Varð móðir 19 ára og allt breyttist

Auður Ösp varð móðir 19 ára gömul og allt breyttist.
Auður Ösp varð móðir 19 ára gömul og allt breyttist.

Auður Ösp komst að því að hún væri ólétt þegar hún var aðeins 18 ára gömul og sonur hennar fæddist stuttu eftir að hún varð 19 ára. Lífið breyttist svo sannarlega þá þegar Auður þurfti að taka ábyrgð á annarri manneskju. 

Auður býr í dag á Siglufirði en þangað flutti hún árið 2015. Undanfarin ár hefur hún lært sjúkraliðann samhliða því að vinna við aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Siglufirði og stefnir á nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. 

Maður Auðar er Daníel Pétur og börn þeirra eru Anton Elías 12 ára, Katla Röfn 9 ára og Rúrik Axel 2 ára.

Daníel Pétur, Rúrik Axel, Auður Ösp, Anton Elías og Katla …
Daníel Pétur, Rúrik Axel, Auður Ösp, Anton Elías og Katla Röfn.

Auður segir að allt hafi breyst þegar hún fékk son sinn Anton í fangið, þá aðeins 19 ára gömul. „Allt í einu bar ég ábyrgð á annarri mannveru en sjálfri mér. Ég hafði hugsað mér að hætta í skóla stuttu áður en ég komst að því að ég væri ófrísk. Anton var stór partur af þeirri ákvörðun að klára námið, til þess að veita okkur betri tækifæri í framtíðinni, þó það hafi tekið lengri tíma. Ég stóð mig almennt betur í námi eftir að hann fæddist. Börnin mín eru hvatinn til þess að vilja gera betur og verða betri,“ segir Auður.

Hún segist vera frekar afslöppuð mamma. Hún sé alltaf tilbúin að líta í eigin barm. Hún lítur upp til barnanna sinna og segir að það sé margt hægt að læra af börnunum sínum. Hún vill vera kletturinn þeirra og reynir að sýna þeim mikinn stuðning í því sem þau eru að gera. Hún segir að það sé stundum erfitt að deila athyglinni á milli barnanna að það sé orðið flókið að gefa hverju barni sinn eigin tíma. Hún segir að það sé oft krefjandi að vera með ADHD– greiningu en að börnin hennar séu mjög þolinmóð og skilningsrík. 

Auður á þrjú börn.
Auður á þrjú börn.

Styð börnin í því sem þau vilja gera

Í uppeldinu leggur Auður á að börnin hennar upplifi sig örugg og að þeim finnist þau geta allt sem þau langar til, núna eða seinna. 

„Ég legg líka áherslu á virðingu. Gamall leikskólakennari eldri sonar míns sagði í einu foreldraviðtali, að segja alltaf já, sem ég hugsa mikið til og hef reynt að temja mér að einhverju leyti. Það þarf líka að setja mörk. Já þú mátt fá nammi, á laugardaginn. Já, þú mátt fara í sund á morgun. Við eigum svo oft erfitt með að neita börnunum okkar eða halda ákvörðunum okkar því við eigum erfitt með viðbrögðin þeirra. Mér finnst mikilvægt að þau viti að þau geti allt og orðið allt sem þau vilja, svo lengi sem þau leggja á sig vinnuna. Ég stend með þeim og styð þau í þeirri vegferð,“ segir Auður.

Auður og Daníel.
Auður og Daníel.

Meðgöngurnar þrjár gengu heilt yfir vel hjá Auði og fann hún fyrir lítilli sem engri ógleði og leið vel.

„Á fyrstu tveimur fann ég þó alveg fyrir því að ég væri ólétt eftir 30 viku og þá fór að síga svolítið á skrokkinn, smá grindagliðnun og mikil bjúgsöfnun. Mér leið eins og nefið á mér væri þrefalt. Ég fékk svo D-vítamín, járn og B-12 vítamín skort á þriðju meðgöngunni. Í minningunni er sú meðganga sú sem gekk best og mér leið best alla meðgönguna. Kannski vegna þess að ég hafði meiri tíma og svigrúm til þess að njóta þess að vera ólétt,“ segir Auður.

Auður segir að stökkið á milli tveggja barna í þrjú hafi verið mesta breytingin. Þau eru öll á ólíkum aldri með ólíkar þarfir. Boltinn fór heldur betur að rúlla eftir að sá yngsti varð eins árs. Hann þarf mikið á mömmu sinni að halda og er ekki tilbúinn að deila athyglinni með systkinunum sínum. Það mun koma að því að hann vaxi úr grasi og þurfi ekki eins mikið á mömmu sinni að halda. 

Systkinin.
Systkinin.

Hvað kom þér mest á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Móðurhlutverkið er ótrúlega erfitt, mikil sjálfsskoðun og stundum upplifi ég eins og ég sé föst í túpu og komist ekki leiðar minnar. Á sama tíma er það ótrúlega gefandi, ástríkt og það er fátt meira sem gleður en afrekin þeirra, í hvaða formi sem er. Mér hefði aldrei dottið í hug að allt þetta litla og stóra sem þau gera gæti vakið upp svona mikið stolt og mikið af góðum tilfinningum.“

Fjölskyldan hefur gaman að því að ferðast.
Fjölskyldan hefur gaman að því að ferðast.

Frábært að ala börn upp á Siglufirði

„Mér finnst það forréttindi að fá tækifæri til þess að ala börnin mín upp úti á landi, þá helst frelsið sem eldri krakkarnir búa við. Það er mjög stutt í náttúruna þó við mættum vera duglegri að nýta okkur það. Minna skutl, en íþróttahúsið sem þau nota oftast fyrir tómstundir er neðan við húsið okkar og meiri ró í kringum okkur,“ segir Auður. 

Hún segir að það skipti í raun ekki máli hvar fólk býr, svo lengi sem það búi sér hamingjusamt, kærleiksríkt og öruggt heimili. Hún segist ekki sjá eftir því að hafa ákveðið að flytja til Siglufjarðar.

„Krakkarnir upplifa mikið frelsi og finna að hér sé gott að vera. Það er ekki eins mikið stress vegna umferðar og annars áreitis sem oft fylgir borgarlífinu. Lífið á Siglufirði er yndislegt, fólkið hérna er yndislegt, nágrannarnir eru æðislegir og allir að vilja gerðir.“ 

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ólétt?

„Þegar ég varð ófrísk að fyrsta barninu mínu fann ég til hræðslu og óöryggis enda 18 ára gömul, að detta í 11 viku þegar ég fæ staðfestingu á því að það sé einhver þarna innanborðs. Seinni tvær voru mjög gleðilegar en við Daníel höfðum glímt við ófrjósemi í nokkurn tíma áður en sá yngsti kom undir og kom sú ólétta mjög á óvart,“ segir Auður.

Bræðurnir að leika sér í snjónum.
Bræðurnir að leika sér í snjónum.

Ólíkar fæðingar

Fæðingarnar hjá Auði hafa gengið vel en eru þó mismunandi upplifanir en allar mjög dýrmætar. Með elsta barnið fékk hún meðgöngueitrun sem hún segir hafa tekið á. Fæðingin hafi gengið vel, en að hún hafi fengið háþrýsting og litli maðurinn var því tekinn með sogklukku. 

„Stelpan fæddist í Hreiðrinu þar sem þá voru náttúrulegar fæðingar án verkjalyfja. Ég vaknaði upp á settum degi með hríðaverki sem voru samt aldrei það vondir eða óþægilegir, þegar ég kom uppá fæðingardeild um kvöldið fékk ég val hvort ég vildi fara heim eða bíða. Hún fæddist 3 tímum seinna,“ segir Auður. 

Yngsta barnið var svo tekið með keisara þegar hún var gengin 38 vikur. Hún átti tíma hjá lækni um morguninn og vildi ræða næstu skref því hann lág undarlega og vildi ekki skorða sig. 

„Ég hafði sett í fyrstu vélina af fötunum fyrir hann um nóttina og lagst upp í rúm, þá klukkutíma seinna vakna ég við að vatnið fer. Hringi inná Akureyri og læt vita af mér. Kalla svo á manninn minn sem var uppi í stofu og bið hann sallaróleg um að henda einhverju í tösku því við séum að fara inná Akureyri. Hann hringir í foreldra sína til þess að koma eldri börnunum í skólann um morguninn. Sjúkrabíllinn kemur með eðalþjónustu. Þegar við komum inná Akureyri er ákvörðun tekin um að kalla ekki lækninn til strax enda stutt í að hún eigi að koma í hús, sem var í lagi mín vegna. Ákvörðun var tekin um keisara þar sem barnið virtist ekkert hafa hreyft sig úr þverlegunni sem hann var í,“ segir Auður.

Auður og Katla Röfn.
Auður og Katla Röfn.

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?

„Njótið tímans, hvort sem það eru erfiðu eða góðu stundirnar. Verið samkvæm sjálfum ykkur og hlustið á innsæið. Lærið af börnunum ykkar og verið þeim bestu fyrirmyndir sem þið hefðuð viljað eiga þegar þið voruð börn. Nærið ykkar innra sjálf með því sem veitir ykkur gleði. Það má alls ekki gleyma sjálfum sér.“

Systkinin saman á jólunum.
Systkinin saman á jólunum.
mbl.is