Upplifði lamandi ótta í upphafi meðgöngunnar

Love Island-stjarnan Shaughna Philips er nú ófrísk af sínu fyrsta …
Love Island-stjarnan Shaughna Philips er nú ófrísk af sínu fyrsta barni. Skjáskot/Instagram

Love Island-stjarnan Shaughna Philips er ófrísk af sínu fyrsta barni með kærasta sínum. Hún opnaði sig nýverið um geðheilsu sína á meðgöngunni, en hún segir fyrstu mánuðina hafa einkennst af miklum kvíða og ótta. 

Philips tók þátt í sjöttu þáttaröð bresku raunveruleikaþáttanna Love Island árið 2020. Eftir rúmar fjórar vikur á ástareyjunni hélt Philips heim á leið, einhleyp. 

Fann ástina eftir Love Island-ævintýrið

Nú virðist Philips þó hafa fundið ástina, en hún kynntist núverandi kærasta og barnsföður sínum í apríl síðastliðnum. Hingað til hefur Philips haldið kærasta sínum fjarri sviðsljósinu. „Það er persónulegt val kærasta míns að vera ekki birtur á samfélagsmiðlum mínum og ég virði það,“ sagði Philips og bætti við að kærasti hennar væri sjálfur ekki á neinum samfélagsmiðlum. 

Philips og kærasti hennar eiga von á barni í mars, en hún segir meðgönguna hafa reynt mikið á andlegu hliðina. Philips segist hafa fundið fyrir magakrampa í byrjun meðgöngunnar, og að lamandi ótti og kvíði hafi tekið yfir. 

„Ég var svo hrædd um að eitthvað slæmt myndi gerast“

„Enginn talar um kvíðann sem þú upplifir þegar þú ert ólétt, en guð minn góður, hann er klikkaður. Ég borgaði fyrir sérstakar auka blóðprufur til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi því ég var svo hrædd um að eitthvað slæmt myndi gerast,“ skrifaði Philips á Instagram-reikning sinn. 

„Ég nánast eyðilagði byrjun meðgöngunnar með því að vera svona kvíðin. Ég held að eitthvað af kvíðanum hjaðni um leið og maður fer að finna fyrir hreyfingum,“ bætti hún við, en hún segist fyrst hafa fundið fyrir hreyfingu á 18. viku. 

Philips segir jákvætt hugarfar hafa hjálpað sér mikið. „Þú verður að treysta því að líkaminn þinn viti hvað hann er að gera, jafnvel þó að þetta sé allt nýtt fyrir þér,“ skrifaði hún.

Philips ræddi opinskátt um kvíða og ótta sem hún upplifði …
Philips ræddi opinskátt um kvíða og ótta sem hún upplifði í byrjun meðgöngunnar á Instagram-reikningi sínum. Skjáskot/Instagram
mbl.is