Spennt að stofna fjölskyldu

Paris Hilton og maðurinn hennar Carter Milliken Reum.
Paris Hilton og maðurinn hennar Carter Milliken Reum. AFP

Hótelerfinginn Paris Hilton undirbýr sig nú undir að stofna fjölskyldu með eiginmanni sínum, Carter Reum, á næsta ári. Hilton hóf glasafrjóvgunarferli í janúar 2021 og fór þá í eggheimtu og segir þau því vera með „egg tilbúin á lager“ fyrir framhaldið. 

Hilton og Reum gengu í það heilaga hinn 11. nóvember 2021 við hátíðlega athöfn, en þau byrjuðu saman í nóvember árið 2019. 

Vildu njóta fyrsta ársins tvö saman

„Við vissum að við vildum stofna fjölskyldu og ákváðum því að hafa egg tilbúin á lager,“ sagði Hilton í samtali við People og bætir við að þau hafi viljað njóta fyrsta ársins sem hjón tvö saman. 

Nýverið fögnuðu þau eins árs brúðkaupsafmæli sínu í sólinni á Maldíveyjum og segir Hilton þau því vera tilbúin að stækka fjölskylduna á næsta ári. 

Langar að eignast tvíbura

Frá upphafi sambands hjónanna hefur Hilton talað opinskátt um barneignir, en í apríl síðastliðnum sagðist hún vonast til að þau myndu eignast tvíbura saman. „Mig langar í strák og stelpu, bara til að fá bæði, en hvað sem er getur gerst. En ég myndi elska það, eða tvíburastelpur því ég elska stelpur,“ sagði Hilton í hlaðvarpinu The Bellas. 

mbl.is