„Ég gjörsamlega missti allan mátt í líkamanum og brast í grát“

Sigurður Darri Rafnsson og sonur hans, Kristján Júní Sigurðsson.
Sigurður Darri Rafnsson og sonur hans, Kristján Júní Sigurðsson.

Þjálfarinn Sigurður Darri Rafnsson hefur í starfi sínu orðið vitni af ýmsum afrekum og þrekvirkjum íþróttafólks, en hann segir þó ekkert komast nálægt upplifuninni þegar unnusta hans, Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, fæddi son þeirra sumarið 2021. 

Sigurður starfar sem þjálfari í WorldFit þar sem hann þjálfar styrk og þol. Samhliða því er hann í kvöldskóla að læra húsasmíði í Tækniskólanum. Það er því nóg um að vera hjá honum, en við fengum að skyggnast inn í fjölskyldulíf Sigurðar sem sagði okkur meðal annars frá upplifun sinni af því að vera á hliðarlínunni í fæðingu sonar síns, Kristjáni Júní, á einlægan máta. 

Svanhildur er ljósmyndari og sérlega lagin við að festa fallegar …
Svanhildur er ljósmyndari og sérlega lagin við að festa fallegar stundir á filmu.

Biðin erfiðari með hverjum deginum sem leið

Um leið og Sigurður komst að því að hann væri að verða faðir segist hann strax hafa fundið fyrir ákveðnum breytingum hjá sjálfum sér. „Þá byrjaði svakaleg sjálfsskoðun hjá mér, pælingar um mitt eigið uppeldi og miklar pælingar um heiminn allan,“ útskýrir Sigurður. 

Aðspurður segir Sigurður upplifunina að vera á hliðarlínunni í fæðingu sonar síns nánast ólýsandi. Svanhildur gekk með son þeirra í 42 vikur, en á lokametrunum segir Sigurður biðina hafa orðið erfiðari með hverjum deginum sem leið. „Það eina sem ég gat gert síðustu tvær vikurnar á hliðarlínunni var að vera fullkomlega til staðar og nota öll trixin sem ég lærði á paranámskeiði hjá Jógasetrinu, sem var ótrúlega hjálplegt,“ segir Sigurður. 

Fjölskyldan í góðum gír á eins árs afmæli Kristjáns.
Fjölskyldan í góðum gír á eins árs afmæli Kristjáns.

„Þetta var virkilega hæg fæðing vegna þess að Kristján skorðaði sig ekki rétt sem gerði allt mun erfiðara. Í þokkabót vó hann fimm kíló þegar hann fæddist, sem eru 20 merkur. Það tók gífurlegan tíma að komast í fulla útvíkkun og það var mjög erfitt að fylgjast með Svanhildi fara í gegnum sársaukafullar hríðar aftur og aftur án þess að fæðingin væri að komast lengra,“ bætir hann við. 

„Sem þjálfari hef ég mikinn áhuga á afrekum íþróttafólks og hef orðið vitni að ýmsum þrekvirkjum, en þetta var það ótrúlegasta sem ég hef á ævi minni séð. Allar fæðingar eru ólíkar og þetta er engin keppni, en að fylgjast með Svanhildi fæða fimm kílóa son okkar var eins og að vera vitni að einhverju sem ætti ekki að vera hægt,“ segir Sigurður.

Kristján kom í heiminn tveimur vikum eftir settan dag, en …
Kristján kom í heiminn tveimur vikum eftir settan dag, en foreldrar hans voru orðnir ansi spenntir og óþolinmóðir á lokametrum meðgöngunnar.

„Þá loksins gat ég sýnt mínar alvöru tilfinningar“

„Ég man að á einum tímapunkti vorum við öll að öskra í fæðingarherberginu, en rétt áður en það átti að fara í frekari inngrip kom Kristján í heiminn. Þá loksins gat ég sýnt mínar alvöru tilfinningar og gjörsamlega missti allan mátt í líkamanum og brast í grát. Það kemst engin lífsreynsla nálægt þessu. Stuðningur ljósmæðranna og að fá að fylgjast með Svanhildi minni fæða nýtt líf í heiminn er það stórkostlegasta í heiminum,“ bætir hann við. 

Sigurður segir lífið sannarlega hafa breyst eftir að hann varð faðir. „Þetta er kannski frekar klassískt en það sem ég finn mest fyrir er að lífið snýst ekki lengur bara um mig sjálfan en núna snýst dagurinn um rútínuna hans. Ákvarðanir sem maður tekur í lífinu eru teknar út frá honum, helgarfrí fara í samverustundir og að safna svefni og krafti fyrir næstu viku,“ útskýrir hann.

„Það kom mér kannski ekki á óvart, en það að …
„Það kom mér kannski ekki á óvart, en það að vera pabbi er best í heiminum.“

Hlutirnir sem eru mest krefjandi líka mest gefandi

Þó Sigurður segi föðurhlutverkið vera það besta í heimi getur það sannarlega verið krefjandi líka. „Það að vera með stanslaust samviskubit hvort maður sé að gefa honum nógu fjölbreyttan mat, hvort hann sé nokkuð að horfa of mikið á sjónvarp, hvort ég sé nógu mikið á staðnum þegar við erum að leika, reyna að fara ekki í símann, vera yfirvegaður og umburðarlyndur þegar hann vaknar á nóttunni eða vill ekki fara að sofa getur verið krefjandi,“ segir Sigurður. 

„En eiginlega allt sem ég nefndi hér að ofan er líka mest gefandi. Matarstundirnar og tilfinningin þegar ég veit að hann er að nærast vel, leikstundirnar, finna fyrir því að hann vilji vera með manni og fá að upplifa heiminn með honum, á næturnar þegar hann grætur og þarf á manni að halda að fá að knúsa hann og kúra þangað til hann nær að sofna aftur,“ bætir Sigurður við. 

Sigurður lýsir föðurhlutverkinu á afar fallegan og einlægan máta.
Sigurður lýsir föðurhlutverkinu á afar fallegan og einlægan máta.

Í uppeldinu leggja Sigurður og Svanhildur áherslu á að skapa umhverfi þar sem Kristján getur leikið sér og lært. „Við reynum að setja hann ekki í aðstæður þar sem við þurfum sífellt að vera að banna honum að gera hluti. Við reynum að mæta honum með umburðarlyndi en erum samt tilbúin að samræma okkur um hvað má og hvað má ekki og að hafa skýran ramma,“ útskýrir Sigurður. 

Framundan segir Sigurður fjölskylduna ætla að halda áfram að finna gott jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. „Við ætlum að halda áfram að búa til rútínu þar sem við náum að vinna fyrir reikningunum en á sama tíma reynum við að ná eins miklum tíma með Kristjáni og hægt er,“ segir Sigurður. Hann bætir við að það sé draumur að prófa að flytja erlendis, en þangað til einblíni þau á að njóta augnabliksins í dag. 

Sigurður segist vera spenntur fyrir framtíðinni með fjölskyldu sinni en …
Sigurður segist vera spenntur fyrir framtíðinni með fjölskyldu sinni en leggur þó áherslu á að njóta augnabliksins í dag.
mbl.is