Ætlar ekki að segja börnunum frá nýja kærastanum

Elizabeth Chambers ásamt börnunum sínum tveimur.
Elizabeth Chambers ásamt börnunum sínum tveimur. Skjáskot/Instagram

Sjónvarpsstjarnan Elizabeth Chambers hefur tekið þá ákvörðun að segja börnunum sínum tveimur ekki frá nýja kærasta sínum, Richards Kazeinic. Hún segist ekki vilja setja aukið álag á börnin sín með slíkum fregnum þar sem þau séu enn að vinna úr erfiðum tilfinningum eftir skilnað foreldra sinna.

Rúm tvö ár eru liðin síðan Chambers sótti um skilnað við þáverandi eiginmann sinn til tíu ára, leikarann Armie Hammer. Saman eiga Chambers og Hammer tvö börn, en skilnaðurinn tók mikið á fjölskylduna þar sem Hammer var sakaður um kynferðisbrot og ofbeldisfull og klámfengin skilaboð. Þá fór Hammer einnig í harða forræðisdeilu.

Hvorki hjálplegt né nauðsynlegt

Aðspurð hvernig börnum hennar komi saman við nýja kærastann sagði Chambers þau hreinlega ekki vita að hann væri kærasti hennar. „Undanfarin tvö og hálft ár hefur aðal forgangsverkefni mitt verið að draga úr áföllum og vernda börnin mín sama hvað það kostar,“ sagði Chambers.

Hún bætti við að henni þætti það hvorki hjálplegt né nauðsynlegt fyrir börnin hennar að hitta Kazinec á meðan þau væru enn að vinna úr erfiðum tilfinningum eftir skilnað foreldra þeirra.

Þó Chambers hafi ekki sagt börnunum sínum frá nýju ástinni opinberaði hún samband þeirra Kazinec á Instagram í september 2022. Þau kynntust á Cayman-eyjum þar sem Chambers hefur búið frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. 

mbl.is