Upplifðu ævintýralegan desembermánuð

Samsett mynd

Nú þegar desembermánuður er genginn í garð er gott að staldra við og minna sig á hvað skiptir okkur í raun og veru máli þegar öllu er á botninn hvolft. Í öllum hraðanum og spennunni sem einkennir samfélag okkar í dag er mikilvægt að við gleymum því ekki að njóta samverustunda með fólkinu okkar, en í desember er einmitt mikið framboð af skemmtilegri afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. 

Það er því algjör óþarfi að vera hugmyndasnauður í desember, en barnavefurinn tók saman nokkrar skemmtilegar hugmyndir sem gætu glatt lítil sem stór hjörtu yfir hátíðirnar. 

Skreyta saman

Þegar jólaskrautið fær loksins að fara upp færist mikill gleðisvipur yfir landann, enda lýsa jólaljósin upp myrkustu mánuðina og gera þá bærilegri. Það er skemmtileg fjölskyldustund að gera sér ferð saman og ná í jólatré og skreyta það svo hátt og lágt með fallegu jólaskrauti.

Ljósmynd/Pexels/Cottonbro Studio

Útivera

Náttúran er fyrirtaks leikvöllur fyrir fólk á öllum aldri, en í desember er tilvalið að skella sér út og fara á vélsleða, skíði, búa til snjókarl eða fara í göngutúr og skoða jólaljósin í hverfinu. Þá þykir börnum einnig mikið sport að fá að fara í göngutúr í myrkrinu með vasaljós. 

Skautasvellið á Ingólfstorgi hefur verið sett upp, en þar er mikil jólastemning fram að áramótum og skemmtileg afþreying í boði. Í desember verða líka opnaðir ýmsir jólamarkaðir sem gaman er að kíkja á með börnin. 

Ljósmynd/Pexels/Cottonbro Studio

Jólaföndur

Það er mikil skemmtun að setjast niður saman og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín í jólaföndri. Í föndri eru endalausir möguleikar, en dæmi um jólaföndur er til dæmis að mála köngla, búa til jólakort, búa til jólaskraut úr trölladeigi, lita jólamyndir, perla og föndra jólagjafir svo eitthvað sé nefnt. 

Jólaferð á bókasafnið 

Bókasöfn landsins breytast í töfrandi jólaheim fyrir börnin í desember, en á mörgum stöðum er skemmtileg dagskrá í boði. Á Borgarbókasafninu verður til dæmis boðið upp á barnabókaball, föndurstundir og samsöng svo eitthvað sé nefnt. 

Ljósmynd/Pexels/Марина Вотинцева

Baka og skreyta piparkökur

Piparkökur eru ómissandi hluti af jólunum að mati margra, en það að skreyta piparkökur og piparkökuhús er mikil skemmtun og gæðasamverustund fyrir alla fjölskylduna. Þá er einnig gaman að baka saman jólasmákökur og ómissandi að útbúa alvöru heitt kakó með rjóma. 

Ljósmynd/Pexels/Cottonbro Studio
mbl.is