Íhugar að yfirgefa tónlistina fyrir föðurhlutverkið

Luisana Lopilato og Michael Bublé.
Luisana Lopilato og Michael Bublé. AFP

Tónlistarmaðurinn Michael Bublé segist hafa íhugað að segja skilið við tónlistarferilinn og einbeita sér alfarið að föðurhlutverkinu. Í síðasta mánuði tók Bublé og eiginkona hans, leikkonan Luisana Lopilato, á móti fjórða barninu sínu. 

Bublé kom fram í That Gaby Roslin hlaðvarpinu á dögunum þar sem hann ræddi um tónlistina og föðurhlutverkið. „Ég held að ég sé að nálgast það að geta bara farið og verið pabbi. Ég er með þessa mynd í hausnum af mér út á túni með börnunum mínum og börnunum hans Ed Sheeran og við erum bara að knúsa hvort annað í lautarferð og að verða full,“ sagði Bublé og hló. 

Bublé og Lopilato eiga tvær dætur og tvo syni, en Bublé hefur lengi verið staðráðinn í því að láta ekki tónlistaferilinn hafa neikvæð áhrif á fjölskyldulífið. Árið 2016 viðurkenndi hann að það væri krefjandi. 

„Allar ævisögumyndir sem ég horfi á um söngvara, það er alltaf sama sagan,“ sagði hann og benti á að þær endi oftast á því að frægðin verði þess valdandi að þeir yfirgefi fjölskylduna og sjái svo eftir því það sem eftir er. 

mbl.is