vindum, en það var hins vegar barátta að finna stað þar sem hann gæti hitt aðra krakka á hans aldri. Mér fannst sundkennsla einu sinni í viku ekki nóg, og svo langaði mig sjálfri líka að fara út til að hitta vini og koma mér aftur inn í félagslífið,“ segir Katarzyna. 

„Það getur verið virkilega óþægilegt að sitja á kaffihúsi eða matsölustað með nagandi samviskubit yfir því að vera að trufla annað fólk ef barnið þitt grætur eða vill hlaupa um. Margir sækja þessa staði einmitt til þess að fá ró og næði til að vinna eða slaka á. Það er ekki eitthvað sem er hannað fyrir börn,“ segir Katarzyna. 

Leggur áherslu á holla fæðu og þroskaleikföng

„Kaka og Krakkar verður kaffihús fyrir foreldra og ung börn, en þó aðaláherslan verði á börn á aldrinum 0 til 3 ára eru eldri börn að sjálfsögðu líka velkomin. Ég legg mikla áherslu á að bjóða upp á þroskaleikföng sem auka þroska og hreyfifærni barna, en öll leikföngin eru úr öruggum efnum og hafa verið vottuð,“ útskýrir Katarzyna. 

„Annað sem við munum gera öðruvísi en önnur kaffihús er að bjóða upp á mat fyrir börn. Þegar þú ferð út að borða er mjög erfitt að fá hollan valkost fyrir börnin. Við munum því bjóða upp á grænmetis- og ávaxtamús, chia-búðing, hummus, ferska ávexti og grænmeti, ljúffengar múffur án sykurs og salts ásamt vöfflum með skemmtilegu ívafi,“ segir Katarzyna.

Á kaffihúsinu verður holl fæða á boðstólnum, bæði fyrir börn …
Á kaffihúsinu verður holl fæða á boðstólnum, bæði fyrir börn og foreldra þeirra. Ljósmynd/Magdalena Lukasiak

„Við munum auðvitað ekki gleyma foreldrunum, en fyrir utan te og kaffi munum við bjóða upp á besta heita súkkulaði bæjarins að hætti Ítala. Það verður unnið í samvinnu við besta súkkulaðifyrirtæki landsins og eru fagmenn þar nú þegar byrjaðir að vinna að sérsniðnum bragðtegundum okkar sem munu ekki vera fáanlegar annarsstaðar.“

Eins og nafnið gefur til kynna verða að sjálfsögðu kökur á boðstólnum eftir Aneta Wozniak frá Baked in Reykjavik. „Ég get fullvissað ykkur um að kökurnar hennar smakkast betur en þær líta út, og þær líta stórkostlega út,“ segir Katarzyna. 

Fjármögnunin stærsta áskorunin

Katarzyna er að fjármagna kaffihúsið úr eigin vösum og segir ákveðnar áskoranir fylgja því. „Það hefur verið mikil áskorun að finna stað. Ég heimsótti einn stað sem mér leist virkilega vel á, en því miður var leigan alltof há fyrir mína greiðslugetu. Ég er á Karolina Fund, þar sem fólk getur lagt eitthvað af mörkunum fram í lok ágúst. Það væri frábært að fá slíka hjálp, en þessi sjóður er allt eða ekkert sjóður, sem þýðir að þó ég nái 99% af markmiðinum þá fæ ég ekki hjálpina. Við þurfum að ná 100%,“ útskýrir Katarzyna. 

„Af sömu ástæðu er ég að leita að styrktaraðilum, til dæmis fyrirtækjum sem gætu styrkt okkur með lýsingu eða húsgögnum. Þó það séu einhverjar fórnir sem ég gæti þurft að færa þá mun ég ekki láta það bitna á gæði matarins og leikfanganna. Foreldrarnir og börnin eiga skilið gæði og heiðarleika,“ segir Katarzyna. 

Katarzyna er bjartsýn á framhaldið, og ef allt gengur upp stefnir hún á að opna kaffihúsið í lok þessa árs eða í janúar 2023. 

Katarzyna er spennt fyrir framhaldinu.
Katarzyna er spennt fyrir framhaldinu. Ljósmynd/Magdalena Lukasiak
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert