Prótínrík málning slær í gegn

Ljósmynd/Pexels/Vlada Karpovich

Það getur reynt á hugmyndaflugið að finna upp á skemmtilegum hlutum sem halda börnunum uppteknum heima við. Breski bloggarinn Neha, sem kallar sig snarl drottninguna á Instagram, deildi nýlega skemmtilegri uppskrift að málningu sem börnin mega borða. 

Að mála er góð skemmtun fyrir börn á öllum aldri. Ef þú átt ekki málningu heima, eða ef þú ert með ungt barn sem vill smakka á málningunni þá er þessi uppskrift tilvalin fyrir þig. Það besta við uppskriftina er að þú þarft aðeins tvö hráefni og flestir eiga þessi hráefni heima hjá sér. 

Það sem þú þarft er jógúrt að eigin vali og matarlitir, en Neha segist nota gríska jógúrt þar sem það gefur málningunni þykkari áferð. 

Einföld aðferð

Neha notar muffinsform og byrjar á því að setja nokkrar matskeiðar af grísku jógúrti í hvert form. Því næst bætir hún nokkrum dropum af matarlit í hvern hluta og blandar vel saman. Útkoman er prótínrík málning sem er fullkomlega æt. 

„Við gerðum þetta í dag og sonur minn skemmti sér vel. Hann endaði með því að mála fingur sína sem var svo auðvelt að þvo í burtu. Það frábæra við þetta er að ef yngri krakkar ákveða að sleikja málninguna þá er hún alveg æt,“ skrifaði Neha undir myndskeiðið. 

Uppskriftina er einnig hægt að nota til að gera matartímann skemmtilegri hjá yngstu börnunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert