„Dóttir mín spyr aðrar konur hvort hún megi kalla þær mömmu“

Leikkonan Hayden Panettiere hefur áhyggjur af dóttur sinni sem er …
Leikkonan Hayden Panettiere hefur áhyggjur af dóttur sinni sem er búsett í Úkraínu ásamt föður sínum. AFP

Leikkonan Hayden Panettiere segist hafa áhyggjur af mögulegum áföllum sem dóttir hennar, Kaya, hafi orðið fyrir vegna forræðisdeila sem leiddu til þess að hún býr fjarri móður sinni. Panettiere kom fram í spjallþættinum Red Table Talk, en þar sagðist hún hafa tekið eftir áfallaviðbrögðum hjá dóttur sinni. 

Faðir Kayu og fyrrverandi kærasti Panettiere, Wladimir Klitschko er með fullt forræði yfir Kayu. Panettiere segist oft velta fyrir sér þeim tilfinningalegu áhrifum sem Kaya verður fyrir þar sem hún býr fjarri móður sinni, í Úkraínu með föður sínum. 

Hefur áhyggjur af framtíðinni

Kaya var þriggja ára gömul þegar hún fór að búa hjá pabba sínum. „Ég man eftir því að pabbi hennar hringdi í mig og sagði mér að Kaya færi endurtekið upp að öðrum konum og spurði hvort hún mætti kalla þær mömmu. Ég missti andann og hjartað mitt stoppaði, en hann hló. Honum fannst þetta fyndið en mér fannst þetta hræðilegt,“ sagði Panettiere. 

Panettiere segist hafa verulegar áhyggjur af því hvernig Kaya muni takast á við áföllin í framtíðinni og segir þau geta breyst í reiði, þunglyndi eða sorg. 

Ósátt við forræðisákvörðunina

„Ég ætlaði að vinna í sjálfri mér, ég ætlaði að verða betri og þegar ég yrði betri þá hélt ég að hlutirnir myndu breytast og dóttir mín gæti komið til mín, en það gerðist ekki,“ sagði leikkonan, en líf hennar hefur verið stormasamt síðustu ár þar sem hún hefur glímt við áfengis- og vímuefnavanda og orðið fyrir hræðilegu heimilisofbeldi.

mbl.is