„Ég var í raun að kynnast líkamanum upp á nýtt“

Aldís Gunnarsdóttir og sonur hennar, Ægir Sölvason.
Aldís Gunnarsdóttir og sonur hennar, Ægir Sölvason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmir átta mánuðir eru liðnir frá því þjálfarinn Aldís Gunnarsdóttir tók á móti sínu fyrsta barni með kærasta sínum, Sölva Baldurssyni. Síðan þá hefur Aldís verið að kynnast líkama sínum á ný, en hún segir hreyfingu hafa hjálpað sér gríðarlega jafnt líkamlega sem andlega á meðgöngunni og eftir fæðingu.

Aldís starfar sem hóp- og einkaþjálfari hjá Hreyfingu heilsulind og hefur alla tíð haft mikla ástríðu fyrir hreyfingu, en hún er með bakgrunn úr ballett, hlaupum og fótbolta. Við fengum að skyggnast inn í líf Aldísar sem sagði okkur meðal annars frá meðgöngu og fæðingu sonar síns, æfingaferlinu á meðgöngu og eftir fæðingu ásamt því að gefa góð ráð fyrir verðandi og nýbakaðar mæður. 

Aldís er með BS-gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík, en þar að auki er hún með diplómu í klassískum ballett frá Listdansskóla Íslands og pílates-kennararéttindi. Aldís byrjaði að æfa ballett þegar hún var sex ára gömul og stundaði hann í tæp 15 ár. „Ég hafði alltaf mikinn metnað fyrir skólaíþróttum þegar ég var yngri og lagði mig alltaf alla fram þar. Samhliða ballettinum æfði ég einnig fótbolta í tæplega fjögur ár og hef stundað langhlaup frá því ég var 14 ára gömul,“ segir Aldís. 

Ægir skemmtir sér vel með mömmu sinni í ræktinni.
Ægir skemmtir sér vel með mömmu sinni í ræktinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna eru æfingarnar mínar mjög fjölbreyttar. Ég hleyp, lyfti lóðum, stunda mjúka tíma og margt fleira. Ég prófaði ketilbjöllur í fyrsta skipti rétt eftir menntaskóla og féll algjörlega fyrir þeim, en ég nota ketilbjöllur mikið bæði í minni hreyfingu og þjálfun,“ segir Aldís. 

Þurfti að hætta að hlaupa á meðgöngunni

Sonur Aldísar, Ægir, fæddist í febrúar síðastliðnum. Hún segir meðgönguna heilt yfir hafa gengið afar vel. „Mér leið vel á meðgöngunni og fannst ég geta gert nánast allt sem ég gerði áður. Ég þurfti að sjálfsögðu að breyta nokkrum æfingum hjá mér, einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki sama jafnvægi og áður. Þrátt fyrir það tókst mér alltaf að vinna á öllum vöðvahópum og halda mér sterkri,“ útskýrir Aldís.

„Það eina sem ég hætti að stunda á meðgöngunni voru hlaupin, en ég hætti að hlaupa þegar ég var komin 20 vikur á leið. Ég gerði það vegna þess að sonur minn sat nánast á lífbeininu  og ollu hlaupin því að það myndaðist óþægilegur þrýstingur þar,“ bætir hún við. 

Aldís náði að æfa fram að síðustu viku fyrir fæðingu, en hún segir æfingarnar þó hafa orðið ansi rólegar undir lok meðgöngunnar. „Ég fann bara að mér leið mun betur þegar ég hreyfði mig örlítið.“

„Það erfiðasta og magnaðasta sem ég hef gert“

Morguninn 21. febrúar kom sonur Aldísar í heiminn á Landspítalanum. „Fæðingin gekk vel og ég fékk þrjár frábærar ljósmæður á spítalanum. Ægir fæddist eðlilega, með engum stórvægilegum vandkvæðum, en hann var að vísu klukkutíma að koma sér út. Eftir að ég byrjaði að rembast hélt ég að hann myndi einfaldlega ekki koma út,“ segir Aldís og hlær. „Þetta er án efa það erfiðasta og magnaðasta sem ég hef gert.“

Þremur vikum eftir fæðinguna byrjaði Aldís að æfa aftur. „Ég fór rólega af stað og hlustaði á líkamann, en til að byrja með æfði ég einungis tvisvar í viku til þess að sjá í hvaða standi líkami minn var. Ég var í raun að kynnast líkamanum upp á nýtt og komast að því hvað hann gæti,“ segir Aldís. 

Stiginn krefjandi til að byrja með

„Ég lyfti léttum lóðum, gerði æfingar með eigin líkamsþyngd og gekk upp og niður stiga. Það er ótrúlegt hvað stiginn var erfiður til að byrja með, en með honum náði ég að fá púlsinn örlítið upp án þess að setja of mikið álag á mjaðmagrindina,“ segir Aldís. 

„Bæði mjaðmagrindin og grindarbotninn eru mjög viðkvæm eftir meðgöngu og því þarf að fara varlega í æfingum. Til að byrja með gerði Aldís engar æfingar á annarri hendi eða öðrum fæti til að hlífa mjaðmasvæðinu eftir álagið á meðgöngunni. 

