„Þetta var síðasta fæðingin mín“

Elísabet Gunnarsdóttir og Gunnar Steinn Jónsson.
Elísabet Gunnarsdóttir og Gunnar Steinn Jónsson. mbl.is/Stella Andrea

Elísabet Gunnarsdóttir, bloggari á Trendnet, segir sína þriðju fæðingu hafa verið mjög frábrugðna hinum tveimur. Elísabet og eiginmaður hennar, handboltamaðurinn Gunnar Steinn Jónsson, eignuðust sitt þriðja barn, litla stúlku, hinn 5. október síðastliðinn.

Elísabet segir stúlkuna litlu hafa komið með hraði í heiminn, hún hafi rétt náð á spítalann áður en hún skaust í heiminn. „Ég á tvær fæðingasögur á undan þessari sem báðar voru langar, erfiðar og átakanlegar. Ég hef því verið að grínast með það á meðgöngunni að ég sé ekkert voðalega góð að eignast börn – en hver er það svo sem? Auðvitað á maður kannski ekki að tala svona enda sagt með brosi á vör. Allar konur eru góðar að eignast börn, sama hvernig þau komast í þennan stóra heim,“ skrifar Elísabet í bloggfærslu á Trendnet í gær. 

Hún segist ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa þrjár fæðingar á ævinni. 

„Að þriðja fæðing hafi verið svona frábrugðin hinum tveimur setti svo fallegan punkt aftan við þetta hlutverk í mínu lífi. Þetta var síðasta fæðingin mín og að fá nýja mynd á þá mögnuðu stund er svo gefandi og gaman,“ segir Elísabet og segist bera mikla virðingu fyrir öðrum konum sem ganga í gegnum þessa athöfn. 

Hún kann líka ljósmæðrum bestu þakkir fyrir allt, allar þær sem komu að öllum þremur fæðingunum. Elísabet fer líka fögrum orðum um manninn sinn og segist ekki hafa getað gert þetta án hans. 

„ Ég bæti þá kannski við að ég gæti ekki heldur gert þetta án makans mér við hlið, þó þeir geri „ekkert” eins og margir vilja meina, þá gerir Gunni allt í minni upplifun, þó það sé bara að halda í höndina á mér,“ skrifar Elísabet og vísar einmitt í viðtal við Gunnar á barnavef mbl.is fyrr á þessu ári.

mbl.is