Milla opnar sig um fæðingarþunglyndi

Milla Ósk Magnúsdóttir segir fyrsta hálfa árið eftir fæðingu hafa …
Milla Ósk Magnúsdóttir segir fyrsta hálfa árið eftir fæðingu hafa verið ótrúlega erfitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, segir fyrsta hálfa árið í lífi sonar hennar og Einars Þorsteinssonar, formanns borgarráðs, hafa verið átakanlega erfitt. Hún segir það aldrei hafa hvarflað að henni hversu erfiðir mánuðirnir eftir fæðingu gætu orðið. 

Milla opnaði sig í færslu á Facebook í vikunni og gaf mbl.is góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna. 

„Daginn sem við fengum húsið okkar afhent greindist ég með meðgöngueitrun og var sett af stað þremur vikum fyrir tímann. Í kjölfarið kom í ljós hjartabilun hjá mér og vökvasöfnun á lungu og önnur líffæri. Svo til að kóróna allt þá fékk ég nýrnasteinakast ofan í þetta sem kom hressilega á óvart. Af fyrstu 10 dögum Emils eyddum við því 7 dögum og nóttum á spítalanum. Endalausar mælingar, blóðprufur, þvagleggir, línurit, myndatökur, ómanir og speglanir, lyf, grátur, hræðsla og bugun,“ skrifar Milla. 

Fljótlega eftir það kom svo í ljós að Emil litli var kveisubarn, með bakflæði, vara- og tunguhaft og líklegast mjólkuróþol. 

„Við þökkuðum fyrir það á hverjum degi að hann væri ekki alvarlega veikur, en vanlíðanin hjá honum var óskaplega mikil. Hann grét stanslaust, vildi hvorki vera í vagni, kerru né bílstól, vildi ekkert nema vera í fanginu á okkur og á hreyfingu. Ég notaði yoga boltann svo mikið að hann sprakk undan okkur,“ segir Milla. 

Hittu tíu lækna

Milla og Einar gengu á milli lækna og fóru með hann í allar mögulegar skoðanir og rannsóknir, auk þess sem þau prófuðu öll húsráð og allt það sem hægt var að prófa. Alls hittu þau tíu lækna. Einu svörin sem fengust voru að þetta myndist eldast af honum. 

„Í allt sumar beið ég eftir að hann hætti að gráta. Líkamlega heilsa mín var sem betur fer á uppleið, en andlega heilsan á húrrandi niðurleið. Aldrei var ég jafn örvæntingarfull eða einmana og þegar ég sá nýbakaðar mömmur á samfélagsmiðlum fara með vagnana sína í göngutúra, eða niðrí bæ á kaffihús. Sumar fóru meira að segja í fjallgöngur. MEÐ barnið!
En ég? Ég var föst heima, að borða Maryland kex á milli grátkasta okkar mæðgina, með brjóstapumpu áfasta við mig að reyna að viðhalda mjólkurframleiðslu. Sem gekk svo auðvitað ekki, með tilheyrandi samviskubiti,“ segir Milla.

Milla Ósk er gift Einari Þorsteinssyni, en myndin er tekin …
Milla Ósk er gift Einari Þorsteinssyni, en myndin er tekin á kjördag nú í vor. Einar er formaður borgarráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hann er auðvitað besta barn“

Milla segir að læknarnir hafi svo á endanum haft rétt fyrir sér og kveisan sé að rjáltast af honum. „Hann er auðvitað besta barn. Oft á dag hugsa ég til baka og þakka í huganum hverjum og einum þeirra sem hlustuðu á okkur, og hughreystu. Mig langar á hverjum degi að senda ljósmæðrum okkar blóm. Á fæðingar og sængurlegudeild hlýtur að vera samansafn af okkar besta og hlýjasta fólki. Og það sama gildir með hjartadeild, þar sem starfar svo magnað fólk,“ segir Milla og kann líka brjóstagjafaráðgjafanum, ungbarnaverndinni, heilsugæslunni og sálfræðingum sem gripu hana bestu þakkir. 

Milla segir það hafa verið erfitt að opna sig um reynslu síðustu mánaða og segist aldrei hafa búist við því að gera það. 

„Mér finnst erfitt að viðurkenna að fæðingarþunglyndi og kvíði hafi orðið hluti af mínu lífi. Ég hef hins vegar of oft bölvað því að enginn tali um þessar hliðar móðurhlutverksins til þess að segja ekki neitt sjálf. Við verðum að geta talað um þessa hluti og þannig hjálpast að,“ segir Milla. 

Hún segir mikla pressu vera á foreldrum ungbarna í dag, pressa að gefa brjóst, að horfa í augun á þeim með þau á brjósti, svefnþjálfa þau, gufusjóða allan mat, láta þau borða sjálf, eiga flottustu vagnana, dótið og fötin. 

„Við öll, og sérstaklega mæður, verðum að hætta að bera okkur saman við aðra.
Allar meðgöngur og fæðingar eru einstakar. Fæðingarorlof eru það líka. Og þetta ferli er líklega aldrei dans á rósum,“ segir Milla.

mbl.is