Kristín Lilja sat fyrir hjá Zöru með syni sínum

Kristín Lilja Sigurðardóttir ásamt syni sínum í sumar.
Kristín Lilja Sigurðardóttir ásamt syni sínum í sumar. Skjáskot/Instagram

Fyrirsætan Kristín Lilja Sigurðardóttir sat nýverið fyrir hjá tískurisanum Zöru með syni sínum, Andra Heiðari Ágústssyni. Myndirnar voru teknar hér á Íslandi af ljósmyndaranum Ina Lekiewicz Levy, en Kristín deildi nýverið nokkrum fallegum myndum úr tökunni með fylgjendum sínum á Instagram. 

„Takk Zara svo mikið fyrir að fá mig, Andra og Maríu í þessa myndatöku,“ skrifaði Kristín við myndaröðina. 

Andri er fyrsta barn Kristínar, en hann kom í heiminn 22. febrúar síðastliðinn og hefur þegar hafið fyrirsætuferil sinn, enda á hann ekki langt að sækja fyrirsætuhæfileikana. 

Sat fyrir með Kendall Jenner

Kristín hefur verið að gera frábæra hluti í fyrirsætuheiminum, en árið 2018 sat hún fyrir með stórstjörnunni Kendall Jenner í London og ári seinna gekk hún á tískupalli franska tískuhússins Kenzo. Þá hefur hún einnig gengið á tískupöllum fyrir Dior og setið fyrir í herferð tískurisans Bottega Venta svo eitthvað sé nefnt. 

mbl.is