Það sem ekki má á meðgöngu

Það þarf að gæta að ýmsu um leið og kona …
Það þarf að gæta að ýmsu um leið og kona fær jákvætt á óléttuprófi. Ljósmynd/Colourbox

Að mörgu þarf að huga þegar maður er að rækta litla manneskju í líkamanum. Það eru til ótal boð og bönn um hvað má og hvað má ekki á meðgöngunni. Sum ráð eru betri en önnur og það þarf að vega og meta eftir aðstæðum. Hér eru nokkur algengustu ráðin um hvað má ekki gera á meðgöngu.

1. Ekki reykja

Þær sem reykja á meðgöngu eru líklegri til þess að eignast börn sem eru undir eðlilegri fæðingarþyngd. Þá auka reykingar einnig líkur á námsörðugleikum í framtíðinni. Ekki leyfa öðrum að reykja í kringum þig heldur.

2. Ekki drekka áfengi

Áfengi getur haft mjög skaðleg áhrif á fóstrið og þroska þess. Enginn veit hversu lítið þarf til þess að skaða barnið þannig að allir sérfræðingar mæla með að sleppa áfengi algjörlega. Ef það reynist erfitt að hætta að drekka á meðgöngu þá eru fjölmargir til staðar sem geta hjálpað eða veitt ráðgjöf.

3. Ekki borða hrátt kjöt

Hrátt eða lítið eldað kjöt, hrár fiskur og hrá egg geta borið með sér bakteríur sem valdið gætu skaða eða veikindum. Þá skal einnig forðast ógerilsneydda mjólk og osta.

4. Forðastu heita pottinn

Þó að það sé notalegt að liggja í baði eða fara í heita pottinn þá gæti það verið slæmt á meðgöngu. Það að liggja lengi í heitu vatni hækkar líkamshitann og gæti aukið líkur á fæðingargöllum. Sama á við um gufuböð.

5. Ekki drekka mikið kaffi

Koffín getur borist til barnsins í gegnum fylgjuna og valdið hraðari hjartslætti þess. Rannsóknir benda til þess að einn til tveir bollar séu passlegir.

6. Ekki þrífa kattarklósettið

Úrgangur katta er frekar eitraður. Ráðlagt er að óléttar konur forðist að koma nálægt kattarsandinum. Þar er mikil gróðrastía baktería og sníkjudýra sem geta haft áhrif á þroska barnsins í móðurkviði. Ef það er enginn annar til þess að þrífa eftir kettina þá skal muna að klæðast hönskum og þvo sér um hendur. Eins verða óléttar konur að muna að þvo sér um hendurnar eftir að hafa klappað dýrinu sínu.

7. Geymdu hælaskóna

Stoðkerfið er undir miklu álagi á meðgöngu og sérfræðingar mæla almennt með því að konur leggi hælaskóna á hilluna rétt á meðan þær ganga með barn. 

8. Ekki sitja eða standa of lengi

Það getur verið vont að vera lengi í sömu stellingu. Það eykur líkur á bjúgsöfnun og verkjum í stoðkerfinu.

mbl.is