Hundleiddist eftirlaunaaldurinn og lét gamlan draum rætast

Hrafnhildur Hreinsdóttir ákvað að láta gamlan draum um að gefa …
Hrafnhildur Hreinsdóttir ákvað að láta gamlan draum um að gefa út bók rætast á árinu og hefur gefið út tvær bækur og fjórar í viðbót eru í farvatninu.

Þegar Hrafnhildur Hreinsdóttir komst á eftirlaunaaldur komst hún að því að henni fannst hundleiðinlegt að hafa ekki nóg fyrir stafni. Hún ákvað því að láta gamlan draum rætast um að fara skrifa bækur. Hún stofnaði bókaútgáfuna Gimbill bókasmiðja slf. utan um bækur sínar og er búin að gefa út tvær barnabækur á árinu um stelpuna Glingló sem fer í pössun til ömmu sinnar. 

Hrafnhildur á sjálf sex barnabörn og hefur lesið fyrir þau öll og sagt þeim sögur í gegnum tíðina. Hún ákvað því að byrja á að skrifa barnabækur í stað þess að draga eitthvað gamalt upp úr „skáldaskúffunni“ eins og hún orðar það.

„Ég stóð á tímamótum í vor því ég hætti að vinna og fór að taka út lífeyrinn minn og svo uppgötvaði ég að mér hundleiddist að hafa ekki nóg fyrir stafni og fór að hugsa um þennan draum minn að skrifa bók,“ segir Hrafnhildur. Hún segir nokkrar ástæður fyrir því að hún hafi ákveðið að skrifa bækur. Hún á gott með að skrifa texta og nýjar hugmyndir skjóta upp kollinum á hverjum degi. 

„Ég hef alveg frá því að ég varð fertug haft mikla þörf fyrir að skipuleggja líf mitt svo ég missi ekki af neinu skemmtilegu. Meðal annars þá á ég mér svona fötulista (e.bucket list) með ýmsu sem ég vil gera áður en ég verð of gömul. Á honum eru 10 atriði – sum eru ennþá í vinnslu en meðal þeirra sem ég hef hakað við er nr. 5 „Að sjá bók eftir mig á prenti“.“

Skrifar um hjátrú

„Svo þegar hugmyndin um efnið fæddist og ég var búin að leggja grunn að persónunum þeim Gling Gló, Óbó og ömmunni þá var bara ekki til baka snúið. Á rúmum mánuði var ég búin að skrifa frumdrög að 6 bókum, en það skal tekið fram að textinn er ekki svo mikill í hverri bók – því ég miðaði við að það tæki ekki nema 10 mínútur að lesa sögurnar fyrir börnin. Hæfileg lengd fyrir svefninn,“ segir Hrafnhildur.

Út eru komnar bækurnar um Glingló og spegilinn og Glingló og regnhlífina. Í bókum sínum skrifar Hrafnhildur um hinar ýmsu hjátrúr en hugmyndin kom til hennar í vor þegar hún var að passa litla dömu sem datt og meiddi sig á fingri. 

Bækurnar hafa fengið góðar viðtökur.
Bækurnar hafa fengið góðar viðtökur.

„Ég setti plástur á sárið, kyssti á bágtið og sagði svo umhugsunarlaust: „Þetta grær áður en þú giftir þig.“ Sú stutta horfði undrandi á mig þar sem það hafði aldrei hvarflað að henni að giftast. Þá fór ég að hugsa um það hversu oft ég notaði einhvers konar hjátrú í samskiptum við börnin og komst að því að ég gerði það bara nokkuð oft án þess að gera mér grein fyrir því og þannig fæddist þessi hugmynd. Fyrsta bókin er Gling Gló og spegillinn sem fjallar um það að spegill brotnar og amma segir að það þýði sjö ára ógæfu. Bók númer tvö er Gling Gló og regnhlífin sem er um það þegar regnhlíf spennist upp inni í húsi sem boðar eitthvað hræðilegt segir amma, jafnvel andlát.“

Þegar fyrsta bókin var tilbúin sá Hrafnhildur að þetta væri upplagt efni í bókaflokk og fór að skoða ýmislegt sem hún fann um hjátrú. „Ásamt því að hugsa til baka frá því að ég var sjálf að alast upp. Sumt í bókunum byggist á minningum úr æsku en annað sprettur bara fram þegar ég skrifa. En ég hef mjög gaman að þessu og skemmtilegast er að sjá hvað börnin taka þessu efni vel. Þá þekkir flest fullorðið fólk hjátrúna og getur samsamað sig við ömmuna hvað það varðar,“ segir Hrafnhildur. 

Vildi gefa út fyrir jól

Bækurnar fæddust á lyklaborðinu hjá Hrafnhildi og þá var ekkert annað en að gera en að huga að útgáfu. Það var í byrjun júní en þá komst Hrafnhildur að því að það var of seint að leita til þeirra með það í huga að bækurnar kæmu út fyrir jólin. 

„Ég sá engan sem var tilbúinn að taka að sér nýtt efni þegar svo stuttur tími var fram að “jólabókavertíðinni” og ákvað því að gefa þetta út sjálf svo þær kæmu í sölu fyrir jólin. Svo eins og ég sagði áður þá var ég hætt að vinna og hélt því að ég gæti allt eins notað tímann og reynslu í atvinnulífinu til að gera þetta sjálf,“ segir Hrafnhildur. 

Hún segist viðurkenna að þetta sé meiri vinnna en hún átti von á og margir þræðir sem þarf að spinna saman. Svo vill hún líka gera hlutina vel og taka verkefnið alla leið. Báðar bækurnar eru nú aðgengilegar sem hljóðbækur á Storytel, Spotify og YouTube. 

Stefnt er að útgáfu bókanna á ensku líka.
Stefnt er að útgáfu bókanna á ensku líka.

Hrafnhildur segir bækurnar hafa fengið góðar viðtökur og þær fengið góðar umsangnir. „Bækurnar eru í sölu hjá Pennanum Eymundsson og Forlaginu og ég hef verið að fylla á eftir því sem birgðir í búðunum hafa minnkað. Ég hef reynt að koma bókunum á framfæri við stórverslanirnar en þeir vilja bara taka inn stóru forlögin, hitt er of mikil vinna að halda utan um birgðirnar, “ segir Hrafnhildur. 

Bækurnar munu sömuleiðis koma út á ensku og eru væntanlegar á Amazon seinna í þessum mánuði. Spurð um framhaldið segir Hrafnhildur að tvær bækur komi út á næsta ári.

„Gling Gló og blettinn sem fjallar um það þegar Gling Gló skrökvar að ömmu og Gling Gló og kisa er svo næst í röðinni en þar hleypur svartur köttur þvert fyrir þau þegar þau fara í göngutúr með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Svo eru tvær síðustu bækurnar um töluna þrettán og stigann áætlaðar árið 2024.“

mbl.is