Öfundar fólk sem fer í barnlaus frí

Börn eru blessun en stundum þurfa foreldrar frí frá þeim.
Börn eru blessun en stundum þurfa foreldrar frí frá þeim. ALI JAREKJI

Margir foreldrar dreyma um að fara saman í frí án barnanna. Sumir láta það eftir sér og segja það nauðsynlegt fyrir geðheilsuna og sambandið.

Jade Fox datt aldrei til hugar að bóka sér ferð án barnanna en skipti snarlega um skoðun eftir að hún ræddi við fólk sem hefur ferðast án barnanna.

„Fyrir örfáum vikum gerði ég dauðaleit að blárri bollaköku. Hún þurfti að vera blá því þriggja ára sonur minn hafði beðið um bláa bollaköku. Þetta voru verðlaun fyrir að sofa heilan nætursvefn í heila viku í fyrsta skipti í þrjú ár!“

„Ég spjallaði við vin minn á kaffihúsinu og hann minntist á að hann væri á leið til Balí með konunni og engum börnum. Ég varð strax afar afbrýðisöm og hissa á að þau gætu leyft sér slíkan munað.“

 „Ég gerði alltaf ráð fyrir að barnlaus frí væru bara fyrir hina ríku og frægu. En þarna var vinur minn, frábært foreldri tveggja ungra drengja, á leið í barnlaust frí!“

„Þetta hljómar eins og útópía. Að geta sofið heilan nætursvefn, ráðið deginum sínum, átt samtöl án truflunar, fengið sér vín á daginn, tekið sér daglúr á paradísareyju án þess að það hafi nokkrar afleiðingar!“

„Þegar sonur minn fæddist þá hættum við að sofa. Á þremur árum höfum við nánast aldrei fengið fullan svefn. Og þegar ég hugsa út í það þá man ég ekki hvenær við vorum síðast saman tvö ein uppi í rúmi eða í rúminu á sama tíma og ekki bara að skiptast á að sofa.“

„Ég hef aldrei getað hugsað mér að gera foreldrum okkar það að þurfa að kljást við þessar hræðilegu nætur og því höfum við aldrei beðið um næturpössun. En nú er ég að íhuga það.“

Sérfræðingar mæla með foreldrafríi

„Við berum marga hatta í lífinu og það að vera foreldri er bara einn af þeim höttum. Þegar við eignumst börn þá verða miklar breytingar á hlutverkum okkar. Vinnuálagið verður meira og dreifist öðruvísi á aðilana innan heimilisins. Lítill svefn, áhyggjur og lítill tími til að hlúa að sjálfum sér getur verið mikill streituvaldur fyrir pör. Stundum verður maður að fá tíma frá barnauppeldinu og muna hver maður var áður en þau komu til sögunnar.“

Renshall bendir á að mæður þurfa að breyta viðhorfum sínum til þess hvað telst „góð móðir“.

„Margar hafa alist upp við þá hugmynd að það að vera góð móðir þýðir að vilja ekki verja tíma frá barninu. Eða þá að góð móðir setji þarfir annarra ofar eigin þörfum. Við þurfum að skora þessar hugmyndir á hólm.“

„Það er mikilvægt að hlúa að sjálfri sér. Ekki bara fyrir eigin hag en líka til þess að vera góð fyrirmynd fyrir börnin. Að sýna þeim að það sé mikilvægt að hugsa um sjálfan sig. Ef við erum úrvinda þá er það ekki gott fyrir börnin. Hvernig við gerum þetta er undir okkur komið. Þetta getur verið einfalt skref eins og tíu mínútna hugleiðsla á kvöldin eða að fara í ræktina nokkrum sinnum í viku eða þá í stutta helgarferð.“

Renshall gefur foreldrum ráð til að kljást við samviskubitið:

Byrjaðu rólega

Byrjaðu á að fá pössun eitt kvöld í viku og farðu út að borða. Byggðu smátt og smátt upp aukna ábyrgð og fáðu þann sem passar til að svæfa börnin. Ef það gengur vel má skoða næturpössun.

Hafðu opinn hug

Stundum eru vissir hlutir auðveldari fyrir þann sem passar en fyrir þig. Kannski gengur barnapíunni miklu betur að mata og svæfa en þér hefur nokkurn tímann gengið. Ekki hafa samviskubit. Sá sem passar gerir það af fúsum og frjálsum vilja og vill hjálpa þér. 

Aðskilnaður er í lagi

Tengsl okkar við börnin eru síður en svo brothætt. Börn geta vel verið án foreldra sinna í stuttan tíma. Mannkynið hefur þróast þannig að margir koma að uppeldi barnanna. 

Talaðu við barnið

Það er best að undirbúa barnið vel og segja þeim hver sé að fara að passa og að þú hringir reglulega og að þú komir aftur heim. Vertu örugg þegar þú ferð því ef þú lætur í ljós áhyggjur þá gæti það vakið upp kvíða og óöryggi hjá barninu í garð þess sem passar það. 

mbl.is