Aldís segir það vera afar mikilvægt að fara varlega af …
Aldís segir það vera afar mikilvægt að fara varlega af stað í æfingum eftir meðgöngu, en hún hefur passað sérstaklega vel upp á bæði mjaðmagrindina og grindarbotninn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Missti mestan styrk úr rassvöðvunum

Aldís segir það vera mikilvægt að byggja upp styrkinn hægt og rólega eftir fæðingu og bíða með allar jafnvægisæfingar. „Það sem kom mér mest á óvart eftir meðgönguna var hversu mikinn styrk ég missti úr rassvöðvunum, en eftir meðgönguna hef ég lagt mun meiri áherslu á styrktaræfingar en ég gerði áður. Ég byrjaði ekki að hlaupa og hoppa fyrr en 13 vikum eftir fæðingu og geri ekki mikið af því,“ segir hún. 

„Hlaupin hjá mér eru frekar hæg og þægileg, en ég hleyp yfirleitt með vagninn og nýti þá hlaupin í útiveru með syni mínum frekar en að ætla mér að taka einhverja stífa hlaupaæfingu. Núna, rúmum átta mánuðum eftir fæðingu, er ég farin að æfa fjórum til sex sinnum í viku,“ segir Aldís. 

Aðspurð segir Aldís lífið sannarlega hafa breyst eftir að hún varð mamma. „Áður fyrr hafði ég allan tíma fyrir sjálfa mig og bæði vann og æfði mjög mikið. Núna þarf ég að forgangsraða og skipuleggja tímann minn mun betur til þess að ná að klára allt sem ég ætla að klára. Ég er mjög virk manneskja og mér líður best þegar ég hef nóg að gera,“ segir Aldís. 

Gott hugarfar lykilatriði

Aldísi þykir afar mikilvægt að hugarfar gagnvart hreyfingu sé gott og heilbrigt. „Það koma alveg dagar þar sem mig langar að fara á æfingu en það tekst ekki. Þá reyni ég að minnsta kosti að fara í léttan göngutúr með son minn og minni sjálfa mig á að það er oft alveg nóg,“ segir hún. 

„Það er líka afar mikilvægt að mæður hlúi vel að sér eftir fæðingu og setji ekki of miklar kröfur á sig. Meðganga og fæðing hefur gríðarleg áhrif á hormónin hjá konum og því er ekkert óeðlilegt að finna fyrir einhvers konar vanlíðan eftir fæðingu. Allar konur geta upplifað kvíða, áhyggjur og þunglyndi eftir fæðingu,“ útskýrir Aldís. 

„Fyrstu þrjár vikurnar eftir fæðingu sonar míns kom fyrir að ég fór allt í einu að gráta án þess að vita af hverju. Á því augnabliki fannst mér best að tala um það og þá var ómetanlegt að hafa kærastann minn hjá mér til að hugga mig og hughreysta,“ bætir hún við. 

Brjóstagjöfin reyndist erfið og flókin

Það kom Aldísi verulega á óvart þegar brjóstagjöfin reyndist henni bæði erfið og flókin. „Fyrir fæðingu þá hélt ég að barnið myndi einfaldlega fara á brjóstið og þetta væri ekkert mál. Brjóstagjöfin gekk hins vegar erfiðlega til að byrja með. Ég fékk sár og verki í geirvörturnar og fékk hita í kjölfarið, en eftir þessa reynslu þá sé ég eftir því að hafa ekki sótt brjóstagjafanámskeið fyrir fæðingu. Ég myndi hiklaust mæla með því fyrir allar verðandi mæður,“ segir Aldís. 

Þegar kemur að uppeldinu segist Aldís leggja áherslu á að vera þolinmóð gagnvart syni sínum og sýna honum gott fordæmi. „Hann er enn bara átta mánaða gamall og ég mun eflaust þurfa að takast á við alls konar áskoranir þegar hann verður eldri, en ég vil fyrst og fremst vera góð fyrirmynd fyrir hann og vera til staðar þegar hann þarf, án þess þó að taka stjórnina af honum. Ég tel það vera best að hafa ákveðnar reglur en vera sanngjörn,“ útskýrir Aldís. 

Hreyfing sé til bóta á meðgöngu

Aldís mælir hiklaust með hreyfingu ef meðgangan er eðlileg og án vandkvæða. „Hreyfing gerir konunni og barninu svo gott. Meðgangan setur aukið álag á líkamann og því getur hreyfing hjálpað við að minnka verki og draga úr bólgum svo eitthvað sé nefnt. Þar að auki gefur hreyfing okkur orku og bætir svefn. Hreyfing getur búið konuna betur undir meðgönguna og fæðinguna og getur haft svo mikil áhrif á líðan bæði í og eftir fæðingu,“ segir Aldís. 

„Það er aldrei of seint að byrja. Ef konan er byrjandi og vill hreyfa sig á meðgöngunni er mikilvægt að fara rólega af stað og leita sér aðstoðar hjá fagfólki,“ segir Aldís og bætir við að hún hafi nýverið farið af stað með mömmuþrek í hreyfingu fyrir áhugasama. 

mbl.is