TikTok-stjörnupar á von á öðru barni

TikTok-stjörnurnar Abbie og Josh Herbert ásamt dóttur sinni, Poppy James.
TikTok-stjörnurnar Abbie og Josh Herbert ásamt dóttur sinni, Poppy James. Skjáskot/Instagram

TikTok-stjörnurnar Abbie og Josh Herbert eiga von á sínu öðru barni, en fyrir eiga þau dótturina Poppy James sem er 15 mánaða gömul. Parið hefur slegið rækilega í gegn á samfélagsmiðlinum TikTok, en samanlagt eru þau með yfir 15 milljónir fylgjenda á miðlinum. 

Abbie og Josh kynntust við upptökur á tónlistarmyndbandi Josh árið 2013, en þá var Abbie aðeins 17 ára gömul. Það var ekki fyrr en tveimur árum síðar, eða árið 2015 sem þau fóru fyrst á stefnumót. Þremur árum síðar voru þau trúlofuð og sumarið 2019 giftu þau sig. 

Parið tilkynnti óléttuna fyrst hjá People þar sem þau sögðust vera spennt fyrir nýjum fjölskyldumeðlim sem er væntanlegur á næsta ári. „Við erum svo þakklát fyrir að litla fjölskyldan sé að fara stækka árið 2023. Við getum ekki beðið eftir að hitta litla gleðigjafann okkar og horfa á Poppy verða bestu stóru systurina,“ sagði parið. 

mbl.is